Eftirfarandi er skrifað sem svar við fyrirspurn Ingibjargar Karlsdóttur*

þar sem hún fer fram á að við birtum og fjöllum um skjal sem kom út í desember 2013 frá undirdeild WHO sem fjallar um „óhefðbundnar lækningar“ eða „hjálækningar“ eins og farið er að kalla það.
Fyrirspurn Ingibjargar er að finna undir titilsíðunni ,Hjálækningar‘. Svar okkar er það ítarleg umfjöllun um þetta skjal að það birtist hér sem sérstök síða í stað einfalds svars í tengslum við fyrirspurnina.

Umrætt skjal heitir WHO traditional medicine strategy: 2014-2023 og má sækja hér á ýmsum tungumálum.

Við í Upplýst-hópnum þurfum að vanda valið á þeim verkefnum sem við tökum að okkur því það liggur mikil vinna að baki því að gera svona efni góð skil. Skjal þetta vakti að sjálfsögðu óblandna hrifningu aðdáenda hjálækninga um allan heim, sem töldu það himnasendingu. Þarna sýndist þeim sem merkilegasta heilbrigðisstofnun heimsins staðfesti skoðanir þeirra allar með tölu.
Að sjálfsögðu kom vel til greina að fjalla um þetta skjal. En við nánari skoðun reyndist skjalið ekki innihalda neitt nýtt, vandað eða áhugavert og alls ekki vera sú staðfesting á notagildi hjálækninga sem áhugamenn um slíkt vilja lesa út úr því.
Þvert á móti er það svo illa unnið og fullt af villum og rangfærslum að skömm er að.
Þetta skjal var heldur ekki í umræðunni á Íslandi, svo þetta var látið kyrrt liggja.

Eins og gefur að skilja þá er ekki hlaupið að því að gera þessu viðamikla skjali góð skil en svo vel vildi til að það voru til minnispunktar um þetta frá því fyrir ári síðan svo hér er samantekt að mestu byggð á þeim.

Á máli þínu má skilja Ingibjörg, að „Skýrslan“, eins og þú kallar skjalið, innihaldi mikilvægar upplýsingar til staðfestingar á því að hjálækningar af ýmsu tagi séu gagnlegar og nauðsynlegar og þyrfti að innlima í heilbrigiðskerfi hinna ýmsu ríkja þar á meðal okkar.
Skjalið inniheldur engar slíkar vísbendingar eða sannanir, aðeins skoðanir lítils hluta af starfsmönnum WHO og tilraun þeirra til þess að setja fram tillögur um stefnumörkun og ráð við innlimun hjálækninga í heilbrigðiskerfin, sem þeim er hugleikin.

Þú nefnir sem röksemd, áætlaðan fjölda notenda hjálækninga um allan heim. Sú staðreynd sannar hvorki né afsannar notagildi þeirra og kallast sú rökvilla  „argumentum ad populum“ – á íslensku kallað „vísun til fjölda“. Stjörnuspár eru lesnar af milljónum manna um allan heim. Það sannar ekkert um notagildi þeirra. Að milljónir noti hómeópatískar remedíur sannar ekki notagildi þeirra. Milljónir bæði í vestri og austri og allt þar á milli trúðu lengi á mátt blóðtöku til lækninga. Svo kom að því að skynsemin og vísindin bentu til ónýtis og hættu af þeim. Samt eru ófáir sem enn nota blóðtökur og ýmsar afleiddar aðferðir í ímynduðu lækningaskyni án þess að sannanlegt gagn sé að.

Að innleiðsla hjálækninga geti minnkað álag á heilbrigðiskerfi og kostnað er ósannað með öllu og í heildina ólíklegt með tilliti til þess sem vitað er um efnið. Sérstaklega ef það er gert án gagnrýninnar skoðunar á notagildi og hættur einstakra efna og aðferða.

Þó höfundar skjalsins setji fram sínar skoðanir sem starfsmenn WHO þá breytir það ekki skoðunum þeirra í staðreyndir. Það sem höfundar kalla „emerging evidence“ er þeirra eigin túlkun á völdum upplýsingum („Kirsuberjatínsla“).

 

Nokkur orð um WHO og hjálækningaáhuga innan þess.
WHO er risavaxin alþjóðastofnun sem lætur sig fyrst og fremst varða lýðheilsutengd málefni á heimsvísu. Hún er ein af undirstofnunum Sameinuðu þjóðanna og er með nokkrum sanni talin virtasta heilbrigðisstofnun heimsins. Mörg lýðheilsuafrek má beinlínis rekja til hennar. Þar ber kannski hæst útrýmingu stórubólu með vel heppnaðri bólusetningarherferð sem var stýrt af sérfræðingum á vegum WHO.

