Ilmkjarnaolíur (e. Essential Oils) er stór og vinsæll bálkur innan svokallaðra óhefðbundinna meðferða. Þessu er gjarnan ruglað saman við grasalækningar. Í stuttu máli snýst þetta um, að ilmandi olíur, sem soðnar eru úr alls konar plöntum eigi að hafa einhver dásamleg, læknandi áhrif gegnum húð eða við innöndun, sem vísindin ekki geta skýrt.
Nær alltaf er ráðlagt að nota fleiri en eina olíu og þær eru sumar rándýrar. Olíurnar eru notaðar á ýmsan hátt. Oftast er meðferðin einhvers konar nudd og gælur með hjálp fleiri ilmkjarnaolíutegunda sem oftast eru þynntar í „burðarolíu“ því lyktin af olíunum getur verið megn og efnin sum ertandi og jafnvel varasöm óþynnt. Stundum er olíunum úðað eða gufað út í loftið og stundum látnar drjúpa notalega úr loftinu á viðfangsefnið og er það þá kallað regndropameðferð og þykir hið áhrifaríkasta afbragð.
Sterk lyfleysuvirkni
Allt hefur þetta á sér blæ afslöppunar og huggulegheita enda getur það án efa haft gríðarlega sefjandi áhrif að anda að sér ilmandi angan við notalegar aðstæður og rólegheit, eins og gefur að skilja. Lyfleysuáhrifin eru því ágæt af þessum athöfnum.
En að það séu einhver dulvísindaleg áhrif önnur en huggulegheitin hefur ekki enn sannast og er reyndar mjög ósennilegt út frá líffræði, lífeðlisfræði, lífefnafræði og annarri raunþekkingu. Reyndar er nóg til af gervivísindalegum textum sem hljóma trúverðuglega en eru í raun tómt bull samanber tilvitnun í pistil á heilsubankinn.is hér að neðan, sem lýsir vel tyrfinni þvælunni sem notuð er til að telja leikmönnum trú um ágæti efnanna.
Ósannindi og blekkingar
Olíurnar eiga að hafa hin margvíslegustu áhrif á sjúkdóma og heilsuvandamál, einhverjar eiga jafnvel að geta komið í veg fyrir krabbamein.
Sumar fullyrðingarnar um gagnsemi þeirra eru hreinlega hlægilegar.
Má þar nefna meðferð við hrotum með olíu-iljanuddi eða meðferð við ADHD með því að setja olíuna undir stóru tána á barninu(sjá myndir).
Aðrar fullyrðingar eru öllu hættulegri og má þar nefna fullyrðingar um að olíurnar hafi sýkladrepandi áhrif og megi nota í meðferð á hættulegum sýkingum. Auðvitað eru olíurnar sumar sýkladrepandi, í tilraunaglasi en það er alkóhól líka. Samt hefur alkóhól aldrei læknað neinn. Fullyrðingar í um að ilmolíur séu gagnlegar við sýkingum eru rangar.


Ekki vantar efnið á netinu, upprunnið frá þeim sem hafa hagnað af að selja olíurnar. Hér eru nokkrar upptalningar, tíndar nánast af handahófi af vefnum heilsubankinn.is
Lavender er góð gegn; bruna, sólbruna, þurrkablettum, exemi og unglingabólum. Hún er róandi, og virkar gegn kvíða, þunglyndi, svefnleysi, hormónaójafnvægi, mígreni, höfuðverkjum og meltingartruflunum, s.s. niðurgangi.
Rosemary er notuð við hverskonar vöðvabólgvandamálum,hún örvar blóðrás, er vatnslosandi, og vinnur gegn appelsínuhúð(cellulitis), bjúg, liðverkjum, gigt, er bólgueyðandi, höfuðverkjum og minnisleysi. Eykur einbeitingu, er gegn þunglyndi, lágum blóðþrýstingi og meltingartruflunum hvers konar, s.s. harðlífi, vindgangi og niðurgangi.
Peppermint er oft kölluð höfuðhreinsir. Hún er notuð þegar flensa er að búa um sig og þá til innöndunar. Fólk sem er með lágan blóðþrýsting ætti ekki að nota peppermint, því hún lækkar blóðþrýsting. Hún er því góð fyrir þá sem hafa háan blóðþrýsting. Peppermint er mikið notuð til að deyfa t.d.vöðvaverki, við höfuðverkjum og mígreni. Einnig er hún notuð við gall- og lifrarvandamálum, gigt og æðahnútum.
