Það bar dálítið á því í kringum 2008 að nýbakaðir foreldrar leituðu til gervilækna eins og Bowen nuddara eða höfuðbeina- og spjaldhryggsjafnara vegna óværðar barna sinna, sérstaklega ef læknar höfðu ekki ráð við henni.

Óværð ungbarna getur haft ýmsar orsakir en ein sú algengasta er iðrakveisa, sem er vegna

Höfuð ungabarna er mótað af fæðingarveginum fyrstu vikur lífs þeirra.
Höfuð ungabarna er mótað af fæðingarveginum fyrstu vikur lífs þeirra.

krampa í görninni af óþekktri orsök.  Þarmarnir eru að venjast mjólkinni og smám saman að koma sér upp bakteríuflóru.  Það getur kostað einhver ónot og því ókyrrast börnin.  Þessi svokallaða ungbarnakveisa gengur yfirleitt yfir á nokkrum dögum eða vikum, en í undantekningartilvikum á nokkrum mánuðum.

Þegar barnið er svo látið í hendurnar á gervifræðingi sem þykist vera að breyta efnaskiptum í líkamanum (Bowen nudd) eða hreyfa við heilahimnunum (Höfuðbeina og spjaldhryggsjöfnun) er allt eins líklegt að barnið lagist af sjálfu sér daginn eftir eða skömmu síðar, algerlega óháð gjörningnum.

Ungabörn og foreldrar þeirra eru alveg kjörin fórnarlömb gervilækna.  Í fyrsta lagi mun barnið ekki kvarta og getur ekki sagt í neinum smáatriðum af eða frá hvort að það hafi haft gott af meðferðinni eða ekki.   Í öðru lagi eru foreldrar ungabarna oft óörugg og hrædd við óværð barna sinna og eru tilbúin að reyna alls kyns hluti svo framarlega sem það skaði ekki barnið.  „Hverju höfum við að tapa?“ kunna foreldrarnir að spyrja og telja það þess virði að prufa eitthvað svona „óhefðbundið“ í þeirri veiku von að það gagnist.  Kostnaðurinn verður aukaatriði, enda lítur það ekki vel út ef að foreldrar eru að spara við eitthvað sem gæti mögulega bætt líðan barna þeirra.

Er skynsamlegt að prufa hið órökstudda mögulega?

Spurningin sem eftir stendur er því hversu stórt þetta „mögulega“ er? og hvort að það sé eitthvað vit í því að elta uppi allt sem sagt er að „mögulega“ gagnist án meðmæla lækna fyrir því?  Gæti það verið að það að vera þátttakandi og greiðandi fyrir svona meðferð geri ekkert gagn fyrir barnið og í raun samfélaginu ógagn með því að ýta undir gervilækningar?  Kannski er til of mikils ætlast að spyrja svona ábyrgðarfullt því fólk hugsar sjaldnast um að það setji öðrum dæmi með hegðun sinni, a.m.k. ekki í þessum efnum.

Svarið er eftirfarandi: Þetta „mögulega“ í tilvikum gervifræða er í raun bara lyfleysuáhrif og færsla til meðalástands (regression towards the mean) með tímanum.

Í tilvikum foreldranna fer þeim að líða betur af því að þau fara að búast við bata, þ.e. ákveðinn léttir skapast yfir því að einhver nýr „fræðingur“ sé að sinna barninu. Þetta eru lyfleysuáhrif. Í tilviki barnsins er ekki um neinar meðvitaðar væntingar til „fræðingsins“ að ræða hjá því sjálfu en það gerist iðulega að kvillar eins og iðrakveisa lagast með tímanum.  Það gæti gerst daginn eftir að gervifræðingurinn kom að málum. Fólk gerir þá stundum þá skissu (rökvillu) að halda að fyrst að fyrst að batinn kom rétt á eftir hinu meinta úrræði, hafi það virkað. Þetta er kölluð post-hoc rökvillan, þ.e. að setja inn orsakasamhengi á hlutum sem eru í tímaröð, þó svo að raunveruleg tengsl vanti. Það sem gerðist var að ástand hluta hefur tilhneigingu til að leita jafnvægis í meðalástandi sínu með tímanum (regression towards the mean). Til dæmis eftir reiði eða ofsagleði færumst við fljótlega aftur í ástand jafnaðargeðs án þess að nokkur grípi inní.

