Vangaveltur um muninn á grasalækningum og innihaldslausu kukli

Ég hef undanfarin misseri stytt mér stundir við að skoða og skilgreina það sem oftast er talað um undir safnheitinu óhefðbundnar lækningar.  Þar liggur aðallega að baki andúð á hvers konar heilsutengdum svikum og blekkingum sem ég hef séð allnokkuð af í mínu læknisstarfi og enn meir eftir því sem ég hef kynnt mér heim “óhefðbundinna lækninga” betur.

Síðustu mánuði hef ég einbeitt mér mest að hulduheimum hómeópatíunnar. Ég hef hugsað mér að skrifa um uppgötvanir mínar í nokkrum pistlum á næstunni en tel rétt að byrja á því að leiðrétta útbreiddan og leiðinlegan misskilning um hómeópatíu: Hómeópatía á ekkert skylt við grasalækningar!

Það er merkileg lífsreynsla að kafa ofan í sögu þessarar furðugreinar sem kallast hómeópatía og skoða hvernig og hvers vegna orðið hefur úr henni risavaxinn gróðaiðnaður sem byggir á ofurtrú á einhverju sem engan veginn er hægt að sýna fram á og á sér enga stoð í raunveruleikanum. Skrif hómeópatanna sjálfra eru í stórum stíl orðin aðgengileg gegnum netið og það er nánast óraunveruleg upplifun að lesa þeirra eigin vangaveltur, reynslusögur, bloggsamskipti og útlistanir á fræðunum. Furðulegast er þó að sjá hvað þeim dettur í hug að nota í töframeðulin sem kallaðar eru remedíur og hvernig þeir prófa þær. Helst dettur manni í hug að líkja þessum kynnum við heimsókn í einhvers konar undraland á borð við það sem Lísa heimsótti í frægri sögu Lewis Caroll.

Hómeópatíumeðul eru tóm, í orðins fyllstu merkingu

Hómeópatíumeðul (remedíur) innihalda hvorki náttúruefni eða grös né neitt annað virkt efni sem heitið getur því að grunnefnið sem remedían er kennd við er þynnt út þar til sama sem engar líkur eru á að eitt mólekúl sé eftir af grunnefninu. Ekkert verður eftir nema burðarefnin sem eru ýmist sykur, vatn eða vínandi. Hómeópatar láta reyndar gjarnan í veðri vaka að það sé eitthvað skylt með remedíum þeirra og grasalyfjum eða öðrum náttúrumeðulum. Þetta gera þeir helst með því að láta hjá líða að útskýra hvernig remedíurnar eru búnar til. Tilneyddir viðurkenna þeir reyndar að þær geti ekki innihaldið neitt af upprunaefninu en finnst hentugt að sleppa því að minnast á þetta litla atriði þegar þeir geta. Gott dæmi um slíkt fals er einn stærsti hómeópataupplýsingavefur landsins sem minnist hvergi einu orði á á þá staðreynd að remedíur innihalda ekki neitt af þeim efnum sem þau eru kennd við (www.htveir.is). Þar er berlega gefið í skyn að um sé að ræða náttúrumeðul og lesendur þannig látnir halda að þau innihaldi virk efni.

Remedíur (sykurpillur) í íslenskri heilsuvöruverslun
Remedíur (sykurpillur) í íslenskri heilsuvöruverslun

Hómeópatar eru duglegir að telja upp rannsóknir fræðunum til stuðnings en vísindamenn eru jafn duglegir að kveða þá jafnharðan í kútinn þar sem rannsóknirnar standa sjaldnast undir nafni aðferðafræðilega og niðurstöðurnar ráðast meira af óskhyggju, árangursvon og oftúlkun

Hómeópatar leita því líka með logandi ljósi að einhverju sem skýrt getur yfirskilvitlega virkni ofurþynntra remedía  en ekki tekst það heldur. Ýmsar tilraunir hafa verið blásnar upp en falla jafnan á prófinu. Nýjasta tískan í þessum efnum er að kenna skammtafræðinni um og slá um sig með dularfullum nýmóðins vísindaorðum svo sem „quantum“, „orkutíðni“, “nanóeindum”, “allóstatískri krossaðlögun” og fleiru sem hljómar voða merkilegt og vísindalegt en er ekkert nema tilbúningur. Frekari furðusögur um þetta efni hef ég hugsað mér að birta síðar.

