Tilbaka: …og lyfjarisarnir leyna henni

Surgery

Höfum það alveg á hreinu, krabbameinsmeðferð – hvort sem það er lyfjameðferð, geislun, skurðaðgerð eða blanda af þessum aðferðum – er engin auðveld vegferð. Aukaverkanir geta verið grimmar og óvægar. Meðferðir sem miða að því að eyða krabbameinsfrumum í líkamanum hafa einnig áhrif á eðlilegar frumur.

Og stundum, því miður, ber meðferðin ekki þann árangur sem óskað er. Við vitum að það er mjög erfitt að meðhöndla langt gengin mein sem hafa dreifst um líkamann. Meðferð getur gefið líkn frá einkennum og lengt líf en er sjaldan lækning við langt gengnum krabbameinum.

Skurðaðgerð er enn lang áhrifaríkasta aðferðin þegar hægt er að beita henni. Til þess þarf að finna meinið nógu snemma. Geislameðferð stuðlar að fleiri árangursríkum lækningum en lyfjameðferð. Samt leikur frumudrepandi lyfjameðferð stórt hlutverk í krabbameinsmeðferð – í sumum tilfellum læknandi, í sumum lengir hún líf.

Fullyrðingin sem oft sést á vefmiðlum, að lyfjameðferð sé „aðeins áhrifarík í 3% tilfella“ er löngu úrelt, röng og villandi. Því efni hafa verið gerð góð skil í tveimur greinum á blogginu „Science Based Medicine“.
Við skrifuðum einnig þennan pistil í tilefni af áhyggjum af því að frumudrepandi lyfjameðferð gæti „stuðlað að krabbameini“.

Það er mikilvægt að benda á að lyfin verða sífellt betri og verka oftar og betur. Til dæmis, þá læknast nú 96 af hundraði karlmanna af eistnakrabbameini miðað við færri en 70% á áttunda áratugnum, þökk sé lyfinu Cisplatin. Og þrír fjórðu barna með krabbamein læknast í dag, miðað við aðeins fjórðung seinni hluta sjöunda áratugarins. – flest læknast þau þökk sé lyfjameðferðum.

Við vitum að það er langt í land að við höfum áhrifaríkar, mildari meðferðir fyrir allar gerðir krabbameina. Og það er mikilvægt að læknar, sjúklingar og aðstandendur geri sér raunhæfar og heiðarlegar væntingar til bestu meðferðarmöguleika sem í boði eru hverju sinni – sérstaklega við langt genginn sjúkdóm.

Það getur verið betra að halda sig við meðferðarmöguleika sem miða að því að minnka verki og önnur einkenni (líknandi) en að reyna að freista þess að lækna meinið. Að finna jafnvægi milli lengdar og gæða þess lífs sem eftir er, mun alltaf verða álitamál við krabbameinsmeðferðir, þar verður hver sjúklingur að fá að meta og velja fyrir sitt leyti.

Næsta: Þjóðsaga 9 – Engar framfarir hafa orðið í meðferð…