Ein af þeim gervifræðum sem félög innan Bandalags Íslenskra Græðara (BIG.is) halda úti er höfuðbeina- og spjaldhryggsjöfnun (Craniosacral therapy / balancing), (hér eftir skammstafað HBSJ).  HBSJ er sögð hafa sprottið frá osteópatíu sem er grein handfjötlunar á stoðkerfinu til að eiga við ýmis einkenni þaðan og hefur náð hve mestri útbreiðslu í Bandaríkjunum.

Tilurð gervifags

Það var árið 1899 að nemi í osteópatíu, William Sutherland, fór að velta fyrir sér líkindum með eyrnarbeini og tálknum fisks, og í framhaldi af því hvort að eyrnarbeinið tengdist önduninni. Þegar hann þreifaði höfuðbein manneskju taldi hann sig hafa numið með fingrunum taktfasta, rólega bylgju í heila- og mænuvökvanum, um 8 sinnum á mínútu. Út frá þessu þróuðust hugmyndir hjá honum um að höfuðbeinamót fullorðinna væru á hreyfingu en nákvæmar mælingar á sviði læknisfræðinnar hafa ekki sýnt fram á slíkt.  Það var svo löngu síðar að þessar óprófuðu tilgátur fengu byr undir vængi sína með tilkomu þess að osteópatinn John Upledger tók  þær upp á arma sína og stofnaði fyrirtæki í kringum þær, The Upledger Institute, Inc., árið 1985. Upledger bjó til heitið á gervifaginu og formaði nánar allskyns hugmyndir í kringum HBSJ. (Sjá t.d. í „learning module Univ. of Minnesota„). Með því gerði hann HBSJ að söluvænlegu gervifagi.

Það má lesa um þessi gervifræði í bókinni Craniosacral Therapy sem Upledger og Jon Vredevoogd gáfu út árið 1983 (Eastland Press, Seattle WA).  Þetta mætti andstöðu á meðal bandarískra osteópata sem hafa (ólíkt þeim Evrópsku) fetað veg almennra raunvísinda og læknisfræði á 20. öldinni. Upledger naut góðs af nýaldarbylgju gervifaga upp úr 9. áratugnum og HBSJ hefur náð næstum eins miklum vinsældum í þeim kreðsum (heimi græðara) eins og hómeópatía.

Í umræddri bók beina þeir sjónum sínum að beinum og himnum miðtaugakerfisins, frá hvirfli til rófubeins. Í formála bókarinnar segja höfundar að „talsvert magn [sé innifalið] af [sjónrænum] athugunum og [huglægum] kenningum, sem hafi ekki enn staðist vísindalegar prófanir“.  Siðan kemur þessi athyglisverða setning:

Við biðjum um eftirlátssemi þína í þessum efnum. Með áframhaldandi klínískri notkun og athugun, nær iðkandinn að greina á milli staðreyndanna (the fact) og hugaróranna (the fantasy). Tíminn mun sýna fram á áhrifagildi HBSJ.

Þeir halda svo áfram að tala um að HBSJ henti þeim sem læknavísindin geti ekki hjálpað. HBSJ geti þar veitt „dramatíska hjálp“.  Ástæðan sé sú að læknavísindin eigi eftir að uppgötva „tilveru höfuðbeina- og spjaldhryggskerfisins og meinafræðilega þýðingu þess“.

Þeir Upledger og Vredevoogd lýsa bjargfastri trú sinni á HBSJ, jafnvel fyrir kvilla og sjúkdóma sem læknavísindi hafa ekki fundið lausn á. Samt hafa þeir engar haldbærar sannanir fyrir tilgátum sínum og viðurkenna að þær séu ekki staðfestar og séu í aðra röndina „fantasía“. Þeir bera því við að HBS-kerfið hafi verið „uppgötvað fyrir 50 árum“ og að „tíminn muni sýna fram á áhrifagildi HBSJ“.  Það er eitt einkenni gervivísindamanna og heilsuskrumara að þeir telja fólki trú um að það sem eigi sér háan aldur eigi sér þar með styrka stoð. Þeir vita að fólk tekur mið af því að ef eitthvað er ekki gleymt og grafið, þá geti ástæðan fyrir því verið sú að það sé einhvers virði. Það hafi staðist tímans tönn.

