Tilbaka: Krabbamein er sveppur og matarsódi er meðferðin

CuresInternetið er yfirfullt af frásögnum og fullyrðingum um hina og þessa „náttúrulegu“ kraftaverkameðferðina sem á að geta læknað krabbamein og gott betur.

Allt frá kannabis til kaffistólpípu – frá Apríkósukjörnum til Örtíðniáhalda eru auglýst sem slík kraftaverk að ekki bara krabbinn hverfur, heldur flest önnur mannanna mein.
En ótrúlegar fullyrðingar kalla á ótrúlegar sannanir – Kvikmyndir á Youtube eða pósta á Facebook er alls ekki hægt að bera saman við vísindalegar niðurstöður sem hafa verið yfirfarnar og metnar af óháðum vísindamönnum og sannreyndar í endurteknum rannsóknum.
Í mörgum tilfellum er ómögulegt að sannreyna hvort sjúklingarnir í slíkum reynslusögum hafi verið ,læknaðir‘ með hinni tilteknu óhefðbundnu meðferð eða ekki. Upplýsingar vantar um greininguna, stig sjúkdómsins og horfur, og jafnvel hvort yfir höfuð var um að ræða raunverulegt krabbamein. Oftast vantar einnig upplýsingar um hvort aðrar krabbameinsmeðferðir hafi verið notaðar áður eða samhliða. Stundum hefur ætluð lækning verið „staðfest“ með gagnslausri greiningaraðferð, svo sem lithimnugreiningu eða platapparati með blikkandi ljósum, sem margir náttúrulæknar nota og í besta falli mæla viðnám í húð sem ekkert sýnir.

Við fáum líka aðeins að sjá sögurnar sem virðast sýna árangur – hvað um alla hina sem reyndu og lifðu ekki af? Hinir látnu veita engan vitnisburð, og þeir sem lofa hinum stórkostlegu kraftaverkakúrum segja aðeins frá bestu tilfellunum, án þess að taka tillit til heildarmyndarinnar. Oftast kemur síðar í ljós að kraftaverkið reyndist vera tálsýn. Sorglegast er þegar græðarinn kennir sjúklingunum sjálfum um ófarirnar í slíkum tilfellum. Þeir hafi t.d. ekki fylgt fyrirmælum, borðað eitthvað óheppilegt eða bara ekki trúað á lækninguna.

Þetta sýnir mikilvægi þess að birta gögn og niðurstöður ritrýndra (peer-reviewed), vísindalega vandaðra tilrauna og klínískra prófanna. Í fyrsta lagi er slíkt mikilvægt vegna þess að vandaðar klínískar prófanir gera vísindamönnum kleyft að sýna fram á hvort væntanleg meðferð sé örugg og nothæf. Hins vegar vegna þess að birting rannsóknaniðurstaðna gerir öðrum vísindamönnum um heim allan mögulegt að meta, sannreyna og nota þær til góðs fyrir eigin sjúklinga.

Þetta er staðallinn sem allar krabbameinsmeðferðir ætti að miða við, líka þær sem kalla má  „hinar óhefðbundnu“.

Með þessu er ekki sagt að náttúran geti ekki lumað á áður óþekktum meðferðum. Börkur af viðjutegund hefur að geyma grunninn að virka efninu í Aspiríni og myglutegund gaf okkur fyrsta sýklalyfið, Penisillín. Krabbameinslyfið Taxol fannst fyrst í berki og nálum Kyrrahafs-ýviðar („Pacific Yew“ – Taxus Brevifolia). Það gagnast þó lítið að tyggja plönturnar sjálfar óunnar eða reyna að sjóða seyði úr  þeim í lækningaskyni. Meðferð með lyfinu Taxol er áhrifarík vegna þess að efnið var greint, hreinsað og prófað í vönduðum tilraunum og klínískum prófunum og þannig þróað sem nothæft lyf. Þess vegna vitum við hversu öruggt og virkt það er og hvaða skammta þarf að nota.

Auðvitað vilja krabbameinssjúklingar nota hvaða ráð sem tiltæk eru til að berjast við lífsógnandi sjúkdóminn. Það er eðlilegt að fólk í slíkri stöðu leiti hátt og lágt að björgum. En það er eindregið ráð okkar er að fara varlega í að trúa stórkostlegum fullyrðingum um kraftaverkakúra, sérstaklega ef þeir eru í boði gegn ríflegri borgun.

Á Wikipedia er til listi yfir margar helstu og þekktustu ósannaðar og afsannaðar krabbameinsmeðferðirnar. Ekkert á þessum lista hefur reynst nýtilegt en samt er ennþá verið að falbjóða það allt saman af fúskurum.  Það er vel þess virði að skoða þennan lista. Margar, ef ekki flestar þeirra hafa verið vandlega og vísindalega rannsakaðar og prófaðar án árangurs.

Kannabisefni hafa verið mikið í umræðunni undanfarið. Ef þú vilt vita meira um það efni þá er hér umfangsmikill pistill um það. Þar er meðal annars sagt frá klínískri prófun sem við hjá Krabbameinsrannsóknafélagi Stóra Bretlands tökum þátt í að fjármagna.

Og ef þú rekst á grein um vísindamenn í Kanada sem eru að „lækna krabbamein en enginn tekur mark á því“, þá er þar væntanlega um að ræða áhugaverða en ósannreynda efnið DCA sem við höfum þegar skrifað um fyrir nokkrum árum síðan.

Næst: …og lyfjarisarnir leyna henni