Hvað eru heilsutengd gervifræði og gervilækningar?

Fyrst er rétt að huga að því hver sé munurinn á þekkingu og blekkingu (haldvillu, uppspuna)?

Þekking er jafnan talin vera sú skoðun sem er vel rökstudd og sönn. Hún sönn því að hún á sér samsvörun í raunveruleikanum. Að auki má það ekki vera tilviljun háð að skoðunin sé sönn.  Dæmi: Það er skoðun mín að blóðsykur megi lækka með hækkandi insúlíni í blóði. Skoðunin er rökstudd með því að vísa til vel gerðra rannsókna sem sýna að blóðsykur lækkar við gjöf insúlíns (undir húð eða í æð). Skoðunin er sönn því að hún samsvarar þessum margprófaða raunveruleika.  Sönn, rökstudd skoðun = Þekking.

Með beitingu efahyggju má draga allt í efa og það getur reynst ómögulegt að sanna til hlýtar ýmis þekkingaratriði (ólíkt hinu sjálfgefna 2+2=4). Það má þó tala um áreiðanlega þekkingu, þegar sterk sönnunargögn liggja fyrir skoðuninni.

Blekking, haldvilla eða uppspuni er aftur á móti skoðun sem á sér ekki samsvörun við raunveruleikann, jafnvel þó að einhver rökstuðningur geti fylgt.  Dæmi um slíka skoðun colorsalt-homeo(sem er fullyrt): „Áhrif efnislausnar eru sterkari á líkamann, því meira sem hún er þynnt
út í vatni!“ Rökstuðningurinn gengur þvert á almenn lögmál um áhrif efna á vefi og líffæri. Orsakasamhengið er í raun og veru í hina áttina, þ.e. aukin virkni með aukinni þéttni (upp að svokallaðri mettun). Skoðunin er því illa rökstudd og ekki í samræmi við raunveruleikann.

Klórað í bakkann með rökvillum

Gervifræði eru oft réttlætt með notkun rökvillna t.d. „vísindin hafa ekki svörin við öllu“. Staðhæfingin er í sjálfu sér rétt en í samhengi við óréttmætar staðhæfingar er þetta rökvilla, þ.e. reynt er að beina málinu í aðra átt. Til dæmis þegar gagnrýni á þá staðhæfingu hómeópatíunnar að aukin þynning efna auki lífræn áhrif þeirra, er svarað með; „vísindin hafa ekki heldur svör (rökstuðning) við öllu“.  Maður réttlætir ekki eigin haldvillur með því að reyna að lítillækka þekkingargrunn vísindanna og gera vísindafólk ómerkt.  Þetta eru svokölluð strámannsrök (eða fuglahræðurök¹) þar sem ráðist er á veikleika í málefnastöðu andstæðingsins  (þ.e. vísindafólks eða vísindinna í heild) í stað þess að færa rök fyrir eigin máli. Í vísindum er heldur ekki fullyrt um eitthvað sem er ekki hægt að sanna eða færa góð rök fyrir. Það samræmist ekki góðu siðferði í vísindum eða þekkingarlegum dyggðum (virtue epistemology).

Hvað einkennir heilsutengd gervifræði og gervilækningar?

  1. Vandamálið, kvillinn eða sjúkdómurinn sem gervifagið/úrræðið á að lækna er oft illa skilgreint eða engin tilraun gerð til að sjúkdómsgreina manneskjuna á ábyrgan máta.
  2. Það skortir alla þekkingarlega bjargfestu í gervifræðin.  Þau byggja ekki á áreiðanlegri prófaðri þekkingu, heldur alls kyns hugrenningum um það hvernig úrræðið eigi að virka eða lækna/heila/græða líkamann.  Það skortir orsakasamhengi við ákveðin grunnsannindi.
  3. Það skortir samhengi og samræmi við þá þá áreiðanlegu þekkingu sem fyrir er þannig að mótsögn myndast. Eigi fræði að standast sem eitthvað sem er algerlega upp á kant við viðurkennda þekkingu þarf gríðarlega sterkan rökstuðning og rannsóknir sem myndu þá kollvarpa því sem fyrir er.  þess eru engin dæmi úr ranni gervifaga enda afar ólíklegur möguleiki.
  4. Það eru ekki neinar vandaðar rannsóknir sem sýna fram á virkni meðferðarinnar umfram lyfleysuáhrif (óskhyggja mannsins). Jafnvel þó að tiltekin meðferð passi við skilgreiningu á gervilækningum skv. liðum 1-3 hér að ofan, má í einhverjum fágætum tilvikum réttlæta það að gera svokallaða klíníska meðferðarrannsókn á henni ef að einhver sannfærandi vitnisburður fjölda fólks er fyrir hendi um að meðferðin virki.  Þetta á sérstaklega við um meðferðir með jurtalyfjum eða einhvers sem þó hefur einhverja mögulega efnafræðilega eða mekaníska (t.d. nudd) verkun á líkamann.  Þetta eru mjög vandasamar rannsóknir og þarf að gera eftir hæstu stöðlum.  Leiði slíkar rannsóknir ekki í ljós virkni umfram lyfleysu eða óvirka samanburðarmeðferð, þá á að hafna meðferðinni.  Fólk í gervifræðum neitar oft að horfast í augu við þetta.
  5. Fyrir utan það sem skilgreinir gervifræði og gervilækningar sem slík, er að ósjaldan eru þau seld með ýktum eða röngum formerkjum.  Lækningum er lofað og úrræðið er sagt hafa „bætandi áhrif“ á hin ýmsu einkenni og jafnvel sjúkdóma sem taldir eru upp í miklum fjölda.  Mörk og verkunarsvið eru jafnan óljós. Vísað er til reynslusagna og upplifana í stað rannsókna.

