Nýr pistill á Upplýst-vefnum minnir mig á eigin skoplega reynslusögu:
Nokkur ungmenni sátu við matarborðið á Pálmasunnudag og lásu helgarblöðin. Skyndilega ráku þau upp óp og hlógu dátt og innilega. „Þetta er kallinn!“ hrópuðu þau.
Það sem kætti þau svo innilega var að sjá mynd af manni í heilsíðuauglýsingu fyrir fæðubótarefni með tveimur hástemmdum reynslusögum. Þar fullyrðir maðurinn að efnið hafi gert honum kleyft að skara verulega fram úr í vinsælli afþreyingu/íþrótt þrátt fyrir aldur og slæma slitgigt. Krakkarnir höfðu skömmu áður skemmt sér við þessa vinsælu afþreyingu og þar orðið vitni að því þegar maðurinn skeytti skapi sínu á nærliggjandi húsgögnum á heldur ofsafenginn hátt, að því er virtist vegna þess að honum hafði ekki tekist að ná fullum stigum eins og hann gortar af í auglýsingunni. Það þarf vart að taka fram að umrætt fæðubótarefni hefur í vönduðum ransóknum reynst óvirkt við liðvandamálum og samtök sérfræðinga mæla nú gegn því að peningum sé eytt í það.

Reynslusögur af hugsanlegri virkni efna á heilsufarsvandamál geta verið nothæfar sem vísbendingar um hvað er áhugavert að rannsaka. En sem sannanir fyrir virkni eru þær með öllu ónýtar. Um það hvernig og hvers vegna hefur Anna Ragna, doktor í næringarfræði, skrifað skýran og auðskilinn pistil sem lesa má hér.