Gagnrýnin hugsun (critical thinking) er ákveðið form hugsunarháttar sem miðar að því að vanda vel til skoðana sinna og þekkingar.  Henni er oft lýst sem ferli fyrir hvern og einn til að bæta sjálfan sig, en hún er ekki síður tæki manna á millum til uppbyggilegra samræðna og vandaðri nálgun við umfjöllun álitamála.

Gagnrýnin hugsun er tæknileg og siðferðileg í senn.  Hún notar vísindalega nálgun að viðfangsefnum en siðferðileg verðmæti eiga að stýra því hvernig við breytum (högum okkur) í kjölfar niðurstöðu.  Sum mál eru hreint út sagt siðferðileg og þá eru siðferðileg rök megin uppistaðan í matinu.  Án siðferðisviðmiða er hætt við sjálfdæmishyggju og þröngsýnum sjónarmiðum. Þá er líka hætta á að lenda í mótsögn við eigin orð eða gerðir.

Gagnrýnin hugsun kemur mest að notum þegar hún verður hluti af ævilangri tileinkun og nálgun hverrar manneskju við myndun og endurskoðun skoðana sinna.  Gagnrýnin hugsun verður þannig að vana, einskonar þekkingarlegri dyggð.

Lítum á hvað felst í gagnrýninni hugsun, gagnvart tilteknu máli sem taka á afstöðu til:

  1. Skilgreina vel og afmarka spurninguna eða umfjöllunarefnið.
  2. Þekki ég allar hliðar og bakgrunnsupplýsingar málsins til hlítar? Ef ekki, þá skyldi maður afla sér upplýsinga og skoða allar forsendur sem virðast vera málinu viðkomandi.
  3. Skoða vel einstaka þætti málsins, hver rök fyrir sig.
  4. Finnast rökvillur í rökfærslu frá forsendu til niðurstöðu?
  5. Vega og meta einstaka hluti málsins saman og í samhengi við stærra samhengi skyldra mála.
  6. Er ósamræmi milli niðurstöðunnar og annarra skoðana minna (eða gjörða)?
  7. Er niðurstaðan siðferðilega ásættanleg? Réttlæti, sjálfræði, samfélagsábyrgð, mannvirðing og líf. Þarf að endurskoða matið?

 

Í gagnrýninni hugsun felst ígrundun, þ.e. að gefa sér tíma til að íhuga málið og leggja það ekki frá sér eða telja afgreitt, nema að maður telji sig hafa metið það með fullnægjandi hætti og eftir því sem hæfir flækjustigi þess.  Mikilvægur þáttur í þekkingarlegri dyggð og gagnrýninni hugsun er að fresta dómi um mál ef að það er óvissa um skoðunina og matinu á því er ekki lokið. Það felst hógværð (og auðmýkt) í því að segja „ég veit það ekki“ frekar en að koma fram með vanhugsaða skoðun, sem mögulega getur haft óæskileg áhrif.

colorgagnrynin-hugsun-ferli

Með gagnrýninni hugsun „hirðir maður vel um skoðanir sínar“ eins og Páll Skúlason, heimspekingur og Rektor HÍ komst að orði. (Er hægt að kenna gagnrýna hugsun? Heimspekivefur HÍ). Hún er verndandi gegn hleypidómum og röngum ákvörðunum teknum í flýti og íhugunarleysi.  Hún felur ekki í sér að vera sífellt með aðfinnslur yfir hverju sem er í tíma og ótíma, heldur að nota dómgreindina um það hvenær umræða er opin og velkomin, og kynna sitt mál af þolinmæði og fullri virðingu fyrir viðmælandanum. Gagnrýnin hugsun er ekki síður siðferðileg afstaða, en rökhugsun og þekkingarleg úrvinnsla.

Hér á síðum Upplýst-hópsins eru hin ýmsu heilsutengd úrræði og fræði skoðuð með gagnrýninni hugsun.  Það er ekki markmið að gera lítið úr þeim sem við teljum að iðki gervifræði eða gervilækningar, heldur að koma fram með rökstudda skoðun á viðfangsefnunum, ekki fólkinu.  Þó geta verið ástæður til að telja iðkendur eða seljendur þess sem verður ekki séð annað en að sé heilsusvindl (heilsutengd svikastarfsemi og prettir) ámælisverða og siðferðilega óábyrga.

16. feb. 2017 Svanur Sigurbjörnsson.