Tilbúin kerfi út frá óstaðfestum „athugunum“

Bókin fjallar svo um tilbúið kerfi þeirra félaga þar sem meðal annars á að vera hægt að nema þennan „púls“ eða „öndunarhreyfingar“ heila- og mænuvökvans sem þeir kalla „frumöndun“. Engin mæliaðferð eða mælitæki hafa numið þennan „púls“ þeirra, nokkurn tímann. Heila- og mænuvökvinn hefur ekki eiginn púls, né það frumukerfi sem losar hann út í heilahólfin. Sú „fantasía“ sem þeir svo lýsa í bókinni hefur einmitt haldist sem fantasía og á enga stoð í raunveruleikanum.  Tíminn hefur ekki hjálpað þeim Upledger og Vredevoogd – hugarburður þeirra er enn hugarburður.

Það er hægt að eyða miklum tíma í að hrekja hugarórana og rangfærslurnar í þessari bók, en það þjónar engum tilgangi. Þegar tilgáta er byggð á einhverju sem menn þykjast hafa séð eða fundið fyrir í fingrunum, en vanrækt að sýna fram á tilvist þess með vísindalegum hætti, svo áratugum skiptir, er málið afgreitt. Hið ólíklega og ótrúlega er nákvæmlega það, nema alveg sérstök sönnunargögn komi í ljós. Þau hafa ekki komið fram um HBSJ.

Eitt einkenni skrumara er að þeir fullyrða um hluti sem þeir vita að þeir geta ekki fullyrt um.  Á bls. 7 segja þeir:

Með nálægri skoðun [observation: með augunum] á breytingum í höfuðbeina-spjaldhryggs-hreyfingu, gátum við staðsett af nákvæmni skemmdina í mænunni sem olli helftarlömun og útlimalömun í mænusótt, Guillain-Barre heilkenni, mænuæxli og af slysförum.

Þetta segjast þeir geta fundið með þreifingu og út frá breytingu á tíðni púlsa HBS-vökvans sem ykist í 20-30 skipti á mínútu (úr 6-12). Máli sínu til stuðnings birta þeir teiknaða skýringarmynd af einhverjum ímynduðum tálm-svæðum og hlutleysis-svæðum í HBS-kerfinu.

Þegar vísindamenn koma fram með „kenningar“ út frá sjónrænum eða skynrænum athugunum þarf að staðfesta mælingarnar með óvéfengjanlegu viðmiði mælinga. Það þarf t.d. að mæla með röntgenmynd, tölvusneiðmynd, krufningu, vefjasýni, þrýsti- og hreyfinemum og svo framvegis. Þó að þeir félagar Upledger og Vredevoogt hafi ekki haft ýmis mælitæki nútímans höfðu þeir ýmislegt á sviði röntgenmælinga (sneiðmyndatæki voru komin) og mælinga á þrýstingsbylgjum (t.d. næma þrýstingsmæla til að mæla „HBS-púlsinn“). Þeir kusu þó að sleppa öllu slíku og fullyrða bara ofangreint. Þeir hafi sjálfir „skoðað það“ nákvæmlega og því sé það svo. Þeir skreyta svo mál sitt með alls kyns vísindalegu málfari þannig að fyrir leikmenn í vísindalegri aðferð hljóma þeir sannfærandi.  Á tungumáli allra (vísindafólks og leikmanna) er þetta þó einfaldlega „bull“.  Af bulli verður ekki ályktað annað en bull.

