Tilbaka: Ofurfæði kemur í veg fyrir krabbamein

Lemon

Margar þjóðsögur um krabbamein eru furðu lífseigar þó þær stangist fullkomlega á við grundvallaratriði líffræði. Einn slíkur hugarburður er sá að of súrt mataræði valdi því að blóðið verði „of súrt“ og það geti aukið líkur á krabbameini. Þeir sem trúa þessu ráðleggja neyslu á heilbrigðara „basísku“ mataræði eins og grænu grænmeti og ávöxtum. Þar á meðal sítrónum sem er auðvitað í furðulegri mótsögn við kenninguna.
Líffræðilega er þetta tóm vitleysa. Það er satt að krabbameinsfrumur lifa ekki af í of basísku (alkalísku) umhverfi en það gera heldur ekki neinar frumur likamans. Blóð er við eðlilegar aðstæður ofurlítið basískt. Líkaminn stýrir sýrustigi þess nákvæmlega og heldur því innan mjög þröngra marka.
Það er ekki hægt að breyta sýrustigi blóðsins eða líkamsvessana með mataræði og aukaleg sýra eða basi í fæðu er einfaldlega skilinn út í þvaginu jafnóðum, allt til að halda eðlilegu, skýrt afmörkuðu jafnvægi. Öndunin tekur einnig þátt í þessari stjórnun á sýru-basa jafnvæginu.

Til þess að halda réttu jafnvægi í líkamanum breyta nýrun sýrustigi þvagsins eftir því hvað þú lætur ofan í þig. Það er í smáatriðum skýrt út í þessari grein. Hægt er að mæla sýrustig þvagsins eftir inntöku mismunandi næringarefna og er það væntanlega skýringin á þeim misskilningi að sumt mataræði geti gert „líkamann basískari“. Það eina sem breytist er sýrustig þvagsins, ekki líkamsvessanna eða blóðsins. Þeir sem halda öðru fram skilja einfaldlega ekki hvernig líkaminn starfar.

Að borða grænmeti er vissulega hollt en það hefur engin áhrif á sýrustig líkamans.

Til er ástand sem kallast blóðsýringur (acidosis). Það er ástand sem skapast ef nýru og öndun geta ekki haldið sýrustigi líkamans í eðlilegu jafnvægi. Þetta gerist t.d. við eitranir eða alvarlega sjúkdóma. Slíkt ástand getur verið lífshættulegt og sjúklingar eru iðullega hafðir í gjörgæslu þegar svo er komið. En það stafar ekki af of súru mataræði.

Við vitum vel að nærumhverfi krabbameinsfruma (microenvironment) getur súrnað. Það er vegna þess hvernig æxlisvefur nýtir orku og súrefni í samanburði við eðlilegan vef. Fyrirbærið er mikið rannsakað í von um að finna aðferðir til að bæta meðferðir krabbameina. En það eru engar vísbendingar eða sannanir fyrir því að mataræði geti haft áhrif á sýrustig líkamans hvað þá haft áhrif á krabbamein gegnum slík áhrif.

Næst: Krabbamein er sykurfíkill