Hárið sem varð að fjöður sem varð svo að fimm hundruð hænum…

Það var ekki bara á tímum Hans Christian Andersen sem sögur urðu til upp úr litlu sem engu og uxu langt fram úr sannleikanum.

Fátt hefur hughreyst og kætt hómeópata eins mikið undanfarin misseri og grein eftir Dana Ullman sem birtist í netritinu Huffington Post fimmtánda febrúar 2012 (2). Þar segir Ullman frá riti sem almennt hefur verið kallað Svissneska skýrslan(1).  Rit þetta sagði hann vera opinbert heilsutæknimat (Health Technology Assessment) sjálfrar svissnesku ríkisstjórnarinnar á hómeópatíu og að ritið dragi saman sannanir um ágæti hómeópatíunnar og gagnsemi fyrir land og þjóð og efnahag. Ullman lýsir því fjálglega yfir að skýrslan sé staðfesting á virkni og efnahagslegri hagkvæmni hómeópatíu. Hann hefur síðar þurft að bæta inn leiðréttingu eftir greininni þar sem fullyrðingarnar um aðkomu og álit svissneskra yfirvalda eru rangar (7).

Hvorki opinber né merkileg

Eftir að grein þessi birtist hefur hún verið þýdd og endursögð ótal sinnum um allan hinn hómeópatíska heim og hampað sem ótvíræðri vísbendingu um réttlæti og gagnsemi hómeópatíu. Íslenskir hómeópatar hafa þar ekki dregið lappirnar og nota þetta meðal annars sem vopn í baráttunni fyrir aukinni viðurkenningu hjálækninga (5b). Því miður fyrir hómeópata þá er varla stafkrókur réttur í þessari grein. „Skýrslan“ var hvorki pöntuð, rituð, né samþykkt af svissneskum yfirvöldum og er síður en svo nein marktæk samantekt á ágæti eða gildi hómeópatíunnar. Þessi atriði hafa öll verið hrakin rækilega og það sem meira er, fulltrúi svissneskra heilbrigðisyfirvalda sá sig knúinn til þess að bera til baka þá fullyrðingu að „skýrslan“ væri frá þeim komin, væri opinbert heilsutæknimat eða væri gefin út með þeirra samþykki eða leyfi (7). Hann hrakti líka fullyrðingar um að „skýrsla“ þessi hefði átt þátt í því að svissnesk yfirvöld framlengdu tímabundið ríkisstyrki til nokkurra hjálækningaaðferða, þar með talið hómeópatíu. Komum að því síðar.

Hómeópatiskar rannsóknir  og rangtúlkanir

Það vantar ekki að hómeópatar eru ótrúlega duglegir að rannsaka eigin hugmyndaheim og  aðferðafræði en því miður er getan oft takmörkuð og óskhyggja, árangursvon, sefjun og hugsanavillur ráða þar mestu um niðurstöður og túlkanir. Sennilega er lítið um hreinan uppspuna heldur má segja að vaðið sé hvarvetna í villum. Algengasta villan er líka sú sem auðveldast er að greina en við nánari athugun telst meirihluti þess sem hómeópatar framreiða sem rannsóknir, ekki vera rannsóknir sem geta skorið úr um virkni meðferða heldur í besta falli talningar eða skoðanakannanir. Annað, sem gæti talist tilgátuprófandi rannsóknir er illa undirbúið, of lítið eða vitlaust framkvæmt. Fjöldi rannsóknatilburða er mikill og gjarnan er plokkað út það sem fyrir tilviljun sýnir hagstæða niðurstöðu („Cherry picking“). Túlkun niðurstaðna er svo ofmetin, rangsnúin og ónákvæm og (hagstæðu) niðurstöðurnar að lokum blásnar upp í netmiðlum af fólki sem hefur helgað líf sitt trúboðinu eins og áðurnefndur duglegasti talsmaður hómeópatasamfélagsins, Dana Ullman. En hómeópatar eiga alltaf svar á reiðum höndum og grípa gjarnan til þess ráðs að misnota það sem aðrir hafa sagt og gera lítið úr andstæðingnum sem þeir snúa rökleysunni gjarnan upp á.  Ljómandi dæmi um þessa algengu aðferðafræði kemur fram í síðustu tveimur málsgreinum greinarinnar í Huffington Post þar sem Ullman vitnar í rangtúlkun „skýrslunnar“ á skilgreiningu David Sackett á gagnreyndri læknisfræði og fylgir því eftir með klassískri lítillækkun á aðferðafræði læknavísindanna. (Fuglahræðuvillan, „Strawman argument“ )

Íslenskir hómeópatar og fylgisfólk þeirra hafa ekki látið sitt eftir liggja að hampa þessu riti og hef ég með einfaldri netleit fundið allmargar þýðingar eða endursagnir á grein D. Ullman á íslenskum netritum (3-6). Þá eru þær ófáar tilvitnanirnar í þessar greinar sem finna má á bloggum og fésbókarsíðum tengdum hómeópötum og hjálækningasinnum alls konar. Enginn þessara aðila hefur haft fyrir því að kynna sér sannleiksgildi fullyrðinga Ullmans.