Lingó gervifræðanna

Gervifræðingum finnst gott að fara einhverjar stuttar leiðir að því að lækna fólk og grípa í ósannaðar og óviðurkenndar aðferðir sem sagðar eru virka af öðrum blekktum leikmönnum gervifræðanna.  Þar kemur oft fram mikill vilji til að sannfæra aðra um úrræði sitt en engin vísindaleg hæfni til að skera úr um áreiðanleika eða sanngildi.  Þetta fólk talar sitt lingó – gervifræðalingó sem inniheldur jafnan orðin:

lækningarmáttur líkamans, orkustöðvarnar, ónæmiskerfið, afeitrun, afeitra, heila, heildræn, náttúrulegur, forn fræði, orkubrautir, jin og yang, ofnæmi, ójafnvægi o.fl.

Síðan er jafnan lýst einhverjum fræðum sem eiga sér ekki stoðir, hvorki rökfræðilegar né út frá viðurkenndum rannsóknum raunvísindanna.  T.d. orð höfuðbeina-og spjaldhryggs-græðara um að þeir geti hreyft höfuðbeinin og haft áhrif á flæði heila- og mænuvökva eru algerlega úr lausu lofti gripin og eru óhugsandi út frá lífeðlisfræðinni og líffærafræðinni. Þau eru heldur ekki studd með neinum rannsóknum. (Sjá nánar hér) Sama má segja um tilgátur hómeópata um gagnsemi remidía þeirra.

Foreldrar verða að gera sér grein fyrir því að í gegnum sögu mannkyns hefur fólk verið blekkt, endurtekið í stórum stíl og þeir eiga ekki að treysta hverjum sem er fyrir heilsu barna sinna.  Það dugir ekki til að einhverjir hafi góðar fyrirætlanir og þykist vera sannfært um gildi eigin úrræða.  Vísindi og meðferðir við sjúkdómum eru ekki leikur fólks með grunnskólamenntun og helgarnámskeið í einhverjum óviðurkenndum handahreyfingum, sama hversu faglega nafn þeirra hljómar.  Svokallaðir græðarar eru skráðir sem slíkir samkvæmt lögum en eru ekki með neina viðurkennda heilbrigðismenntun og eru ekki heilbrigðsstarfsfólk.

Hugsum þetta aðeins lengra

Gefum okkur hið ólíklega að höfuðbeinajafnari gæti hreyft við höfuðbeinum barna, jafnvel þó að í örlitlu mæli væri eins og þeir vilja halda fram.  Ætla foreldrar þá að trúa því að það geti læknað eitthvað?  Hvað með spurninguna – getur slíkt skaðað heilahimnur og æðar í höfðinu?  Er það æskilegt að hreyfa við beinum sem eiga að vernda heilann frá óæskilegum þrýstingi og hnjaski?  Bein sem eru einungis deig í barnæsku vegna þess að þau þurfa að stækka til fullorðinsára en ekki af því að það sé æskilegt að þau hreyfist til.  Hvað koma þessi bein, heilahimnunar eða mænuvökvinn eitthvað við óútskýrðri óværð ungbarna eða iðrakveisu þeirra?  Hvar eru rannsóknirnar sem sýna að eitthvað snefill af slíku orsakasamhengi sé til staðar?

Fullorðið fólk getur farið til græðara og tekið svona óábyrga prufumennsku út á eigin líkama, en í nafni alls þess sem okkur er kært, barnanna – vinsamlegast farið ekki með ungabörn í slíkar gervimeðferðir.  Þegar foreldrar hafa ekki vit á heilbrigðisvísindum sjálf eiga þeir einungis að treysta viðurkenndum fagaðilum fyrir heilsu barna sinna.

