Upphaflega birt 6.5.2012

Lítil auglýsing vakti athygli mína í Fríblaðinu sl. föstudag: Líður bílnum ekki vel? Eru skrítin hljóð í honum? Gangurinn ójafn? Eyðir hann of miklu? Eru kannski rispur á lakkinu?
Þá er kominn tími til að kalla í okkur! Við heilum bílinn þinn og þvoum hann svo úr okkar sérstaklega 100-hristu vatni sem veldur því að allar rispur hverfa.

Ég verð að viðurkenna að forvitni mín var vakin og þar sem þessar lýsingar allar gátu jú átt við minn elskulega gamla Rauð, ákvað ég að fara á staðinn og athuga málið. Ég ók sem leið lá upp Elliðaárbrekkuna og upp í Mosfellsveit. Samkvæmt lýsingunni átti að beygja til hægri svo ég hægði ferðina og leitaði eftir beygjunni. Jú, þarna var hún og við beygjuna var gult skilti sem á stóð skýrum, skærbleikum stöfum Bílaheilun. Þetta hlaut að vera beygjan.

Ég ók áfram eftir krókóttum vegi, ómalbikuðum og dálítið holóttum. Mér fannst þetta

Bíllinn varð heill heilsu á ný!
Bíllinn varð heill heilsu á ný!

svolítið langt en úr því ég var nú komin þarna ætlaði ég alla leið. Skyndilega sá ég hús framundan. Þetta var timburhús á einni hæð, greinilega komið til ára sinna og hafði ekki verið sérlega vel haldið við. Þegar nær dró hljóp kanína yfir veginn og önnur á eftir henni. Ég snarhemlaði og áttaði mig þá á því að allt í kring voru kanínur af öllum stærðum og gerðum og á milli þeirra spígsporuðu hænur eins og enginn væri morgundagurinn. „En vinalegt“ hugsaði ég með mér og ók löturhægt upp að húsinu. Steig út úr bílnum og heyrði hund gelta inni við. Hvergi sást manneskja en þarna var greinilega heilmikið líf. Matjurtagarður upp við húsið, hundurinn góði sem gelti inni og köttur sem kíkti undan ryðguðum geymi. Þegar hundurinn hætti að gelta heyrði ég jarm í kind en sá hana hvergi.

Ég ákvað að banka og hundurinn tók aftur við að gelta. Eftir smástund opnaðist hurðin og ég sá vingjarnlega grannvaxna konu, um það bil á miðjum aldri. Hún var útitekin og hraustleg, dálítið þybbin en það gerði hana bara móðurlegri.
„Sæl og blessuð“ sagði konan hressilega og ég tók undir.
„Hvað get ég gert fyrir þig? spurði hún svo og ég útskýrði að ég hefði séð auglýsingu í blaði um bílaheilun og hvort ég væri á réttum stað?
„Jú, svo sannarlega,“ svaraði konan og brosti út undir eyru. „Er þetta bíllinn þinn blessaður? Ég sé alveg af hverju þú komst með hann. En má ekki bjóða þér kaffi áður ? Það er lífrænt ræktað og agalega hollt,“ bætti hún við.
Ég ákvað að þiggja boðið, hafði enda áhuga á að skoða aðstæður betur og fannst þetta allt mjög forvitnilegt.
Við gengum inn í húsið, gegnum litla grænmálaða forstofu og inn í eldhús. Ýmis konar listaverk héngu á veggjum, sum greinilega gerð af frumbyggjum Ástralíu og Indjánum í Ameríku. Í hurðargættinni inn í eldhúsið hékk kringlóttur rammi með fjöðrum. Í eldhúsinu voru jurtapottar hvar sem þeim var viðkomið. Flestar jurtanna voru mér ókunnar enda lítil plöntukona.
Konan bauð mér sæti við eldhúsborðið og skellti brúnum katli á borðið við hliðina á stóru fati sem á voru ókennilegar kökur. Hún rétti mér bolla, hellti í hann úr katlinum og settist á móti mér. „Fáðu þér endilega köku líka, þær eru allar úr lífrænu hráefni,“ sagði hún og ýtti fatinu að mér. Ég þáði köku og ákvað svo að láta vaða.