Juniper er hreinsandi ( hjálpar til við hreinsun eiturefna úr líkamanum), notuð gegn unglingabólum , kýlum, exemi og appelsínuhúð(cellulitis), er vatnslosandi, styrkir taugakerfið og léttir á kvíða og streitu.
Sandalwood og Juniper saman er góð blanda við exemi og þurrki á húð.
Sandalwood er mikil jafnvægisjurt, notuð við þunglyndi, taugaspennu, streitu, svefnleysi,húðþurrki, psoriasis, magakrampa, niðurgangi, ógleði og hormóna-ójafnvægi. Sandalwood er mjög hreinsandi. Og hún er einnig notuð til slökunar og við íhugun.
Rose (Rose damascena) Þessi olía er mjög dýr en það þarf mjög lítið af henni og þessa olíu má nota á kornabörn. Rose er mjög góð fyrir húðina og einnig fyrir sálina. Sagt er að Roseolía opni hjartað. Ef fólk á erfitt með að tjá sig er gott að setja Rose á efri vör til að auðvelda samskipti. Er notuð við lélegri blóðrás, harðlífi, lifrarvandamálum, magabólgu vegna streytu, þunglyndi, svefnleysi, taugaspennu, höfuðverkjum, kvíða, húðvandamálum, sérstaklega þurrki og viðkvæmri húð og einnig er hún kynörvandi.
Þetta er all svakaleg upptalning hjá höfundinum (Sigrúnu Sól Sólmundsdóttur) og hér er samt ekki nærri allt sem hún þarna telur fram um lækningamátt ýmissa imkjarnaolía. Fullyrðingar þessar eiga ekki við neinar sannanir eða rök að styðjast og sumar eiga jafnvel við alvarlega og hættulega sjúkdóma svo sem lifrarvandamál, sykursýki og sýkingar („kýli“). Slíkt var kallað skottulækningar og varðaði við landslög áður en græðaralögin svokölluðu komu til.
Reyndar, til þess að gæta sannmælis þá verður að geta þess að það eru gömul sannindi að rósailmur geti verkað kynörvandi (sjá „Rose“ í upptalningunni), en það er önnur saga
Rannsóknir
Það er erfitt eða jafnvel ómögulegt fyrir alvöru vísindamenn að finna rannsóknafé til þess að rannsaka virkni einhvers sem er mjög ólíklegt að hafi raunverulegt gagn við sjúkdómum. Gagnrýnt hugsandi vísindamenn vilja líka frekar eyða orku sinni og ævistarfi í það sem er í það minnsta trúverðugt og líklegt til árangurs. Það hefur því ekki verið gert mikið af alvöru rannsóknum á gagnsemi ilmolíumeðferða en nóg samt eins og tilvitnun hér neðar í verk E. Ernst sýnir. Það má líka með nokkurri vissu treysta því að lyfjarisarnir eru búnir að þaulskoða þessi efni í leit að efnum sem búa má til lyf úr og græða á. Ekkert slíkt hefur komið fram enda eru þessi fyrirtæki ekki þekkt að því að birta neikvæðar niðurstöður úr slíkum leitum.
Söluaðilarnir eru hins vegar vægast sagt duglegir að búa til gervivísindalega flotta texta og plaköt (sjá myndadæmi) og safna uppnumdum vitnisburðum auðtrúa neytenda sem sanna ekki neitt svo sem allir ættu að skilja. Gríðarlegt safn greina og pistla má finna um skoðanakannanir, athuganir og rannsóknartilburði sem allt með tölu er rang-, mis- eða oftúlkað til þess að styðja við trúna á virkni olíunnar og þar með söluna. Stundum gæti maður haldið að viðkomandi hafi ekki einu sinni lesið greinarnar sem þeir vitna til, svo dæmalaus er vitleysan sem sölumenn túlka upp úr rannsóknagreinum sem fjalla oft um allt annað.
