Sjónvarpsfrétt frá sænska ríkissjónvarpinu (SVT) segir frá sænskum rannsóknum á nálastungumeðferð.

Þarna er beitt plat-nálum til þess að prófa hver áhrifin eru miðað við „alvöru nálastungur“. Sýnt er hvernig þessum fölsku nálum er beitt þannig að viðtakandinn er „blindaður“ á hvort er. Bæði við „alvöru“ stungur og plat-stungurnar er hafður hólkur utan um nálina. Plat-nálarnar eru sljóar svo þær gefa aðeins tilfinninguna að stungið sé en ýtast inn í skaftið í stað þess að fara ofan í holdið. Auk þess eru þær ekki settar á „rétta“ nálastungustaði samkvæmt fræðunum.

Platið virkar jafn vel og stungurnar
Tekið er dæmi um meðferð við ógleði af krabbameinsmeðferð sem tveir af hverjum þremur fá. Með „alvöru“ nálastungum minnkar þessi ógleði um helming. Nákvæmlega sömu áhrif fást af gervinálastungunum.  Augljósa niðurstaðan af þessu hlýtur að vera sú, að það er ekki nálastungumeðferðin sem slík sem gefur bætandi áhrifin heldur umstangið, athyglin og óskhyggjan. Sem sagt lyfleysuáhrif.
Fjölmargar svipaðar rannsóknir víða um heim staðfesta á sannfærandi hátt þessa niðurstöðu þannig að sumir eru farnir að kalla nálastungumeðferðir  Lyfleysuleikþátt  eða eins og það kallast á ensku:  „Theatrical Placebo“  Hér er góð samantekt á stöðu nálastungurannsókna með miklum fjölda tilvitnana.

Því miður vill sjálf kvikmyndin ekki sýna sig hér á síðunni en það gengur vel að horfa á hana beint á vef SVT:
http://www.svt.se/nyheter/vetenskap/fejkad-akupunktur-funkar-lika-bra-som-riktig

Björn Geir Leifsson

Breyting 8.4.2015: Hlekkir á frétt SVT lagaðir