
Lyfleysuáhrifin
Ég var eitt sinn spurður þeirrar einkennilegu spurningar hvort að heilaþvottur væri nokkuð verri meðferð en önnur ef að fólki liði vel af henni.
Það spyrja sig ýmsir að þessu eftir að þeir/þær gera sér grein fyrir því að gervilækningar snúast ekki um sannanlega hluti, heldur ímyndaðan hugarheim. Á fræðimáli snýst þetta um það hvort að svokölluð „placebo“ eða lyfleysuáhrif séu réttlætanleg eða ekki. Er í lagi að blekkja til að ná tilætluðum árangri með meðferð sem byggir á trú á ímyndaðan veruleika?
Almennt gildir í starfi heilbrigðisstétta, að það er ekki réttlætanlegt að nota lyfleysuáhrif viljandi, sem eitt og óstutt úrræði. Mögulega geta komið upp sjaldgæf tilvik við aðstæður þar sem slík blekking gæti verið réttlætanleg um skamman tíma en það væri neyðarúrræði. Það að gefa í skyn einhverja möguleika eða lækningar sem eru ekki fyrir hendi er ekki leyft skv. 19. grein siðareglna lækna: „Læknir má ekki gefa fyrirheit um undralækningar […].
Skaðlegar afleiðingar af viljandi beitingu lyfleysuáhrifa til að ná ákveðnu meðferðarmarkmiði geta verið eftirfarandi:
- Upp kemst um blekkinguna og traust milli læknis og skjólstæðings rofnar.
- Traust til lækna almennt liði fyrir ef fólk hefði það á tilfinningunni að læknar notuðu lyfleysur eftir hentisemi.
- Einlægni tapað. Það er betra að viðurkenna að það séu engin úrræði.
- Horft framhjá því í sumum tilvikum að það er engin þekkt meðferð og því er aðlögun að þeim raunveruleika seinkað.
Í tilvikum þar sem óviljandi lyfleysuáhrif eru samfara gervimeðferðum geta lyfleysuáhrifin (huglæg tilfinning um bata sem varir í skamman tíma) framlengt notkun slíkra úrræða sökum blekkingarinnar sem fylgja þeim. Gervilækningar eru:
- Mögulega skaðlegar heilsu þess sem fær gervimeðferðina. Margar gervimeðferðir eru skaðlausar því að þær eru án virkni (t.d. hómeópatía) en sumar eru skaðlegar beint (sveltikúrar eða notkun hættulegra náttúruefna) eða óbeint (fólk missir af bjargandi meðferð).
- Eyðilegging á þekkingu, því gerviþekking breiðist út og elur á fordómum gagnvart vísindalegri þekkingu.
- Eyðilegging á mannauði. Fólk sem lærir og svo iðkar gervilækningar er oftast það fólk sem er mest blekkt og það eyðir tíma, fé og vinnu í að iðka það að gefa fólki „nýju fötin keisarans“. Það er sóun á kröftum fólks.
- Fjárhagslegt tap á ýmsa vegu. Kostnaður við að læra gervilækningar og svo fjárútlát fólks í að kaupa gagnslausar gervilausnir. Ætlað gagn af lyfleysuáhrifum þverra út á stuttum tíma. Aukinn kostnaður í heilbrigðiskerfinu vegna skaðsemi gervilækninga á heilsu fólks. Alverst yrði ef heilsutengd gervifög yrðu tekin upp á arma hins opinbera eða studdar af tryggingasjóðum.
Heilmikið hefur verið skrifað um lyfleysuáhrif og stundum eru þau notuð beinlínis til að skaða og heita þá nocebo, sbr. fólk sem hræðir líftóruna úr fólki með því að spá fyrir um heilsutapi hjá því eða miklum náttúruhamförum. Svartigaldur og woodoo eru þeirrar ættar.
Það var ekki laust við að sumir málsmetandi læknar mæltu með notkun lyfleysa hér áður, en það má segja að með birtingu niðurstöðu rannsóknar Árna Hróbjartssonar og Peter C. Götzsche í NEJM árið 2001 hafi þær raddir þagnað. Niðurstaða samantektar á gögnum stærstu rannsóknanna á lyfleysu sýndi að það var ekki hægt að mæla með notkun hennar.
Í kringum lyfleysur eru heilmikil fræði og segja þau margt um það hvernig væntingar fólks geta stýrt hugarfari og líðan í skamma stund. Rétt eins og lygar, þá geta lyfleysur létt á áhyggjum, en það er úrræði sem byggt er á sandi.
Svanur Sigurbjörnsson, læknir

Velkomið er að afrita og nota efni þessarar greinar á fjölbreyttan máta sé heimildar getið.
Færðu inn athugasemd