Víðsýni og gagnrýni

Í þessari grein fjalla ég um mikilvægi þess að vera víðsýnn en á sama tíma vera gagnrýninn á það ótal marga sem verið er að rannsaka út um allan heim. Varkárni er lykilatriði þegar að túlkun gagna og rannsókna kemur. Ég tek ómega-3 fitusýrur sem dæmi þar sem það er svið sem ég gjörþekki, en það sama á við um flest önnur svið heilbrigðisvísindanna.

Dæmið um ómega-3 fitusýrurnar

Í tengslum við doktorsnám mitt í heilbrigðisvísindum fór ég á margar ráðstefnur, hér heima og erlendis.  Ráðstefnurnar erlendis voru flestar tileinkaðar fituefnum, enda var rannsókn mín á því sviði.  Þar komu saman hundruð vísindamanna frá öllum heiminum og kynntu niðurstöður rannsókna sinna.  Rannsóknirnar voru langflestar um ómega-3 fitusýrur.  Fitusýrurnar voru mældar í fæði eða í líkama manna eða dýra.  Í sumum tilvikum var mönnum eða dýrum gefið ómega-3 eða fæði ríkt af þeim og breyting mæld, ýmist í líkamsvökvum eða vefjum. Mat var lagt á líkamsstarfsemina með einhverjum hætti, eða fylgst með þróun sjúkdóma eða áhættuþátta þeirra.

Er ómega-3 svarið?

Eftir að hafa varið nokkrum dögum í að hlusta á fyrirlestra, lesa veggspjöld með texta og myndum, og ræða við allan þennan fjölda hámenntaðra reynslubolta í faginu, er auðvelt að draga þá ályktun að aukin neysla ómega-3 fitusýra sé svarið við velflestum sjúkdómum mannkynsins.  Þar má nefna Alzheimer, astma, athyglisbrest, beinþynningu, bólgusjúkdóma í æðum, liðum og meltingarvegi, einbeitingarskort, einhverfu, elli, exem, fyrirburafæðingu, fæðingarþunglyndi, geðhvörf, geðklofa, gleymsku, háþrýsting, heilablóðfall, hjarta- og æðasjúkdóma, iktsýki (gikt), ýmsar tegundir krabbameins, lesblindu, meðgöngueitrun, ofnæmi, ofvirkni, ófrjósemi, óreglulegan hjartslátt, ótímabæra blindu, sóra (psoriasis), þunglyndi, sjálfsofnæmi og svefnröskun ungbarna.  Já, það er auðvelt að sannfærast, og boða ómega-3 sem svarið við flestum heilsufarsvandamálum nútímans.  Það væri hægt að ganga svo langt að boða trú á ómega-3 fitusýrur, eins og hver önnur trúarbrögð.  En þá kemur sér vel að vera gagnrýninn og víðsýnn á sama tíma.

Verum gagnrýnin

Gagnrýnin vegna þess að rannsóknirnar eru misjafnar að gæðum, og jafnvel þó rannsókn sé vönduð, þá verður að túlka niðurstöðuna í samræmi við eiginleika rannsóknarinnar.  Faraldsfræðilegar rannsóknir sem sýna fram á fylgni eða tengsl milli neyslu á einhverju næringarefni eða fæðutegund og minni sjúkdómshættu geta aldrei sannað orsakasamhengi.  Þetta er vegna þess að fjöldinn allur af truflandi orsakaþáttum geta haft áhrif á niðurstöðuna, og jafnvel valdið fölskum tengslum.  Það er hægt að leiðrétta fyrir þekktum truflandi orsakaþáttum, en það er aldrei svo að þeir séu allir þekktir.  Fylgnirannsókn getur aðeins gefið vísbendingu sem þarf að kanna nánar með svokallaðri íhlutandi rannsókn, þar sem næringarefnið eða fæðutegundin er gefin í stöðluðum skömmtum og fylgst með áhrifunum á áhættuþætti eða þróun sjúkdóms.  Helst þarf að vera viðmiðunarhópur sem ekki fær viðkomandi næringarefni/fæðutegund á sama tímabili, og velja þarf einstaklinga í báða hópana með slembivali.  Best er ef þátttakendur rannsóknarinnar hafa ekki hugmynd um hvaða næringarefni/fæðutegund verið er að mæla eða hvort þeir fái óvirkt efni, lyfleysu (placebo).  Og allra best ef sá sem fer yfir gögnin veit það ekki heldur.  Slík rannsókn er sögð tvíblind.