Skaði skeður?  Nauðsyn þess að skoða málið í víðu samhengi

Sem betur fer hafa flestar gervimeðferðir enga virkni aðra en lyfleysisáhrifin og lengingu á áhorfstíma þess sjúkdóms eða kvilla sem reynt er að laga.  Hafi höfuðbeina- og spjaldhryggsjafnarinn eða Bowen nuddarinn því ekki í raun fært höfuðbeinin eða breytt efnaskiptum vöðvana, er enginn líkamlegur skaði skeður.  Viðkomandi græðari hafði hins vegar áunnið sér nokkrar tekjur á kostnað fáfræði foreldranna og hugsanlega komið inn frekari ranghugmyndum um líkamsstarfsemina í huga þeirra til þess að breiða út boðskapinn um gagnsemi gerviúrræðisins.  Snjóbolti fáfræðinnar og gervibransans stækkaði og möguleikar græðara til að kenna öðrum að verða græðarar aukast.  Eftir því sem fleiri taka þátt í dansinum með gervifræðingunum, því meira stækkar heimur gervifræða og því meiri áhrif hafa þau á þjóðfélagið í heild.

Úrræði höfuðbeina- og spjaldhryggsjafnarans (HBS-jafnara) eru blekking og óþörf. Í höndlun hans á ungabarninu geta orðið slys – slys af verstu gerð.  Þess eru dæmi að ungabarn hafi af slysni fengið áverka á heilann og dáið eftir tíma hjá HBS-jafnara. Þetta gæti líka gerst hjá heilbrigðisstarfsfólki (sem kannski missti barn á gólfið) en þar er barnið ekki í erindisleysu. Vissulega eru gjörðir oft dæmdar út frá þeim góða hug sem að baki þeim stendur en hversu rík er ekki ábyrgð foreldra að setja ekki ungabörn sín í hendurnar á fólki sem á ekkert raunverulegt erindi við heilsufar þeirra? Fáfræði hefur drepið margan manninn í gegnum aldirnar en nú á dögum er fáfræði um fásinnu og gagnsleysi gervifræða óþörf og vart réttlætanleg.

Líkt og með græðgi fjárplógsmanna er gervifræðavæðingin þjóðfélagslegt mein sem elur af sér slælega dómgreind, fræðilegt metnaðarleysi og fánýt markmið.  Gervifræðavæddar þjóðir verða aðhlátursefni og slík menning er sorgleg mótsögn í miðju hafi gríðarlegrar þekkingar sem búið er að afla undanfarnar aldir.  Eflaust finnst einhverjum lítið til okkar þekkingu koma, en þannig tala jafnan þeir sem engin grunnvísindi hafa numið og gera sér ekki grein fyrir því hversu mikla vinnu þarf til að bæta við þekkinguna með örlitlum molum í hverju framfaraskrefi.   Það er mikil þekking til staðar, en gríðarlega mikið eftir sem við skiljum ekki eða getum ekki nýtt okkur enn.

Þolinmæði þrautir vinnur allar

Framfarirnar munu ekki koma út úr dulrænum afkimum fornra sagna eða ímyndaðra fræða sem standast ekki vísindalega skoðun, heldur með því að styrkja rannsóknir raunvísindafólks og lækna í t.d. krabbameinsrannsóknum, erfðafræði og alls kyns grunnvísindum.   Það er langt á milli byltingarkenndra framfara í læknavísindum, en við megum ekki missa móðinn og beina athyglinni í staðinn að einhverju rugli.  Ef að fólk vill skoða eitthvað úr „óhefðbundinni“ átt er ekkert að því en það gildir það sama um það sem úr slíkri átt kemur að það verður að standast vísindalega athugun, ellegar vera hafnað.

Það má ekki sóa dýrmætu rannsóknarfé í tilgátur sem hafa engan þekkingarlegan rökstuðning.  Okkur hættir til að vilja rannsaka eitthvað úr fornum hefðum og trú vegna þess að margt fólk trúir á eða gælir við slíkar hugmyndir. Það er vinsældarrökvillan, þ.e. að trúa á sannleiksgildi einhvers út af því að margir trúi því, en ekki út frá eðli málsins sjálfs. Höldum okkur við vísindalega aðferð og gleymum því ekki að vísindi í takt við góð siðferðileg gildi, hafa komið okkur þar sem við erum og skilað okkur heilsu og velmegun.  Sýnum því fólki sem þau stundar virðingu og stuðning, því von barna okkar liggur í því að vísindastarf skili áframhaldandi árangri.

Svanur Sigurbjörnsson læknir.

Höfundaréttur. Efni þessarar greinar má afrita og dreifa svo framarlega sem heimildar er getið.