Til þess að viðhalda trúnni á lækningamátt hómeópatíu þarf stöðugt að mata markaðinn á nýjum sannfæringarkornum um mátt hrista vatnsins. Ekki má efinn fara að læðast inn hjá kúnnunum eða vatnshristurunum því þá gæti hinn augljósi sannleikur grafið um sig og eitrað hugann.

Grundvallarhugmynd hómeópatíunnar, að vatn sem hefur verið hrist og þynnt á ákveðinn hátt geti haft læknandi áhrif, gengur engan vegin upp, hvorki með rökleiðslu eða raunvísindum. Þá þarf að grípa til öðruvísi útskýringa og finna upp sannanir. Algengt er að hómeópatar hreinlega afneiti vísindunum og segi að þau séu ekki nógu fullkomin til þess að greina og skilja þessa yfirnáttúrulegu orku. Samt eru hómeópatar, í nokkurs konar mótsögn við sjálfa sig, manna duglegastir við að framleiða rannsóknaniðurstöður og reyna með því að sýna fram á virkni remedíuvatnsins með vísindalegum hætti.

Vísindarannsóknir hómeópata eru fyrirbæri í sjálfu sér. Margar þeirra eru, þegar að er gáð, reyndar ekki eiginlegar rannsóknir heldur kannanir eða talningar sem ekki eru til þess fallnar að leiða í ljós sannleika með samanburði við annað. Aðrar eru settar upp á svo gallaðan hátt – af svo mikilli óskhyggju að það er ómögulegt annað en að fá þá niðurstöðu sem óskað er eftir.  Margar tilraunir hafa verið gerðar til þess að sýna fram á að ofurþynningar vatns eða alkóhóls hafi einhvers konar minni. Með reglulegu millibili er  tilkynnt með lúðraþyt og blæstri um að nú sé fundin vísbending um að vatn geti „munað“ en jafnharðan hafa slíkar uppgötvanir verið kveðnar niður þegar í ljos kemur að um er að ræða misskilning, oftúlkun, óskhyggju eða hreinlega fals. Hómeópatar, eins og margar aðrar „óhefðbundnar“ greinar gefa út eigin tímarit þar sem niðurstöður rannsókna eru birtar, á þeirra forsendum og að sjálfsögðu án mikillar gagnrýni.

Nýlega rakst ég á tilvitnun í enn eina slíka „vísindagrein“ á Facebook-auglýsingasíðu íslensks homeópata sem fjálglega fagnar fæðingu enn einnar sönnunarinnar um að hómeópatía geri gagn.Screen Shot 2013-12-12 at 01.07.03  Auðvelt er að blekkjast af svo vísindalegri tilvísun. Jafnvel menntaður hómeópati skilur ekki svona fínerí. Það þarf alvöru heilbrigðisfræðimenntun til að lesa rétt út úr svona latínu. (Nú fæ ég væntanlega á mig enn einn hrokastimpilinn 🙂 )

Um er að ræða grein frá Frakklandi sem birtist í ritinu „Homeopathy“

Hér má finna samantektina og slóð á sjálfa greinina fyrir þá sem hafa aðgang að tímarítinu:
http://www.ncbi.nlm.nih.gov/pubmed/15751328

Það er þó engin þörf á að lesa alla greinina. Titillinn segir nefnilega allt sem vita þarf til þess að kasta henni á haugana.

Titillinn er langur og hljómar ákaflega vísindalega:

Pharmacoeconomic comparison between homeopathic and antibiotic treatment strategies in recurrent acute rhinopharyngitis in children.

Íslenskun: Lyfhagfræðilegur samanburður milli hómeópatískrar og sýklalyfjalegrar meðferðarstefnu í endurteknum bráðum rhinopharyngitis í börnum

Niðurstaðan er óvenju stutt og laggóð af homeópatíurannsókn að vera:

Homeopathy may be a cost-effective alternative to antibiotics in the treatment of recurrent infantile rhinopharyngitis.

Íslenskun: Hómeópatía getur verið hagkvæmur kostur í stað sýklalyfja við meðferð á endurteknum rhinopharyngitis í börnum.

Ekki slæmt ef satt væri. En raunveruleikinn er talsvert öðruvísi. Rannsóknarefnið er nefnilega valið þannig að niðurstaðan getur aldrei orðið öðruvísi en hómeópatíunni í hag.

Hómeópatar hanna gjarnan rannsóknir sínar þannig að niðurstaðan geti ekki orðið öðruvísi en jákvæð fyrir þá.  Ein algengasta aðferðin er að bera saman meðferð A við meðferð A+B þar sem A er hefðbundin meðferð en B er homeópatían. Þannig er ekki nokkur leið að útkoman verði öðruvísi en jöfn eða aðeins betri hjá A+B þegar við alvöru meðferðina bætast lyfleysuáhrifin af umhyggju hómeópatans.

Hér er þó aðferðin enn ómerkilegri. Hér er tekinn fyrir sjukdómur sem er ólæknanlegur. Venjulegt kvef!  (Rhinopharyngitis er venjulegt veirukvef ekki [bakteríu]hálsbólga eins og hómeópatinn segir í facebook-færslunni)

Svo er homeópatíunni stillt upp í annan arminn og sýklalyfjameðferð í hinn. Borinn er saman kostnaður og fylgikvillar milli armanna (Pharmacoeconomic comparison) og hvor haldið þið að komi betur út? Hrist vatn eða dýr sýklalyf sem hvort eð er hafa ekki nokkurn möguleika á að verka á kvef eða aðrar veirusýkingar en kosta mun meira og geta gefið talsverðar aukaverkanir jafnvel þó þeim sé beitt að óþörfu?

Það þarf ekki að hafa mörg orð um það hversu ómerkileg svona gervivísindaframleiðsla er. Manni er næst að halda að þarna hafi allt heila klabbið verið skáldað upp af einbeittum brotavilja en svo mundi ég eftir „Rakhníf Hanlons“ . Sú kennisetning segir okkur að það sé óþarfi að kenna illgirni eða brotavilja um það sem skýra má með eintómri heimsku.

Björn Geir Leifsson

Pistil þennan má aðeins afrita ef réttilega er getið uppruna og gætt samhengis.