En hvað er þá  skýrsla sem ekki er skýrsla?

KONICA MINOLTA DIGITAL CAMERAEftir þrýsting frá almenningi og iðkendum óhefðbundinna meðferða ákváðu  svissnesk yfirvöld  árið 1998 að leyfa tímabundna kostnaðarþáttöku í fimm greinum hjálækninga, þar á meðal hómeópatíu. Skilyrt var að tíminn yrði notaður til þess að gera ítarlega úttekt á hagkvæmni og gildi þessara aðferða. Svissneska ríkið lagði til talsverða fjármuni og styrkti ýmsa aðila til þess að vinna að rannsóknum og skrifa skýrslur og samantektir. Meðal annars var beðið um greinargerðir  frá hagsmunaaðilum. Einn af hagsmunahópunum sem lagði fram greinargerð voru hómeópatar við þekktan hjálækningaháskóla í Sviss(1). Þessi gögn voru svo öll metin vandlega til þess að taka upplýsta og rétta ákvörðun um framhaldið. Þegar tíminn rann út árið 2005 ákvað heilbrigiðsráðherra að binda endi á þessa kostnaðarþáttöku þar sem ekki var talið að sýnt hefði verið fram á hagkvæmni eða gildi hjálækningaaðferðanna. Sú ákvörðun var felld í þjóðaratkvæðagreiðslu þrátt fyrir sterk mótrök og því var kostnaðarþáttökunni haldið áfram og ákveðið jafnframt að hún skyldi ekki endurnýjuð eftir 2015 nema marktækar sannanir um hagkvæmni og virkni kæmu fram í millitíðinni.
Höfundar samantektarinnar um hómeópatíu gáfu hana svo út á bókarformi árið 2006. Án samþykkis yfirvalda kölluðu þeir ritið „Opinbert  heilsutæknimat“ og gáfu í skyn að það væri runnið undan rifjum og jafnvel unnið af heilbrigiðisyfirvöldum.  Árið 2011 var ritið gefið út í enskri þýðingu og eftir margnefnda grein áróðursmeistarans Ullman í ársbyrjun 2012 fór sem sagt ósannindaskriðan virkilega af stað um heiminn.
Upphaflega skýrslan reyndist ekki innihalda annað en samantekt á völdum greinum um hómeópatíu fram til ársins 2003 og allt annað en óvilhöll túlkun á þeim eins og gefur að skilja.  Prófessor Edzard Ernst, sem um áratuga skeið hefur rannsakað óhefðbundin meðferðarform, er harðorður í garð höfunda hennar og lýsir því hvernig þeir hafa valið úr greinum, farið rangt með staðreyndir og hreinlega breytt túllkunum og niðurstöðum hans í fjölmörgum tilfellum (11).
Ekkert af þeim rannsóknum sem gerðar hafa verið á hómeópatíu fyrr eða síðar hefur staðist nánari skoðun enda varð það ótvíræð niðurstaða svissneskra yfirvalda eftir hina stóru úttekt 2005 að hómeópatíu og aðrar óhefðbundnar aðferðir sem til skoðunar voru ætti ekki að halda áfram að kosta. Þó þeim tækist ekki að sannfæra kjósendur um réttmæti þeirrar ákvörðunar í það skiptið þá hafði það með allt annað en ágæti hómeópatíunnar að gera og sannar ekki annað en fastheldna hjálækningamenningu í landinu. Það verður, í ljósi vaxandi andstöðu við hómeópatíu og fleiri neikvæðra rannsókna, fróðlegt að sjá hvernig fer við næstu endurskoðun þessara mála í Sviss.