Til þess að gæta jöfnuðar og réttmætis, og koma til móts við áhuga fjölda fólks um allan heim, þá er að sjálfsögðu innan WHO fjallað um „hefðbundnar lækningar“ – „Traditional medicine“, eins og þeir kjósa að kalla það einu nafni. Þeir skilgreina viðfangsefnið svo:

“Traditional Medicine is the sum total of the knowledge, skills, and practices based on the theories, beliefs, and experiences indigenous to different cultures, whether explicable or not, used in the maintenance of health as well as in the prevention, diagnosis, improvement or treatment of physical and mental illness.”

Þarna er, ef svo má segja, gamalli þekkingu og aðferðum „gefinn góður séns“.
Starfsfólk þessarar deildar er, eins og gefur að skilja, áhugasamt um hjálækningar. Verkefnið væri erfitt annars.

Þessi undirdeild WHO hefur ýmislegt tekið sér fyrir hendur gegnum árin. Meðal annars gaf hún 2003 út álit um að nálastungur gögnuðust við miklum fjölda sjúkdóma og kvilla, meðal annars blóðkreppusótt, hvítkornafæð og rangri fósturlegu. Ekkert af þessu hefur verið hægt að staðfesta, hvorki gegn þessum né öðrum kvillum og sjúkdómum sem talin voru upp í því skjali. Rannsóknir á nálastungum leiða betur og betur í ljós ónýti þeirrar aðferðafræði. Hún hefur verið harðlega gagnrýnd og að mestu hrakin með gömlum og nýjum rannsóknum. Þar er virkilega hægt að tala um „emerging evidence“.  Sjá meira um nálastungur og tilvísanir í ítarefni neðar.

Annað dæmi um gagnrýnislausa aðdáun umræddrar deildar innan WHO á viðfangsefni sínu var vinna þeirra frá síðustu aldamótum að skjali um hómeópatíu. Þar söfnuðust gagnrýnislausir aðdáendur greinarinnar, meðal annars hirðhómeópatar Bretadrottningar, í vinnu við að réttlæta hómeópatíu. Þessi nefnd var á góðri leið með að gefa út ráðleggingar um notkun hómeópatíu við hættulegum sjúkdómum á borð við malaríu, berkla og barnaniðurgang. Þeir hunsuðu algerlega það sem til kallaðir sérfræðingar lögðu til málanna en á endanum tókst með samstilltu átaki samtaka vísindamanna að koma í veg fyrir þessa vitleysu á síðustu stundu.  Hómeópatia er eins og öllum ætti nú að vera orðið ljóst þar sem það er vel staðfest af svissneskum, breskum og nú síðast áströlskum heilbigðisyfirvöldum, með öllu ónýt grein hjálækninga ef frá er talið hugsanlegt gildi þess að hómeópatar hafa ofan af fyrir sjúklingum með löngum viðtölum og sýna þeim hluttekningu.

Fleiri stórar heilbrigðisstofnanir og heilbrigðisyfirvöld gera það sem þau geta til þess að gefa hjálækningum möguleika að sanna sig. Þar má nefna NCCIH  í bandaríkjunum og NICE  í Bretlandi.
Markmið allra þessara verkefna er að finna hvað er nýtilegt af því sem kalla má hjálækningar. Það er því ekki hægt að fullyrða að stórar stofnanir og yfirvöld víða um heim hunsi eða vinni á móti framgangi hálækninga. Skynsemi og raunsæi vinna þó ávalt að lokum

Skjalið
Skjalið umrædda, sem frekar ætti að kalla stefnumótunartillögur en „skýrslu“ er skrifað af höfundum sem eru miklir áhugamenn um efnið. Köllum þetta „skjalið“ hér eftir.
Höfundar  setja sér eigin skilgreiningar og viðmið og setja undir einn einfaldan hatt allt sem á einhvern hátt má kalla „hefðbundnar lækningar“ í þeim skilningi að þær tilheyri gamalli hefðbundinni menningu og þjóðlegum siðum eða venjum. Þeir bæta við „traditional medicine“ því sem þeir kalla „complementary medicine“, væntanlega til þess að geta haft með nýrri uppfinningar og búa til regnhlífarhugtakið „Traditional and Complementary Medicine“ sem þeir skammstafa T&CM.  Köllum þetta safnhugtak „hjálækningar“ hér eftir, til einföldunar.
Skjalið í heild sinni ber þess vott að höfundar efast lítt eða ekkert um notagildi hjálækninga, hverju nafni sem þær nefnast.
Höfundar segja að skjalið hafi farið til umsagnar hjá aðildarríkjum en ekkert er rætt um hvernig rýniaðilar voru valdir,um úrvinnslu athugasemda eða hvort tillit var tekið til þeirra. Vísbending um að ýmsar áhyggjur og efasemdir hafi komið fram hjá aðildarríkjunum má þó sjá á mynd 6 eins og komið er að hér á eftir.