„Þetta er afar skemmtilegur staður,“ byrjaði ég. „Ég er dálítið forvitin um þessa bílaheilun, viltu segja mér eitthvað um hana?

Konan ljómaði öll og réttist upp í sætinu. „Jú, sko. Ég og maðurinn minn, erum svo tengd jörðinni og höfum kynnt okkur allt sem Andrew Morder kennir um rafsegulgeislun, orkustöðvar og annað slíkt. Við höfum árum saman læknað fólk af alls konar sjúkdómum, allt frá kvefi og síþreytu upp í krabbamein með því að nota aðferðirnar hans. Svo fórum við á námskeið hjá öðrum mjög þekktum manni – hann er að nota aðferðir sem Maya Indjánar notuðu og þeir voru víst alveg magnaðir. Þessi maður, hann er alveg stórkostlegur skal ég segja þér, hann kenndi okkur þetta með bílana. Bæði hvernig við getum með snertingu fundið nákvæmlega hvað er að og svo tengt bílinn við jarðarorkuna sem streymir í gegnum okkur á meðan. Þetta leiðréttir rafkerfið í bílnum og við það lagast gangurinn. Svo breytum við tíðninni aðeins og við það stillist yfirleitt ójafnvægið sem gerir að verkum að hann eyðir of miklu. Veistu,“ sagði konan sem nú var orðin afar áköf, „við höfum lagað hundruð bíla með þessari frábæru aðferð. Svo er þetta miklu ódýrara en að fara á verkstæði og þú getur ímyndað þér hvort þessi nátturulega aðferð er ekki betra fyrir bílinn en allt kemíska ruslið sem bílaviðgerðarmenn nota! Konan hryllti sig við tilhugsunina um allt eitrið sem hún hafði bjargað ótal bílum frá.

„En er ekki öruggara að fara með bílinn á verkstæði? spurði ég, og var ekki alveg búin að kaupa það að hægt væri að laga bílinn svona.

Konan horfði á mig smástund og ég sá að henni sárnaði þessi athugasemd mín.
„Veistu ekki hvað þetta er mikið svindl hjá þeim? spurði hún svo. „Bílaviðgerðarverkstæði og framleiðendur varahluta ljúga að saklausu fólki að það þurfi að kaupa allt mögulegt og auðvitað alltaf það sem þeir ákveða. Svo rukka þeir miklu hærra en þarf og græða á okkur hinum sem vitum ekki betur. Nei, við viljum ekki styðja svona lýð sem bundist hefur samtökum um að hafa fé af fólki, við vitum að það er hægt að gera þetta miklu betur, með minni kostnaði og það sem mest er um vert, með náttúrulegum aðferðum“.
„Hún hlaut að hafa eitthvað til síns máls“ hugsaði ég. En af hverju var þetta ekki stórfrétt í öllum fjölmiðlum? Hlaut það ekki að vera fréttnæmt að búið væri að finna upp aðferð til að gera við bíla á þennan miklu betri máta? Ég spurði konuna sem svaraði um hæl:

„Þetta tengist þessum samtökum, sterku samtökum,“ svaraði hún og varð döpur á svipinn. „Samtökin stýra auðvitað fjölmiðlum líka og leyfa ekki að fólk frétti af þessu. Þeir myndu nefnilega tapa svo miklu ef fólk vissi þetta.“

Auðvitað – hvaða asni gat ég verið! „En í auglýsingunni var líka talað um eitthvað 100-hrist vatn? Hvað er það eiginlega? spurði ég og fann hvernig trúin á þessar frábæru aðferðir jókst með hverri mínútu.

