Það var fyrir um 200 árum að þýskur læknir, Samuel Hahnemann að nafni, kynnti tilgátu að lækningaaðferð sem hann kallaði hómeópatíu. Líkt og í heimalandi Hahnemanns varð hómeópatía ansi vinsæl í Bretlandi, að minnsta kosti miðað við hvað efni stóðu til um. Þó fjarað hafi verulega undan þessari gerviheilsugrein síðastliðna áratugi þá hefur Karl Bretaprins beitt gríðarlegum áhrifum sínum bak við tjöldin henni til varnar, eflaust vel studdur af móður sinni Elísabetu sem fer hvergi án ferðatösku með safni af helstu sykurpilluremedíunum sínum.

Breska almanna-sjúkratryggingakerfið, National Health Service (NHS), hefur greitt fyrir þjónustu og remedíur hómeópata síðan 1948.
Neðri deild breska þingsins (House of Commons) lét athuga fyrir nokkrum árum hvort hægt væri að réttlæta að heilbrigðiskerfið héldi áfram að greiða fyrir hómeópatískar „lækningar“, sem þá var farið að gagnrýna harðlega á opinberum vettvangi.

Athugun þessa kalla þeir „Evidence check”  sem mætti þýða „Athugun sönnunargagna” á íslensku.
Skýrslan var gefin út 2010 og er vel aðgengileg og læsileg í heild sinni á netinu.

Parliament
Húsakynni breska þingsins (af http://www.parliament.uk)

Þessi skýrsla er opinber skýrsla (í raun og sanni) byggð á vandaðri vinnu fræðimanna, gagnstætt “svissnesku skýrslunni” svokölluðu sem ég skrifaði um fyrir nokkru.
Sú bók reyndist við nánari athugun ekki vera það sem haldið var fram. Hún var hvorki opinber skýrsla svissneskra yfirvalda né sá vitnisburður að virkni og gagnsemi homeópatíu sem hómeópatar hafa verið óþreytandi að vitna í, sölumennsku sinni til stuðnings. Samt er þessu falsi hampað á nánast hverri einustu síðu íslenskra hómeópata og annarra áhugamanna um „óhefðbundnar” heilsumeðferðir.

Niðurstaða bresku skýrslunnar er ótvíræð. Skýrsluhöfundar gefa homeópatíu það sem kalla má núll komma ekki neitt í einkunn og kalla hana, eins og við er að búast, hreina lyfleysumeðferð. Þeir lýsa því ennfremur yfir að ekki sé réttlætanlegt að greiða fyrir hana af almannafé eða kalla hómeópatískar vörur lyf.
En það er við ramman reip að draga að snúa hinu risastóra apparati við og gera fjölda virðulegra og vel séðra sykurpillulækna atvinnulausa. Margir þeirra eiga sér öfluga málsvara innan kerfisins svo þetta á eftir að taka tíma.

Flestir geta lesið þessa skýrslu sjálfir og eiginlega þarf ekki annað en að þýða lokaniðurstöðuna til að kynna hér kjarna málsins.
En fyrir þá sem ekki hafa enn kynnt sér hvað hómeópatía raunverulega er og halda kannski að það séu bara  hvaða grasameðul sem er, þá er best að taka fyrir nokkra hluta. Þetta er stutt og laggott:

Fyrst um eðli og tilgang skýrslunnar:

4. This inquiry was an examination of the evidence behind government policies on homeopathy, not an inquiry into homeopathy. We do not challenge the intentions of those homeopaths who strive to cure patients, nor do we question that many people feel they have benefited from it. Our task was to determine whether scientific evidence supports government policies that allow the funding and provision of homeopathy through the NHS and the licensing of homeopathic products by the MHRA.
 
Íslenskun:
4. Þessi athugun  var grandskoðun á sönnunargögnum að baki stefnu ríkisins varðandi hómeópatíu, ekki athugun á hómeópatíu. Við drögum hvorki í efa fyrirætlanir homeópata um að lækna sjúklinga, né drögum við í efa að mörgum finnst þeir hafi notið góðs af því. Hlutverk okkar var að skera úr um hvort vísindalegar sannanir styðji stefnu ríkisins í að leyfa fjármögnun og þjónustu homeópata gegnum almannatryggingarkerfið (NHS) og leyfisveitingum hómeópatískra vara af hálfu lyfjaeftirlitsins (MHRA).

 Um eðli hómeópatíu:

9. Homeopathy is a 200-year old system of medicine that seeks to treat patients with highly diluted substances that are administered orally. Homeopathy is based on two principles: „like-cures-like“ whereby a substance that causes a symptom is used in diluted form to treat the same symptom in illness[6] and „ultra-dilution“ whereby the more dilute a substance the more potent it is (this is aided by a specific method of shaking the solutions, termed „succussion“).[7] It is claimed that homeopathy works by stimulating the body’s self-healing mechanisms.[8]
 
10. Homeopathic products should not be confused with herbal remedies. Some homeopathic products are derived from herbal active ingredients, but the important distinction is that homeopathic products are extremely diluted and administered according to specific principles.
 
Íslenskun:
9. Homeópatía er 200 ára gamalt lækningakerfi sem leitast við að lækna sjúklinga með verulega þynntum efnum sem eru gefin um munn. Hómeópatía er byggð á tveimur forsendum: að “líkt-lækni-líkt” þar sem efni sem veldur ákveðnu einkenni er notað í þynntu formi til þess að lækna sama einkenni í raunverulegum sjúkdómi[6] og “ofur-þynningu” þar sem því meira þynnt sem efnið er, því virkara er það (þetta er styrkt með sérstakri aðferð við að hrista lausnirnar, kallað “succussion”).[7] Því er haldið fram að hómeópatía verki með því að örva sjálfsheilunareiginleika líkamans.[8]
 
 10. Hómeópatískum vörum skal ekki ruglað saman við grasameðul. Sumar hómeópatískar vörur eru byggðar á virkum efnum úr plönturíkinu, en mikilvægur greinarmunur er sá að hómeópatískar vörur eru ofurþynntar og gefnar samkvæmt sérstökum reglum [hómeópatíunnar].
Remedíur (sykurpillur) í íslenskri heilsuvöruverslun
Remedíur (sykurpillur) í íslenskri heilsuvöruverslun.

Svo er það loks sjálf niðurstaðan, einföld og ótvíræð:

157. By providing homeopathy on the NHS and allowing MHRA licensing of products which subsequently appear on pharmacy shelves, the Government runs the risk of endorsing homeopathy as an efficacious system of medicine. To maintain patient trust, choice and safety, the Government should not endorse the use of placebo treatments, including homeopathy. Homeopathy should not be funded on the NHS and the MHRA should stop licensing homeopathic products.
 
Íslenskun:
157. Með því að bjóða upp á homeópatíu í sjúkratryggingakerfinu [NHS] og veita leyfi lyfjaeftirlitsins [MHRA] fyrir vörum, sem síðan birtast á hillum apóteka, er hætta á að yfirvöld gefi hómeópatíu viðurkenningu sem gagnlegt lækningakerfi.  Til þess að viðhalda trausti sjúklinga, valfrelsi og öryggi, ætti ríkið ekki að styðja notkun lyfleysumeðferða, þar með talið hómeópatíu. Homeópatíu ætti ekki að greiða niður gegnum sjúkratryggingarnar [NHS] og lyfjaeftirlitið [MHRA] ætti að hætta að veita lyfjaleyfi fyrir hómeópatískum vörum.

Svo mörg voru þau orð.

 

Björn Geir Leifsson