Ekkert nýtt

Hómeópatía er og verður ósönnuð þrátt fyrir þessa „stórmerkilegu skýrslu“ enda ótrúverðug aðferðafræði sem á sér engan vitrænan þekkingagrunn. Um það deila engir nema hómeópatar sjálfir og þeir sem með þeim hafa valið að trúa á hinn óútskýranlega hugmyndaheim hómeópatíunnar. Þeir sem halda að svissneska skýrslan breyti einhverju þar um hafa rangt fyrir sér. Ef hómeópatía væri nothæf læknisfræði þá væru raunverulegar sannanirnar fyrir virkni hennar löngu búnar að fylla fleiri hillukílómetra í fagbókasöfnum á þeim 200 árum sem liðin eru síðan hún var fundin upp.

Hér hefur málið verið rakið í stórum dráttum og sagt frá hvers vegna þeir sem hampa þessari skýrslu sem réttlætingu á ágæti hómeópatíu hafa rangt fyrir sér. Heimildir og nákvæmari skýringar á því sem hér hefur verið sagt er að finna í gagnrýnum heimildum (8-11) .

Heimildir:

(Allir hlekkir voru virkir 29. október 2013)

„Skýrslan“ sjálf (enska þýðingin):

1) „Homeopathy in Healthcare – Effectiveness, Appropriateness, Safety, Costs – An HTA report on homeopathy as part of the Swiss Complementary Medicine Evaluation Programme“  Bornhöft G, Matthiessen PF
 og fleiri
http://link.springer.com/book/10.1007%2F978-3-642-20638-2#section=949781&page=1
    eða
http://www.homeopathyheals.me.uk/site/images/stories/pdfs/homeopathy%20in%20swiss%20healthcare.pdf

Grein Dana Ullman í Huffington Post (takið eftir leiðréttingu hans í lokin):

2) „The Swiss Government’s Remarkable Report on Homeopathic Medicine“
http://www.huffingtonpost.com/dana-ullman/homeopathic-medicine-_b_1258607.html

Íslenskar greinar um „skýrsluna“:

3) „Stórmerkileg skýrsla um hómeópatíu frá svissneskum yfirvöldum“, Hallfríður Pálsdóttir hómeópati
http://www.heilsusidan.is/node/6677

4) „hómeópatía er efnahagslega hagkvæm“, Hallfríður Pálsdóttir hómeópati, 
http://www.heilsusidan.is/node/6676

5a) „Stórmerkileg skýrsla um hómeópatíu frá svissneskumyfirvöldum. Grein eftir Dana Ullmann“, Hallfríður M Pálsdóttir þýddi
http://www.heilsuhvoll.is/page22/page94/page94.html

5b) Sama grein afrituð á:
http://www.heilsufrelsi.is/Thekkingarsetur/Viskubrunnur/Viska/skyrslaumhomopatiu/

6) „Athyglisverð skýrsla svissneska ríkisins um hómeópatíu“, Magnús Orri Grímsson þýddi og endursagði
http://www.heilsuhringurinn.is/index.php?option=com_content&view=article&id=741:athyglisvere-skyrsla-svissneska-rikisins-um-homopatiu&catid=10:greinar-og-vietoel&Itemid=14

Afneitun svissneskra heilbrigðisyfirvalda á „skýrslunni“:

7) „The report ‘Homeopathy in healthcare: effectiveness, appropriateness, safety, costs’ is not a ‘Swiss report’ „
http://www.smw.ch/content/smw-2012-13723/

Nokkrar af fjölmörgum gagnrýnum greinum um efnið :

8) „The Swiss report on homeopathy: a case study of research misconduct“
http://www.smw.ch/content/smw-2012-13594/

9) „That ‘neutral’ Swiss homeopathy report – What does the Swiss government really think about homeopathy“
http://www.zenosblog.com/2012/05/that-neutral-swiss-homeopathy-report/

10) „The Swiss Report on Homeopathy“
http://www.sciencebasedmedicine.org/index.php/the-swiss-report-on-homeopathy/

11) The ultimate proof of homeopathy’s effectiveness?
 http://edzardernst.com/2012/11/the-ultimate-proof-of-homeopathys-effectiveness/

12) Viðbót 2014-05-05 Sérlega nákvæm fyrirferð yfir þetta mál og hómeópatíurannsóknir yfirleitt:   http://edzardernst.com/2014/05/homeopathic-optimism-the-case-of-the-swiss-report/

Höfundur: Björn Geir Leifsson

Mynd: Genfarvatn.
http://commons.wikimedia.org/wiki/File:Lavaux_Alpes_et_Lac_l%C3%A9man.jpg

Efni þessa pistils má aðeins afrita eða vitna í sé texta ekki breytt, samhengis gætt og  uppruna og höfundar getið réttilega.