Þegar rökin bregðast þá nota ilmolíusalarnir sér gjarnan klassíska útúrsnúninginn um að ekki sé hægt að sýna áhrif óhefðbundnu efnanna með hefðbundnum vísindum því þau vísindi séu „einfaldandi“ (e. reductionist) en slík vísindi geti ekki sýnt hin flóknu og dularfullu „heildrænu“ (e. holistic) áhrif. Þetta er auðvitað rökleysa en eru algeng neyðarrök hjá sölumönnum ónýtra heilsumeðferða.
Ýmsum brögðum er sem sagt beitt til þess að láta þetta allt líta sannfærandi út og því miður er alltaf til nóg af fólki sem af óskhyggju, örvæntingu, græðgi, trúgirni eða leit að auðveldri lausn lætur glepjast.
Þeir sem hafa tekið saman það sem til er af trúverðugum rannsóknum um ilmkjarnaolíur og áhrif þeirra hafa einfaldlega komist að einni niðurstöðu: Að ilmkjarnaolíur hafi ekki getað sýnt neina virkni á sjúkdóma af neinu tagi aðra en lyfleysuáhrifin margfrægu (sjá neðar). Nægir þar að vitna í lækninn, náttúrulækninn, hómópatann, vísindamanninn og fyrrverandi prófessorinn í óhefðbundum lækningum Dr. Edzard Ernst sem tekur svo til orða:
To me, it seems fairly straight forward: Aromatherapy is not demonstrably effective for any condition. It also is not entirely free of risks. Its risk/benefit profile is thus not positive which can only mean that it is not a useful or recommendable treatment for anybody who is ill.
Lausleg þýðing mín:
Fyrir mér er það nokkuð ljóst: Ilmkjarnameðferð er ekki hægt að sýna fram á að hafi áhrif á neinn kvilla. Það er heldur ekki laust við hættur. Jafnvægi ávinnings og ógnar er því ekki jákvætt og það getur bara þýtt að það er ekki nothæf eða ráðleg meðferð fyrir neinn sem er sjúkur.
Dr. Ernst er reyndar sjálfur menntaður náttúrúlæknir meðal annars og vill gjarnan finna óhefðbundnar lækningar sem gefa árangur. Hann hefur skrifað heilmikið um hvaða óhefðbundnar aðferðir séu nothæfar. Við mælum eindregið með heimasíðu hans.
Góð og auðlesin grein er til á Wikipedia um efnið. Þar eru tveir sérlega áhugaverðir kaflar um áhrifamátt (skort hans öllu heldur ) og um öryggi þessara efna. Þetta skyldu allir lesa sem láta sig efnið varða. Vel er vitnað til heimilda þar.
Sannleikurinn
Hinn ljóti sannleikur er sá að ilmolíurnar eru framleiddar, auglýstar og seldar fyrst og fremst í gróðaskyni. Lilja Oddsdóttir (Einn aðstandenda Heilsumeistaraskólans í Reykjavík) vitnar í Young Living fyrirtækið sem framleiðir vörunnar sem hún auglýsir og kennir notkun á. Maðurinn á bak við það fyrirtæki, herra D. Gary Young, er vægast sagt umdeildur og orðspor hans ófagurt. Hann græðir vel á því að framleiða efnin, predíka fyrir sértrúarsöfnuðinum sem safnast hefur kringum trúna á hans fræði, halda úti miklum lygavef um ágæti efnanna og selja þau í gegnum marglaga sölupýramíða. Hversu trúaðir sem sölumennirnir neðar í pýramídanum eru á dásemdir og mátt þessara efna þá er verknaðurinn, að selja vöru með röngum upplýsingum um notagildi og gagnsemi, jafn slæmur. Eina nafnið sem ég get ímyndað mér að réttilega lýsi ilmolíubaróninum sjálfum er Loddari, með stóru L-i. Hvaða titil má þá nota um þá trúgjörnu sem aðstoða hann við að auglýsa og selja vöruna? Græskulausir loddarar kannski.
Björn Geir Leifsson
Grein þessi birtist áður sem hluti af innleggi í tilefni af umfjöllun á spyr.is um efnið.
Grein þessa má ekki afrita að hluta eða öllu leyti nema gæta samhengis og geta réttilega um uppruna.