„Já, það er alveg frábært, eiginlega ótrúlegt,“ svaraði konan. „Sko, hvað gerir þú þegar eitthvað er skítugt heima hjá þér? Til dæmis gólfið? Þværðu það ekki úr vatni?
Jú, ég varð að viðurkenna það.

„Og skíturinn á gólfinu, hefur hann ekki oft orðið til af því einhver vökvi, til dæmis kaffi, lak á gólfið?
Jú, það gerðist stundum og skítur festist í vökvanum ef hann var ekki þurrkaður upp strax.

„Sko, þetta er alveg sama hugsunin, þú þrífur skít sem einhvern tíma innihélt vökva, með öðrum vökva, vatni. Vatnið er ekki eins þykkt og skíturinn en hinsvegar blandar þú smá sápu við það og þannig verður gólfið hreint. Við tökum vatn, alveg hreint náttúruvatn – ekki bara eitthvað vatn sem rennur úr menguðum krana. Við tökum vatnið, berum það að lakkinu á bílnum og vatnið tekur í sig bylgjurnar frá honum. Vatn getur nefnilega numið bylgjur, bæði neikvæðar og jákvæðar sjáðu til. Við pössum að láta ákveðið ljós skína gegnum glasið og svo hristum við það nákvæmlega 100 sinnum. Þessu vatnið er svo úðað í örfínum dropum yfir bílinn og við það hverfa allar smárispurnar. Það tekur svona 3-4 daga að virka þannig að maður sér það ekki strax. En það virkar,“ sagði hún með áherslu.

Ég hafði enn tvær spurningar sem ég vildi fá svör við. „Hvernig veit maður að þetta virkar allt, með heilunina og allt það?

Konan varð aftur pínulítið sár á svipinn en herti sig upp og svaraði: „Það má alveg fara með hann á verkstæði til að fá það staðfest að hann sé í lagi eftir að hafa komið til okkar. Ekki að þess þurfi en ef fólk vill endilega eyða peningum í það, þá ætla ég ekkert að koma í veg fyrir það.“

Æi, nú var hún sár út í mig. Ég varð samt að spyrja síðustu spurningarinnar: „Væri þá ekki betra að fara með bílinn fyrst og láta skoða hann og meta og svo aftur eftir meðferðina til að geta sannað það fyrir þessum óþokkum öllum sem eru að reyna að græða á manni? Þeir sæu þá nákvæmlega hvað bíllinn hefði lagast og yrðu að viðurkenna að þetta virkaði?

„Ónei, það myndu þeir aldrei gera,“ svaraði konan. „Það er allt of mikið í húfi fyrir þá. Svo sé ég nú enga sérstaka ástæðu til að gera það. Ég meina, við höfum alla þessa þekkingu og reynslu, námskeiðið frá honum Andrew sem er heimsfrægur og hefur skrifað örugglega 100 bækur um þetta, maðurinn er með fullt af háskólagráðum frá háskólum í Indlandi og allt! En ef þú trúir mér ekki, þá ferðu bara heim aftur með þinn lasna bíl og lætur hann á rándýrt verkstæði í stað þess að hugsa um heilsu hans og nota náttúrulega aðferð til að laga hann. Það er auðvitað þitt val.“

Ég gafst upp, ákvað að treysta þessari móðurlegu konu sem greinilega vissi þetta miklu betur en ég, og skildi bílinn eftir hjá henni. Ég má sækja hann á morgun og er afskaplega þakklát konunni fyrir að hafa kennt mér að nota náttúrulegar aðferðir í stað hinna hættulegu og kemísku sem verkstæðin nota.*

*Reynslusaga af raunverulegum óraunveruleika.

– Vigdís Stefánsdóttir, erfðaráðgjafi.

<//Höfundaréttur: Efni þessarar greinar má afrita og dreifa svo lengi sem heimildar er getið//>