Smáskammtalyf (remedíur), grasalyf, hefðbundin lyf, aukaverkanir og ofnæmi

Í þessum pistli langar mig að útskýra muninn á smáskammtalyfjum (hómópatískum remedíum), grasalyfjum og hefðbundnum lyfjum.

Smáskammtalyf

Smáskammtalyf geta verið úr jurtum, dýrum, steinum, mold eða jafnvel mykju, en flest eru þau úr jurtum. Það skiptir þó ekki máli hvað byrjað er með því endanlega varan inniheldur ekkert af upprunaefninu.

Hugmyndin á bakvið smáskammtalyf er að það sem veldur einkennum (kvefi, verkjum, hita eða alvarlegum sjúkdómum), geti linað þessi sömu einkenni, þ.e. að “líkt lækni líkt”.

Þar sem mörg efnin eru eitruð var farið að þynna þau og talið að það gæfi sömu raun og jafnvel betri, að áhrifin væru því meiri sem efnið væri útþynntara. Gæta þyrfti þess eins að hrista nógu vel milli þynninga.

Þynningarefnið er yfirleitt vatn en steinefni eru þynnt fyrst með mjólkursykri og síðan vökva. Algeng þynning er 30C sem þýðir að upphaflega tinktúran er þynnt þrjátíu sinnum og í hvert skipti er þynningin hundraðföld. Auðvelt er að sýna fram á að sáralitlar líkur séu á því að ein einasta sameind af upphaflega efninu úr jurtinni/dýrinu/steininum sé til staðar í glasinu sem sett er í sölu í kjölfar slíkrar ofurþynningar. Þannig að þó að upprunaefnið gæti hugsanlega haft einhver áhrif (td eitrunaráhrif) er afar ólíklegt að það sé til staðar í vörunni.

Þegar þynningin er talin næg er vökvanum dreypt á sykurpillur og látinn þorna. Smáskammtalyf innihalda því flestöll ekkert nema sykur. Það eru engar líkur á því að nein virkni sé til staðar.

Smáskammtalæknar halda því fram að vatnið/sykurinn “muni hvað í því var”. Ef blandan var hrist vel í þynningarferlinu, þá séu lyfjaáhrifin í vatninu og flytjist yfir í sykurpilluna, þó lyfjasameindin sé ekki lengur til staðar. Þetta stangast á við allt sem þekkt er um hegðun og eðli efna og hefur aldrei verið hægt að sýna fram á að nokkuð sé til í þessu. Því er ekki nema von að vandaðar rannsóknir finni enga virkni í smáskammtalyfjum.

Grasalyf

Grasalyf eru úr heilum blöðum, hnýðum, rótum, stönglum eða berki jurta. Öfugt við smáskammtalyfin er hugmyndin sú að áhrifin aukist því sterkari sem blandan er, en ekki er mælt með of sterkum blöndum vegna aukaverkana og eituráhrifa sem þá geta hugsanlega komið fram. Grasalæknar og náttúrulæknar halda því fram að samspil margra efna í jurtinni valdi heildaráhrifum lyfsins. Þess vegna sé ekki nóg að einangra virka efnið úr jurtinni og gefa það.

Hefðbundin lyf

Ýmis hefðbundin lyf sem læknar ávísa eru upphaflega úr jurtum, rétt eins og grasalyf og mörg smáskammtalyf. Munurinn er sá að í hefðbundnum lyfjum hefur virka efnið verið einangrað. Stundum er það framleitt efnafræðilega eða tæknilega, sem er bæði ódýrara og hlífir plöntunni í náttúrunni. Hefðbundin lyf fá ekki að fara á markað fyrr en virknin hefur verið sönnuð vísindalega, og aukaverkanir, milliverkanir við önnur lyf og ofnæmisviðbrögð hafa verið rannsökuð. Skammtastærð er metin til að fá sem mesta verkun, án þess að verulegar aukaverkanir eða milliverkanir komi fram.

Lyfleysa

Nú hafa ýmis smáskammtalyf og grasalyf verið prófuð vísindalega. Ekki hefur tekist að sýna fram á að smáskammtalyf komi að gagni umfram lyfleysu (placebo), þegar um sjúkdóma eins og kvef, höfuðverk, svefnleysi eða alvarlegri sjúkdóma er að ræða. Það þýðir að það hefur sömu áhrif að taka smáskammtalyf og hreint vatn eða sykurpillu. Möguleg áhrif eru eingöngu vegna væntinga um bata, vegna þess að sjúklingurinn trúir því að um lyf sé að ræða, og líður þess vegna betur eftir inntöku.