16.11.2019 at 12:49
Young Living olíurnar eru þær bestu sem ég hef upplifað, en auðvitað eru góðar útkomur frá notkun þeirra einstaklingsbundnar og ekki hægt að halda fram að þær séu á við lyf í apótekum. Olían þarf að passa við vandamálið í líkamanum og oft góðar fyrir mildari einkenni eins og hefur verið í mínu tilfelli. Það er þetta með gráðu og´tíðni bylgna í olíum sem ákveða hvaða einkenni þær geta lagað. Fyrir mér er það ekki um að trúa, heldur upplifa og virka verkjalyf illa í mér en þessar olíur frábærlega, og það eru Young Living olíurnar sem ég er að tala um og nota. Hef reynt ótal olíur og þær eru með mestu gæðum af öllu sem ég hef reynt. Hvað Gary sagði er svo annað. Ég er að tala frá reynslu frá að hafa fengið tækifæri til að upplifa þær.
16.11.2019 at 12:35
Ég bý í Adelaide í Ástralíu og hef notað þessar olíur með góðum árangri fyrir hjartað og fyrir hvaða sársauka sem birtist og þá Oregano sem ég blanda. Mig vantar netfang Jóhönnu Magnúsdóttur sem ég veit að hefur verið söluaðili af því að vinkona á Íslandi gæti haft gagn af því sem ég nota. En hún hefur ekki tölvu.
18.2.2019 at 20:06
Ég er með MCS, taugasjúkdóm sem gerir mig mjög næma fyrir eiturefnum (og eins og allir vita eru eiturefni í mjög mörgum vörum). Íslenskir læknar eru margir mjög fáfróðir um MCS þó það þekkist vel eftir alvarleg veikindi t.d. krabbamein. Ég verð jafn veik af ilmolíum eins og af ilmvötnum eða reykingalykt eða hreinsiefnum. Samt virðast margir halda fram að þetta drasl sé lífrænt. Það getur ekki staðist ekki bara því þetta gerir mig veika heldur því að það er ekki hægt að varðveita lífræn efni mánuðum saman án eiturefna. Svo hafa einnig fundist hormónabreytingar í ungum piltum sem notuðu tea tree oil (var skrifað um það í new england journal of medicine.) Er séns að þú gætir farið út í það í einhverri grein. Semsé lygar fyrirtækja sem segja að vörur séu lífrænar og án eiturefna þegar er ekki satt ?
28.3.2018 at 14:19
Ég googlaði nú bara í 5 mín upplýsingar úr Pub med og öðrum rannsóknarsöfnum og finn alveg rannsóknir sem sýna áhrif ilmkjarnaolía en hér á upplýst er þvi haldið fram að slíkt sé ekki að finna. Ef einhverjar rannsóknir finnast sem sýna virkni þá er ekki hægt að fullyrða um slíkt af eða á. Ég fagnaði fyrst þessari síðu en sé nú að hún er alveg jafn öfgafull án þess að innistæða sé fyrir því og þeir sem halda þvi fram að hitt og þetta hafi áhrif þó það sé ekki staðfest.Nú get ég ekki treyst neinu sem er sagt hér heldur verð að kynna mér rannsóknir sjálf 😦
Click to access A-Brief-Review-of-Current-Scientific-Evidence-Involving-Aromatherapy-Use-for-Nausea-and-Vomiting.pdf
All reviewed studies are summarized in Table 1. The searches identified four clinical studies and one review article involving a total of 328 study participants. Three (3) studies investigated postoperative nausea and vomiting (PONV) and one study focused on oncology nausea and vomiting. All studies concluded that inhaled aromatherapy served as an effective treatment for the nausea and vomiting.
Other con- siderations for practical use of aromatherapy included the reduction in antiemetic requirement such as prochlorperazine, droperidol, ondansetron, or metoclopramide, increased pa- tient satisfaction, and improved cost effectiveness.
1.4.2018 at 16:12
Sæl Stella og takk fyrir innlitið.
Eins og þú segir, þá er auðvelt að spyrja Google eða fletta upp “aromatherapy” á PubMed og finna allt mögulegt sem lítur út fyrir að sýna áhrif ilmkjarnaolía. Það tekur ekki fimm mínútur, það tekur bara eina mínútu.
En það er ekki nóg að lesa titla og útdrætti, það þarf talsverða kunnáttu og þjálfun til þess að skilja greinarnar sem upp koma og vinsa burt það sem er lítils eða einskis virði.