Leitum staðfestingar

Ein íhlutandi rannsókn sem sýnir lækkun í einhverjum áhættuþáttum eða minni líkur á þróun sjúkdóms, er heldur ekki endanleg sönnun þess að neysla viðkomandi næringarefnis/fæðutegundar minnki hættu á viðkomandi sjúkdómi.  Nei, það þarf að gera margar rannsóknir sem sýna sömu niðurstöðu og skoða málið frá öllum hliðum.  Það getur tekið mörg ár, og jafnvel áratugi, að komast að endanlegri niðurstöðu og í rauninni verður niðurstaða aldrei endanleg.  Við þurfum alltaf að vera tilbúin að endurskoða afstöðu okkar ef nýjar og betri rannsóknir benda til annars.

Berum saman

Þegar maður fer að kynna sér allt það sem birt hefur verið í ritrýndum tímaritum um tengsl einhverrar fæðu og tiltekins sjúkdóms, þá kemst maður að því að það eru alltaf einhverjar rannsóknir sem sýna jákvæða niðurstöðu, aðrar sem sýna hlutlausa niðurstöðu (engin áhrif), og enn aðrar neikvæða niðurstöðu.  Jákvæða niðurstaðan er síðan missterk, og neikvæða niðurstaðan sömuleiðis.  Til að draga skynsama ályktun þarf að bera saman niðurstöður hundruða eða jafnvel þúsunda rannsókna.  Skoða niðurstöðurnar ofan í kjölinn, bæði gæði rannsóknanna, hvort túlkun þeirra sé rökrétt og skynsamleg, og hvort framkvæmdin sé sambærileg frá einni rannsókn til annarrar.

Verum víðsýn

Það er ekki nóg að vera gagnrýninn, það er ekki síður mikilvægt að vera víðsýnn.  Ómega-3 er ekki eina næringarefnið sem verið er að rannsaka í sambandi við ofantalda sjúkdóma.

Það eru haldnar hundruðir vísindaráðstefna um allan heim á hverju ári. Og þar eru vísindamenn jafn ákafir að kynna rannsóknir á D-vítamíni, E-vítamíni, öðrum vítamínum, andoxunarefnum, hlutfalli natríums og kalíums (utanfrumu- og innanfrumujóna), sykurstuðli, ýmsum steinefnum, vatnsleysnum og óvatnsleysnum trefjum, lágkolvetnafæði, reglulegum föstum, glútensnauðu fæði, fæði manna á steinöld og bronsöld, jurtafæði, hráfæði, fæði inúíta, fæði frumbyggja Ástralíu og Ameríku, fæði Masaj manna og búskmanna í Afríku, fæði íbúa Kákasusfjalla, fæði á grísku eyjunum, Miðjarðarhafsfæði, fæði bramína á Indlandi, hefðbundið kínverskt og japanskt fæði og svo framvegis.  Og á þessum ráðstefnum er líka að finna vísbendingar um tengsl við sjúkdóma, eða minni líkur á öllum þeim sömu sjúkdómum sem ég taldi upp áðan, og jafnvel enn öðrum sjúkdómum.

Allar þessar rannsóknir eru sömu takmörkunum háðar og rannsóknirnar á ómega-3 fitusýrum sem ég kynnti mér á sínum tíma.

Sýnum þolinmæði

Næringarfræðin er ung vísindagrein, og margt áhugavert sem verið er að rannsaka.  En ég myndi fremur segja að þekking okkar á tengslum næringarefna og fæðutegunda við sjúkdóma og sjúkdómsáhættu þokist í rétta átt, heldur en að henni fleygi fram.  Þó hundruðir eða þúsundir vísindagreina á sviði næringar og heilsu séu birtar á hverju ári, er vafasamt að elta það heitasta og gera að söluvöru eða reka hræðsluáróður byggðan á veikum grunni.  Staðgóð þekking myndast smám saman á löngum tíma.  Þolinmæði er því dyggð á þessu sviði eins og öðrum.

Anna Ragna Magnúsardóttir  næringarfræðingur

Þessi pistill er eign höfundar og má hvorki afrita hann né nota efni hans án leyfis.

Síðast endurskoðað 27. febrúar 2017