Áfengi er ekki venjuleg neysluvara, hvað þá matvara. Áfengi er vímugjafi sem er vandmeðfarinn og þarf sérstaka meðhöndlun og umgjörð hvað sölu á því varðar. Það er afar mikilvægt að fyrirkomulagið sé með þeim hætti að þau óbeinu skilaboð sem þannig berast út í þjóðfélagið endurspegli að áfengi sé ekki venjuleg vara.  Ungmenni og fólk með áfengissýki þarf ákveðna fjarlægð og aðskilnað (í rými og stað) við áfengið.

Fyrir Alþingi liggur frumvarp um frjálsa sölu alls áfengis í matvöruverslunum og á með því að leggja niður ÁTVR.  Í útskýringum með frumvarpinu er hin heilsufarslega áhætta sem með þessari breytingu gæti fylgt, nánast ekkert rædd og það litla sem kemur fram er rangt.  Fjöldi umsagna hefur rignt inn frá stofnunum, félagasamtökum og einstaklingum sem tengjast heilbrigðiskerfinu og þær eru allar á þann veg að það eigi ekki að gefa söluna frjálsa.  Allar rannsóknir og álit sérfróðs fólks benda til að slíkt skref myndi skemma þann góða árangur sem hefur náðst hérlendis í forvörnum áfengisvandamála.  Unglingadrykkja er lægst á Íslandi á meðal 38 evrópuríkja.

Umsögn Svans Sigurbjörnssonar læknis á málinu er hér birt á Upplýst.org.