Það er því miður þannig og hefur versnað til muna síðastliðinn áratug, að í gagnasöfnum eins og Pubmed eru ekki bara skráðar áreiðanlegar heimildir. Þar er allt skráð, líka það sem er rangtúlkað, vitlaust gert, á ekki við efnið eða jafnvel falsað.
Í dag er pressan orðin slík á rannsakendur að framleiða vísindagreinar að víða freistast þeir til þess að framleiða rusl og falsanir og fá það birt í tímaritum sem taka borgun fyrir birtingu með falsaðri ritrýni. Vissir þú að opinber kínversk rannsókn komst að því að 80% af öllum vísindagreinum frá kínverskum rannsakendum er falsað. Þetta er sko ekkert grín.
Ofan á þetta bætist svo það sem misheiðarlegur iðnaður framleiðir af efni til að nota í markaðssetningu á fæðubótarefnum og framleiðsluvöru á borð við… já einmitt það, ilmkjarnaolíur.
Til þess að þekkja sundur alvöru vísindi, ruslvísindi eða gervivísindi þá þarf kunnáttu og þjálfun í vísindalegri aðferðafræði og tölfræði og ekki nóg með það, það þarf jafnvel verulega þekkingu á vinnubrögðum þeirra sem framleiða gervivísindi.
Tímaritið sem greinin sem þú vitnar í birtist í heitir „THE JOURNAL OF ALTERNATIVE AND COMPLEMENTARY MEDICINE“ Það birtir jákvæðar umfjallanir um óhefðbundnar meðferðir og aðferðir og ritrýni þess má segja að sé afar hliðholl öllu sem virðist styðja þann iðnað. Quackwatch flokkar tímaritið undir „fundamentally flawed“ sem mætti þýða „í grundvallaratriðum gallað“
Það er alveg rétt hjá þér að þú átt ekki að treysta neinu. En hvar ætlar þú að kynna þér það ef þú hefur ekki sjálf þá vísindalegu þekkingu og reynslu sem þarf?
Það er ein af ástæðum þess að hópurinn Upplýst varð til. Við vildum koma á framfæri trúverðugum upplýsingum um heilsutengd efni. Hópurinn er ansi stór og samanstendur af menntuðum heilbrigðisstarfsmönnum sem hafa metnað til þess að láta aðeins frá sér það sem hægt er að staðreyna og breyta gjarnan skoðun sinni í ljósi betri vísbendinga og vitneskju.
Þú segist sjálf þurfa að kynna þér rannsóknir.
Það væri þá gott að þú byrjaðir á því að kynna þér hvað þessi grein sem þú bendir á raunverulega segir okkur. Lastu hana í alvöru alla? Ég spyr vegna þess að hún sýnir alls ekki það sem þú virðist halda að hún geri.
Af hverju vitnaðir þú ekki frekar í niðurstöðu greinarinnar og reyndir að greina hvað raunverulega er útkoman úr þessu verki í stað þess að taka eitthvað úr henni sem virtist styðja efasemdri þínar um að við höfum rétt fyrir okkur?
Í þessari grein er enga sönnun þess að finna að ilmkjarnaolíur hafi nýtilega virkni og höfundarnir segja það í raun þótt þær reyni að fegra myndina.
Titill greinarinnar gefur til kynna að um sé að ræða stutta samantekt (review) á rannsóknum um áhrif ilmkjarnaolía á ógleði og uppköst. Samantektir á vísindalegum rannsóknum eru framkvæmdar á kerfisbundinn hátt samkvæmt sérstökum vinnuferlum. Þær kallast „systematic reviews“. Þá er beitt öguðum kerfisbundnum aðferðum við að meta og sameina vitneskjuna úr mörgum vísindarannsóknum og meta hvort þær geta saman gefið styrka trúverðuga mynd. Þessi grein lýsir ekki alvöru systematic review.
Í greininni gera malaísísku höfundarnir tveir, enga raunverulega tilraun til þess að meta og skýrgreina gæði þeirra fimm rannsókna sem voru eftir þegar þær höfðu vinsað burt það sem ekki fjallaði um efnið.
Niðurstaðan er í raun að ekki neitt kom út úr þessu.
Samt reyna höfundar að hljóma jákvæðir í sinni niðurstöðu og segja fyrst að engifer- og piparmyntulykt gæti haft verkun á ógleði og uppköst hjá skurð- og krabbameinssjúklingum.