Grasalækningar dugðu betur í þá daga

Grasalyf af því tagi sem frægasti grasalæknir Íslendinga, Erlingur Filipusson (1873-1967) og kennarar hans

Erlingur Filipusson
Erlingur Filipusson

kunnu að útbúa eiga ekkert skylt við hómeópatíumeðul. Þar er um að ræða lyf, vissulega frumstæð, búin til úr jurtum sem flest hafa þekkta verkun. Sum eru jafnvel undirstaða góðra lyfja í dag. Nú, löngu eftir andlát Erlings eigum við þó yfirleitt betri og öruggari lyf en þetta var það sem dugði í þá daga og Þórunn amma hans, Þórunn móðir hans og Erlingur voru bara alls ekki slæmir læknar á þeirra tíma mælikvarða. Grasalyfin þeirra gerðu stundum gagn, kannski bara nokkuð oft? Það sama gilti þó ekki um hómeópatísku meðulin, remedíurnar og sú staðreynd hefur ekki breyst því ekkert hefur breyst í hómeópatíunni nema þá að fjöbreytnin og furðulegheitin í remedíugerðinni og gróði stóru remedíuverksmiðjanna hafa magnast upp úr öllu valdi. Sem dæmi má nefna að hómeópatar telja sig nú sumir geta búið til remedíur með hugleiðslu einni saman án þess að hafa grunnefnið við hendina.

Erlingur og hómeópatarnir

Erlingur segir frá hómeópötum  í viðtali í Tímanum, 36. tbl. 11.11.1962 :

Heldurðu, að hómópatarnir hafi verið góðir læknar?

Já, margir þeirra. Sumir voru kannski lélegir en meiri hlutinn var áreiðanlega góður. Ég átti þrjá frændur, sem allir voru hómópatar og læknuðu oft, þegar þeir lærðu voru gengnir frá. Þetta voru þeir Runólfur í Hólmi, Eyjólfur á Reynivöllum og Lárus Pálsson í Arnardranga. — Hómópatarnir læknuðu með þýzkum lyfjum, en aldrei með grösum. Ég er viss um, að þeir hefðu orðið fleiri, hefðu lögin ekki verið sett til höfuðs þeim.

Hvers vegna heldurðu, að þeir hafi farið fást við lækningar?

Þeir aumkuðu aumingjana og vildu hjálpa þeim.

Ljóst er að Erlingur vildi aðgreina sig frá hómeópötunum en bar þó virðingu fyrir þeim þótt þeir “læknuðu með þýzkum lyfjum en ekki grösum”. Um árangur hómeópatanna var Erlingur diplómatískur eins og sést á orðavali hans hér að ofan.

Eitthvað var læknastéttinni uppsigað við hómeópata í þá tíð. Erlingur segir frá því þegar hann sjálfur lenti í vandræðum þegar átti að losna við hómeópata og aðra skottulækna einhvern tíma á millistríðsárunum:

Hvernig hefur samkomulag þitt og læknanna verið?

Þeir eru mér ljúfir og góðir, læknarnir. Ég hitti engan lækni, sem ekki tekur mér sem bróður sínum. En einu sinni fóru þeir í mál við mig. Það eru víst um þrjátíu ár síðan. Það féll ofsóknaralda á hómópatana um þetta leyti. Það átti að útrýma þeim og öðrum réttindalausum, sem fengust við lækningar. Ég átti að fjúka líka. Þegar ég var kærður, lagði ég fram vottorð frá fjórtán eða sextán mönnum, ég man ekki, hvort heldur, sem höfðu leitað til annarra lækna án árangurs, en höfðu læknazt hjá mér. Þá stóðu þeir illa að vígi, en ég fékk samt 300 króna sekt: — Ég álít þá, að ég sé búinn að borga lækningaleyfið, sagði ég, og svo hef ég haldið áfram.

Ekki er að furða þótt Erlingur hafi getað sýnt fram á betri árangur en hómeópatarnir þar sem þýzku hómeópatameðulin innihéldu jú ekki neitt á meðan lyfjagrösin eða öllu heldur afleiður þeirra eru sum enn í dag notuð með árangri. Framan af tuttugustu öldinni að minnsta kosti, er heldur ekki ólíklegt að grasalyfin hafi verið ívið betri en margt af því sem læknarnir höfðu í sinni lyfjatösku.

Björn Geir Leifsson

Efni þessa pistils er eign höfundar og má einungis afrita eða vitna í sé gætt samhengis og uppruna getið réttilega
6/11/2013 Leiðrétt fæðingarár Erlings. Kærar þakkir fyirir ábendinguna Ásthildur Einarsdóttir
7/11/2013 Hlekkurinn um remediutilbúning með hugleiðslu virðist lokaður. Geymd (cached) útgáfa af allri bloggsíðunni er hér. Textinn sem skiptir máli er þessi:
 I made a Hekla 1M by „meditation“ which I’ve dropped off to my patient (whose tooth pain from dubious dental work that had been troubling him for two months healed over a few days and has stayed away – 12/9/00). I felt incredibly clear and energised whilst making it; it felt very windy and desolate as I sort of blew the essence in. When making the remedy I felt:Wind, cold wind rushes through the land, a settling of fine dust permeates and disturbs. It blocks the fine vessels, and sets hard. It is immovable, without violent eruption. After making the remedy, I had definite doubts about anything actually being in there, much the same as when I made up the Venus remedy – well it IS pretty weird! – but did find I had an energy about me, a momentum that I was trying to allow to flow.