Vísindafólk fer jafnan varlega í sakirnar og á það til að segja í lok skýrslna: „…en það þarf að rannsaka það nánar hvort að gildi meðferðar/aðferðar komi í ljós“, svona eins og til að tryggja sig gagnvart hinu afar ólíklega. Hér er dæmi um slíka skýrslu sem á vandaðan máta tekur saman rannsóknargögn um HBSJ og segir í fyrirsögn sinni:  „Craniosacral Therapy: The Science of Belief“ þ.e. „HBSJ: vísindi trúar“.  Trú á jú ekkert skylt við vísindi og niðurstaða skýrslunnar er sú að enginn fótur vísindagagna sé fyrir HBSJ.  Varnaglinn sem sleginn er, er ósiður því að það má skýrsluhöfundum vera alveg ljóst að HBSJ er tilbúningur, „fantasía“ eins og Upledger og Vredevoogd lýstu sjálfir.

Beint að fólki í viðkvæmri stöðu

Í 15. kafla bókar þeirra félaga er sérstakur sjúklingahópur nefndur: „Nýburar, ungabörn og börn“.  Það er því ekki tilviljun að HBSJ iðkendur hafa sótt í að meðhöndla óværð í ungabörnum og ýmsa kvilla barna sem foreldrar hafa ekki fengið svör við hjá læknum. Þetta er sérlega óviðurkvæmilegt og óvarlegt í ljósi blekkingarinnar á bak við HBSJ. Nýbakaðir foreldrar eru viðkvæmur hópur sem vilja gera allt fyrir barnið sitt. Velviljuð ásýnd HBSJ-græðarans er aðlaðandi en að baki liggur ekki fræðigrunnur heldur nútímalegt ígildi galdralækninga. Sú létta snerting og þreifing HBSJ-græðara um höfuð og spjaldhrygg barna veldur ekki beinum skaða, en hún felur í sér blekkingu og gæti tafið greiningu og meðferð hjá lækni í einhverjum tilvikum.  Öll varleg og blíð snerting getur róað óvær börn þannig að það er ekki furða að sumir telji að HBSJ virki. Höfuðmeiðsl hafa þó átt sér stað við handfjötlun HBSJ á börnum (sjá vandaða skýrslu University of British Colombia, Canada og frásögn af dauðsfalli barns) og það má telja það ámælisvert að láta ungabarn í hendurnar á gervifagmanneskju án vitneskju um gögn fyrir gagnsemi. Skaðinn var vegna slyss en aðstæðurnar sem voru skapaðar voru óþarfar. Sé um að ræða sölu á HBSJ af hálfu menntaðs heilbrigðisstarfsmanns (t.d. lækni eða hjúkrunarfræðings) er það andstætt lögum um heilbrigðisstarfsfólk (nr. 34/2012) og réttindi sjúklinga (nr. 74/1997).

Afleiðingar

Óheyrilegum fjármunum hefur verið varið í gervifög eins og HBSJ, t.d. vegna kaupa á þjónustunni, markaðssetningar, kennslu og svo vegna rannsókna sem hafa ekki leitt í ljós neitt gagn. Þá hefur tíma fólks verið eytt í þetta í áratugi. Alvarlegt er að hæfileikum og tíma fólks er sóað í þessi gervifræði með námi í þeim. Furðulegum hugmyndum um eðli og starfsemi líkamans er gert hátt undir höfði og þeim dreift út. Þetta skapar árekstra og það tekur tíma að leiðrétta og koma hugarheimi þekkingar á rétta braut á ný. Gervifög eru því þekkingarlega séð eyðileggjandi í menningu þjóða og valda vannýtingu á mannauði þeirra.

Það er sérlega slæmt þegar viðurkenndar heilbrigðisstéttir taka upp gervifög á sína arma í leit að nýjum leiðum þar sem heim vísinda skortir svör. Það er ekki réttlætanlegt að taka bara eitthvað upp og skoða það ekki gagnrýnið. Þegar leikmenn geta ekki lengur þekkt kjarnann frá hisminu út frá þeim aðilum sem eiga að lýsa leiðina og standa fyrir ábyrgri vísindalegri heilbrigðisþjónustu og menntun á háskólastigi, er fokið í flest skjól. (Sjá t.d. HBSJ (Craniosacral) sem námsefni í deild um „spirituality and healing“ við háskólann í Minnesota) Slíkri óheillaþróun þarf að snúa við hið fyrsta.

4. feb. 2018

Svanur Sigurbjörnson, læknir