Taktu eftir laumuorðinu „gæti“, sem er algengt í svona greinum þegar verið er að reyna að fegra niðurstöðu ómarktækra rannsókna.
Síðan draga höfundarnir í land og viðurkenna að þótt heildarútkomurnar (í fleirtölu) „virðast lofandi“ þá sé ekki hægt að draga neinar ályktanir vegna aðferðagalla, smæðar rannsóknahópa, rangrar hönnunar rannsókna, ónákvæmni mælitækni og rangrar notkunar lyfleysu, mismunandi skömmtunar og skömmtunaraðferða.
Sem sagt, engar ályktanir er hægt að draga af niðurstöðum þessara fimm greina. Í raun hefðu höfundar átt að henda út öllum greinunum sem ómarktækum. Það kemur best fram í töflu 1 í greininni.
Samantektin í útdrætti greinarinnar er enn meira villandi. Flestir sem eru í leit að staðfestingu á trú sinni lesa bara titilinn og útdráttinn og halda að það sé nóg:
Þetta má þýða um það bil svona:
Þær vísbendingar sem til eru eru hvetjandi en samt ekki sannfærandi. Þess vegna er þörf á frekari vel hönnuðum stórum rannsóknum áður en hægt er að staðfesta virkni [ilmkjarnaolía] við meðhöndlun ógleði og uppkasta með vissu.
Í raun þýðir þessi orðaleikur einfaldlega:
Þær rannsóknir sem til eru um efnið eru rusl. Ekki eru til neinar rannsóknir sem staðfesta virkni ilmkjarnaolía við ógleði og uppköstum.
En það gátu þær stöllur auðvitað ekki sagt því annars hefðu þær ekki fengið greinina birta í tímariti sem birtir aðeins jákvæða umfjöllun um óhefðbundnar meðferðir. Þær hefðu heldur ekki fengið hana birta óbreytta í virtu og óhlutdrægu vísindariti.
28.1.2014 at 09:30
Þó sumar aðferðir kannski „lækni“ engann, geta þær linað einkenni. Góð og upplýst umræða gerir öllum gott og það að við séum meðvituð um múltímiljón dollara iðnaðinn sem í kring um þetta er. Ég hallast að því að ef það sem þú prufar hjálpar þér, þá er það fínt, hvort sem það eru lyfleysuáhrif (trúin á mátt vörunnar) eða annað, svo lengi sem það er ekki að skaða og fólk heldur vöku sinni.
3.12.2013 at 10:46
Ég er mjög sammála því sem hér kemur fram, en langar að segja eitt. Ég fékk einhverntímann gefins brúsa sem var með piparmintu olíu og var ráðlagt að nudda þessu á gagnaugað og anda þessu að mér við hausverk, þetta hjálpaði alveg til.
Svo er ég líka mjög hrifin af lykt og fræði í kringum hana, eins og margar konur, og menn vita að það getur haft áhrif á skapið hvernig ilmvatn eða lykt þú berð á þig og það sama virkar ekki fyrir alla.
3.12.2013 at 16:04
Sæl Sigrún og takk fyrir innleggið.
Það er að sjálfsögðu rétt að ilmur og lykt leikur stórt hlutverk í lífi okkar eins og annarra dýra. Viss rokgjörn efni eins og í piparmyntuolíu eða til dæmis Eucalyptus geta haft örvandi og notaleg áhrif á slímhúð í efri öndunarfærum og eflaust hjálpað við slökun. En það læknar engan. Höfuðverkur er kjörið dæmi um streitutengd einkenni sem flest lyfleysuefni og sefandi aðferðir geta haft góð áhrif á. Að manni batnar höfuðverkur þýðir ekki að það var akkúrat það sem maður gerði áður en hann lagaðist, sem olli batanum. Sú rökvilla er ágætlega skýrð á íslenska wikipedia vefnum.
En það að það sé góð og notaleg lykt af sumum þessum vörum, og „fullt af fólki“ haldi að það hafi einhver áhrif sem ekki er hægt að sýna fram á, réttlætir ekki þá sölumennsku sem fram fer með þessi efni á röngum og villandi forsendum og enn síður ósannar fuyllyrðingar um lækningavirkni sem geta leitt til tafa á réttri meðferð svo dæmi sé tekið um hætturnar af þessu kukli.
Björn Geir