downloadNýjustu fréttir að vestan eru þær að átrúnaðargoð íslenskra sýrustigsjafnara  og lærifaðir míkróskópista, gervidoktorinn og heilsuskúrkurinn Robert O. Young hafi verið handtekinn.

Meðal annars er herra Young frægur fyrir að halda því fram að of lágt sýrustig sé undirrót allra sjúkleika og alkalískt mataræði því allsherjar bót. Þetta vita annars árs læknanemar og hjúkrunarfræðingar að getur engan veginn staðist.

Ákæruliðirnir eru átján. Löggjöf Kalíforníuríkis er mjög eftirlát þeim sem vilja stunda óhefðbundnar meðferðir en það eru takmörk fyrir þolinmæði þeirra. Herra Young var að taka hundruð þúsunda dala fyrir vonlausar meðferðir á örvæntingarfullum krabbameinssjúklingum.

Sem dæmi um andstyggðina þá fór Kim Tinkham til hans með brjóstakrabba í stað þess að leita sér alvöru lækningar. Gervidoktorinn þóttist hafa læknað hana og gerði mikið úr því í tveimur youtube myndböndum. Þegar hún lést skömmu síðar þá voru þessi auglýsingamyndbönd fjarlægð. Saksóknari Los Angelesborgar óskaði nýlega eftir því að fá þau ef einhver ætti og að sjálfsögðu höfðu margir geymt þetta.

Fimmtán ár og átta mánuðir í fangelsi telja menn að geti samtals beðið hans en því miður hefur hann meira en nóg fjárráð til þess að ráða til sín bestu lögfræðinga og menn eru því misbjartsýnir um árangur.  Herra Young hefur áður lent í svipuðu en sloppið með sektir. Nú ætla menn að vanda sig við að stöðva þennan loddara.

BGL