Þótt skjalið sé ætlað hinum mismunandi þjóðríkjum til stuðnings og leiðbeiningar við að móta stefnu og markmið við innlimun hjálækninga í heilbrigðiskerfin, þá skauta höfundar nánast algerlega fram hjá því að það geti verið einhver vandamál samfara aðferðum eða meðulum sem falla undir þessa breiðu skilgreiningu.

Eins og þú segir Ingibjörg, þá nefna þeir nokkrar greinar hjálækninga sérstaklega en virðast líta svo á að þær séu allar jafn notadrjúgar. Aðeins er örstutt upptalning á hugsanlegum hættum í „Box 5“ en engin umfjöllun um hvernig eigi að taka á þeim atriðum og engar tillögur um það hvernig megi forðast eða fást við vanda og hættur tengdar hjálækningum.

Í niðurstöðum könnunar meðal aðildarríkja (Figure 6) koma fram ýmis stór og mikilvæg áhyggjuefni tengd hjálækningum, notkun þeirra, reglugerðasetningum og eftirliti.
Skjalið, sem einmitt er ætlað að vera leiðbeinandi fyrir þjóðríkin í eflingu og skynsamlegri beitingu hjálækninga, gefur í raun engin ráð við þessum brennandi áhyggjum flestra aðildarríkjanna. Þetta er auðvitað í hæsta máta undarlegt og ófullnægjandi.

Skjalið inniheldur fjöldann allan af staðreyndavillum. Til dæmis er hreinlega sagt ósatt um niðurstöður og afleiðingar mats svissneskra heilbrigðisyfirvalda á kostnaðargildi hjálækningaaðferða. Það er látið í veðri vaka (Box 10) að þjóðaratkvæðagreiðsla þar í landi hafi leitt til þess að nokkrar hjálækningaaðferðir, þar á meðal hómeópatía, hafi verið enduruppteknar í almannatryggingakerfinu eftir jákvæða útkomu í heilsuhagfræðikönnun.  Þarna er hreinlega rangt með farið. Hið rétta er að könnunin leiddi ekki í ljós neitt sem gat stutt þessar hjálækningar en vegna áhuga sem kom fram í þjóðaratkvæðagreiðslu var gefinn frestur út árið 2015 til þess að koma með gildar sannanir fyrir réttmæti þeirra, að öðrum kosti er ráðgert að fjarlægja þær endanlega úr tryggingakerfinu árið 2017. (Sjá líka grein okkar um „Svissnesku skýrsluna“ ) Þetta er ekki eina dæmið í þessu skjali um villandi upplýsingar og rangfærslur.

 

Ef innleiða á hefðbundnar gamlar, þjóðlegar lækningaaðferðir í heilbrigðiskerfin og gera þau þar með betri, skilvirkari og ódýrari, eins og þú og fleiri virðist lesa út úr þessu skjali, þá hlýtur að þurfa að minnsta kosti að vinsa úr það sem sannanlega er ónýtt. Þar er einfalt að nefna dæmi eins og lithimnugreiningu sem er auðveldlega afsönnuð greiningaraðferð eða hómeópatíu sem ekki hefur reynst nothæf í endurteknum, stórum rannsóknagreiningum heilbrigðisyfirvalda eins og nefnt er hér ofar, enda innihalda remedíurnar sannanlega ekki neitt nema burðarefnin og tilraunir til að finna út hvernig verkun annars á að geta lifað af ofurþynningarnar hafa ekki leitt til neins.

Fyrst þú nefndir þær þá má upplýsa að nálastungur eru einnig á góðri leið með að verða staðfestar sem óvirk lyfleysugrein með tilkomu betri rannsóknaraðferða  og með rannsóknum á sögulegum þáttum í tilkomu þeirra.

Það er ekki síður mikilvægt að geta hindrað notkun á hættulegum efnum og aðferðum. Þar má taka dæmi af Ayurvediskum meðulum sem mörg hafa reynst innihalda eiturskammta af þungmálmum.  Eða af miklum áhyggjum sem risið hafa vegna fágætrar en alvarlegrar hættu á heilaskaða af hnykkingum á hálsi, sérstaklega á ungum einstaklingum, sem leitt hafa til dauða og örkumla. Slíkt er alvarlegt í ljosi þess að ekki hefur verið hægt að staðfesta notagildi meðferðarinnar.

Hér eru aðeins nefnd nokkur af ótal mörgum áhyggjuatriðum í sambandi við hjálækningar. Umrætt skjal horfir algerlega framhjá atriðum sem þessum og setur ekki fram neinar tillögur eða ráð til markhópsins um hvernig skuli fást við þau. Skjalið verður því að teljast vita gagnslaust til þess sem er yfirlýst markmið og tilgangur þess.