Til einföldunar má taka þetta saman nokkurn veginn í þessari setningu:

  • Gervilækningar eru iðkun úrræða sem eiga sér ekki stoð fræðilega út frá viðurkenndri þekkingu á lífheiminum, standast ekki aðferðalega skoðun raunvísindanna og hafa ekki verið rannsökuð með vönduðum klínískum meðferðarrannsóknum eða ekki staðist þær. Þær byggja einungis á gervifræðum sem standast ekki skoðun.

Þetta er skilgreiningin, en græðari mun gjarnan gagnrýna hana fyrir þá sök að hin „viðurkennda þekking“ sé í raun ekki nógu góð og það eigi ekki að útiloka neitt. Græðarann vantar samt rök fyrir þvi hvers vegna maður eigi að taka meðferð hans alvarlega.  Hann fer einfaldlega fram á það við fólk að honum sé trúað og að því sé óhætt að prufa.

Græðarinn bendir gjarnan á hvar þekkingu raunvísindanna sé ábótavant, en getur ekki hrakið þá þekkingu sem er til staðar.   Hann horfir framhjá þeim mikla grunni sem er búið að byggja og hefur oftast litla þekkingu á honum, þ.e. lífeðlisfræði, lífefnafræði, líffærafræði, sjúkdómafræði og svo framvegis.  Það eru ýmsar undantekningar á því, t.d. þegar farið er á kaf í tilgátusmíð út frá lífefnafræði og frumulíffræði, en þá er eins og viðkomandi hafi blokkerað út þá varnagla sem þarf að hafa þegar ályktað er um það hvort að tiltekin meðferð standist skoðun eða ekki. Þegar fólk neitar að endurskoða forsendur þess sem leitað er að og hugsar í þrjósku: „Þetta skal virka“, er hætt við að óskhyggjan verði staðreyndum mála sterkari og eftir standi úrræði sem er bara lyfleysa.

Það má aldrei gleymast að mannfólk er fært um að ímynda sér alls kyns hluti og er fært um að blanda ímynduninni við veruleikann eða skipta veruleikanum út fyrir ímyndunina.  Stundum er þessi ímyndun komin fyrir góðar meiningar einar saman eða óháð meiningu, en stundum er hreinlega um skáldaða pretti að ræða í von um ágóða og/eða upphafningu.  Stórir hópar fólks, m.a. heilu þjóðfélögin hafa orðið fyrir því að taka ímyndanir upp á sína arma og gengið á þeim um tíma í mikilli hamingju, en síðan rekið sig harkalega á raunveruleikann.

Óhlutdrægni, greinandi gagnrýnin hugsun og vísindaleg vinnubrögð eru besta trygging okkar fyrir því að verða ekki fórnarlömb hugmyndakerfa sem aðeins á yfirborðinu virðast góðar lausnir en eru í besta falli gagnslaus tímaeyðsla og í versta falli hættuleg og skaðleg iðkun.  Gervilækningar eru fyrirbæri sem falla undir þetta.  Því fyrr sem við áttum okkur á því að það er heilmikið af gervifræðum í gangi og lærum að þekkja þau, því betra.  Jafnframt, því fyrr sem við lærum að nýta mesta auð okkar, fólkið í landinu, til raunsannra starfa til uppbyggingar heilsu og annarra góðra þarfa, þá mun okkur vegna betur.

Látum engan sem kemur fram með eitthvað ótrúlegt og á skjön við viðurkennda þekkingu, segja okkur að það sé hlustandans (okkar) að afsanna orð viðkomandi.   Sönnunarbyrðin liggur hjá manneskjunni, sem kemur fram með ótrúlega fullyrðingu.

Það er jafnframt gott að hafa í huga að aldur gervifræða eða fjöldi iðkenda gervifræða hefur ekkert með sannleiksgildi þeirra að gera. Það hefur verið kallað vinsældarökvillan þegar fólk tekur upp skoðanir ógagnrýnið í skjóli vinsælda þeirra. Ýmislegt úr náttúrulækningum („grasalækningar“) eða alþýðulækningum er gamalt og margir trúa á slík úrræði, en það telst ekki traust þekking. Hefðir eru ekki ávísun á gæði.

Sem börn þurfum við að vera auðtrúa því að við verðum að treysta foreldrum okkar, en sem fullorðnir einstaklingar verðum við að axla ábyrgðina sjálf og gera strangar kröfur til þess sem við trúum.

Svanur Sigurbjörnsson (28. febrúar 2017)

Heimilt er að nota efni þessarar greinar sé heimildar getið.

Heimildir:

  1. Ólafur Páll Jónsson, Sannfæring og rök. Heimspekistofnun-Háskólaútgáfan (Reykjavík 2016) 85.