Afnæming

Afnæming er meðferð sem hefðbundnir læknar nota við erfiðu ofnæmi. Aðferðafræðin minnir að nokkru leyti á hugmynd smáskammtalækna um að “líkt lækni líkt” þó útfærslan sé gerólík og þynningin fjarri því eins mikil.

Ofnæmisvaldurinn “læknar” ofnæmið, sé hann gefinn sjúklingnum í vel útþynntu formi til að byrja með, svo útþynntu að ofnæmiseinkenni eins og útbrot, nefrennsli eða kláði í gómi verða minniháttar. Smám saman er gefinn sterkari skammtur, þar til sá sem af ofnæminu þjáist hefur “vanist” ofnæmisvaldinum. Ónæmiskerfi líkamans hefur þá aðlagast, hætt að bregðast við ofnæmisvaldinum. Ferlið getur tekið allt frá nokkrum mánuðum upp í 3 ár. Árangur afnæmingar er mismikill eftir því hver ofnæmisvaldurinn er, en áfram er unnið að því að þróa aðferðina.

Samspil

Grasalyf hafa sum hver sannað gildi sitt, en önnur ekki. Virku efnin úr jurtunum hafa þá verið einangruð og prófuð vísindalega. Í einhverjum tilvikum hefur komið í ljós að samspil margra efna í jurtinni er nauðsynlegt til að ná fullri verkun. Kenning grasalækna um að það sé betra að nota heilar jurtir eða jurtahluta, frekar en einangruð efni úr jurtum, er ekkert ólík því sem við næringarfræðingar höldum fram um matinn sem við borðum. Það er betra að borða mat sem inniheldur blöndu af mörgum hollum næringarefnum, frekar en að taka inn einangruð fæðubótarefni á pilluformi. Í matvælum eru hundruð óþekktra og lítt þekktra efna sem ásamt orkuefnum, vítamínum og steinefnum, valda heildaráhrifum fæðunnar á líkamann.

Aukaverkanir og milliverkanir

Hefðbundin lyf bjarga mannslífum og geta haldið niðri sjúkdómseinkennum og bætt þannig lífsgæði og lengt líf þeirra sem hefðu dáið eða þjáðst án þeirra. En flestöll lyf hafa aukaverkanir, og mörg hafa milliverkanir við önnur lyf, og sum geta valdið ofnæmi. Það er því best að þurfa ekki á lyfjum að halda. Þetta veit almenningur og sumir leita frekar í óhefðbundna geirann, til smáskammtalækna eða grasalækna/náttúrulækna, í von um að tinktúrur þeirra og remedíur valdi síður þessum hvimleiðu og óvelkomnu einkennum. Það er þó engin trygging fyrir hinni fullkomnu lækningu.

Grasalyf geta valdið aukaverkunum, milliverkunum og ofnæmi, ekki síður en hefðbundin lyf. Þar að auki er gæðaeftirliti með framleiðslu þeirra oft ábótavant, svo meiri hætta er á að þau séu menguð af aðskotaefnum eins og þungmálmum, eða að neytandinn sé blekktur á einhvern hátt.

Smáskammtalyf sem eru útbúin eins og lýst er hér að ofan ættu ekki að valda neinum óæskilegum verkunum, ekki frekar en æskilegum. Helsta hættan við vel útþynnt smáskammtalyf er að sá sem er haldinn alvarlegum sjúkdómi dragi að leita til hefðbundins læknis, og á meðan versni sjúkdómurinn og verði illviðráðanlegur. En þó eru þekkt dæmi um alvarlegar og jafnvel lífshættulegar aukaverkanir af smáskammtalyfjum sem ekki voru þynnt samkvæmt ströngustu fyrirmælum. Slík tilfelli komu upp nýlega þar sem Belladonna smáskammtalyf frá framleiðandanum Hyland, sem ráðlagt var við tanntöku hvítvoðunga, reyndist innihalda upprunaefnið í nægu magni til að valda alvarlegum eitrunum og nokkrum dauðsföllum.

Anna Ragna Magnúsardóttir  næringarfræðingur
Þessi pistill er eign höfundar og má hvorki afrita hann né nota efni hans án leyfis.
Síðast endurskoðað 20. mars, 2018. Titli breytt 17.2.2017.