Sérlega lýsandi fyrir hina hlutdrægu og einhliða nálgun höfunda er kaflinn í fjórða hluta þar sem lagðar eru fram í tölusettum atriðum stefnumótunartillögur höfunda með augljósri vissu um almennt notagildi hjálækninga og afar lítilfjörlegri vísun til kostnaðar-, virkni- og öryggisþátta:

Strategic actions for Member States:

  1. Based on the greatest potential risks and/or benefits attributable to T&CM used in their country: a. monitor the safety of T&CM; b. identify sources of evidence, whether historical, traditional or scientific, which support or invalidate a particular therapy; c. determine the risk/benefit profile, including cost-effectiveness.
  2. Promote research and development, innovation, knowledge management.
  3. Encourage knowledge generation, translation and dissemination by establishing a comprehensive and inclusive approach to T&CM research and development including into quality and cost-effectiveness.
  4. Develop a national research agenda which acknowledges and includes various types of research models where appropriate.
  5. Develop and share appropriate methods and criteria for evaluating the safety, efficacy and quality of T&CM products and for assessing the value of T&CM practice (e.g., develop resources for research, develop appropriate research methodologies, and encourage investment).
  6. Prevent the misappropriation of T&CM by implementing the relevant international instruments in line with the WHO global strategy and plan of action on public health, innovation and intellectual property, adopting or amending national intellectual property legislation, and enacting other defensive protection strategies.
  7. Protect and conserve T&CM resources, in particular knowledge and natural resources.
  8. Identify how T&CM information is communicated through practitioners, product advertising, practices and the media.
  9. Foster dialogue and partnership between stakeholders. Where relevant to the national need, seek input from international partners with additional information especially concerning global trends and lessons learned.
  10. Publish standard treatment guidelines for use of T&CM, as well as a list of essential herbal medicines.

Strategic actions for partners and stakeholders:

  1. Support collaboration with Member States and WHO in research projects/ programmes on T&CM.
  2. Advise on assessing risks and benefits.
  3. Foster a culture of communication, documentation, evaluation and innovation among practitioner communities, both nationally and internationally.
  4. Increase the availability and awareness of the literature, database and other knowledge repositories.
  5. Develop research methodologies consistent with T&CM theories and practice.
  6. Build up the capacity and capability for international research, including such issues as the adequate protection of intellectual property and the prevention of possible misappropriation.
  7. Support international research collaboration on T&CM.

Strategic actions for WHO:

  1. Continue to provide support and technical guidance to Member States by developing relevant documents and tools regarding policy studies, research, resource preservation and sustainable use.
  2. Promote international collaboration on T&CM research.
  3. Raise awareness of all stakeholders about issues of biodiversity and conservation.
  4. Organize training workshops on policy formulation, research methodology, research ethics and resource preservation.
  5. Collect and disseminate relevant information.

Lokaorð:
Það að höfundar, sem starfsmenn WHO, leggi til að hjálækningar verði innlimaðar í heilbrigðiskerfið, sem þar með yrði betra og ódýrara, þýðir ekki að þeir hafi rétt fyrir sér. Það að skjalið sé útgefið innan vébanda þeirrar stofnunar gerir ekki skýrsluhöfunda sjálfkrafa jafn traustverða og stofnunin í heild.

Almenningur á vesturlöndum hefur mikinn áhuga á að fyllt sé upp í það sem læknisfræðin ræður ekki (ennþá) við. Það veldur oft miklum pólítískum þrýstingi sem allt of oft leiðir til þess að farið er offari og ýmiss konar bábiljur fá inni í nafni hjálækninga. Betra er að nota aðeins það sem hægt er að sýna fram á raunverulegt gagn af, ekki aðeins fánýta stundarfróun lyfleysuáhrifanna. Það verður einnig að vera hægt að koma í veg fyrir skaða.

Dr. Mark Crislip, smitsjúkdómalæknir og áhugamaður um vísindalega nálgun í læknisfræði sagði í tilefni af umræðu um þessa innlimun hjálækninga í heilbrigðiskerfin („Integrative medicine“):

„If you integrate fantasy with reality, you do not instantiate reality. If you mix cow pie with apple pie, it does not make the cow pie taste better; it makes the apple pie worse.“

Á Íslensku mætti leggja þetta út þannig:

„Að blanda saman hugarburði og raunveruleika bætir ekki raunveruleikann. Að blanda mykju í marengsinn gerir ekki mykjuna betri, það skemmir marengsinn“

Fyrir hönd upplýst-hópsins
BGL

Pistill þessi er að venju ritrýndur og endurskoðaður af öðrum meðlimum Upplýst.

*Við göngum út frá því að um sé að ræða Ingibjörgu Karlsdóttur hómeópata m.m.  þó innsendarinn hafi einungis gefið upp nafn sitt. Ef upplýsingar um annað berast mun þetta að sjálfsögðu verða leiðrétt.