Upplýst.org fjallar um afvegaleidd fræði, úrræði og svindl sem tengjast heilsu. Margt getur farið úrskeiðis þegar reynt er  að setja saman eitthvað til að bæta heilsu fólks.  Þörfin fyrir að gera góða og stóra hluti er sterk en það hefur margsinnis í sögu mannkyns farið úrskeiðis og alls kyns hugmyndir og kerfi hafa reynst reist á óskhyggjunni einni saman.

Vísindaleg aðferð krefst talsverðrar ígrundunar og lærdóms og það er ekki sjálfgefið að fólk átti sig á tilbúningi og geti greint milli hans og staðreynda.  Alls kyns mýtur um starfsemi mannslíkamans og hvað sé gott fyrir heilsuna hafa alltaf grasserað í menningarsamfélögum, bæði vestrænum og austrænum.  Gagnrýnin og vísindaleg hugsun gengur út á það að afla þekkingar án tillits til þess hvernig við viljum að lífheimurinn hagi sér. Aðferðirnar krefjast algers heiðarleika og hlutlægrar hugsunar þannig að áreiðanleg þekking náist. Varkárni, nákvæmni, tilraunir, endurmat og þrautseigja skipta miklu máli.

Litið yfir söguna

Upp úr 17. öld átti sér stað nokkuð sem átti sér ekkert fordæmi í sögu mannkyns; tækni og vísindi uxu hröðum skrefum og þegar 20. öldin rann upp, var það mikil grunnþekking samansöfnuð, að byltingarkennd úrræði litu dagsins ljós á hverjum áratug. Í kjölfarið hurfu kukl, gervifræði, gervilækningar, skottulækningar og heilsutengd hjátrú nærri því af sjónarsviðinu.

það leið um hálf öld þar sem lækningar af vísindalegum grunni ruddu sér til rúms og fólk lofaði framfarirnar. En tíðarandinn átti eftir að breytast og því miður komst undiralda gervifræða á flug á ný. Í þessari grein segir frá þáttum í þeirri sögu og baráttunni hérlendis fyrir því að rétta kúrsinn af á ný. Samskonar þróun átti sér stað víða í löndum vestrænnar menningar. 

Arfleifð íslenskra alþýðulækninga dó mikið til út nema hvað náttúrulækningar varðar, það er grasalækningar með íslenskar jurtir. Einna þekktast var að „fjallagrösin“ ættu að búa yfir einhverju heilnæmu sem fólk reyndi að nýta sér.  Svo kom lúpínan og þá tóku grasalækningar þá óvæntu stefnu að lúpínuseiði Ævars Jóhannessonar (upp úr 1988) urðu einskonar fánaberi þeirra.

1970 – 1995: Afstæðishyggja og nýöld

Afstæðishyggja um þekkingu (sú skoðun að sannleikurinn er bara sá sem kemur úr hverjum munni, óháð rökstuðningi) fór að kræla á sér upp úr 1970 með svokölluðum póst-módernisma.  Upp úr miðjum 9 . áratugnum varð svo til svokölluð nýaldarbylgja, með alls kyns trú á yfirnáttúrulega hluti, miðla, transmiðla, talnaspeki, reiki, forn-austrænum alþýðufræðum, orkusteinum, álfum, seglum, árum, árunuddi og alls kyns tilraunum með fæði og „heildræn“ fræði.  Um leið voru vísindi og læknisfræði töluð niður og einblínt á takmarkanir þeirra. Þau voru talin einblína á líkamann en yfirsjást andlega hliðin. Auk þess væru þau spillt af lyfjaiðnaðinum.

Nýaldarbylgjunnar varð talsvert vart hérlendis og er e.t.v. frægast í því sambandi, samkomur nýladarfólks við Snæfellsjökul þar sem beðið var eftir því að geimverur kæmu niður til jarðar á ákveðnum fyrirfram spáðum tíma. Þetta náði ákveðnu hámarki árið 1993 þegar mikið stóð til og koma geimveranna var auglýst. Helgi Hrafn Guðmundsson lýsir þssu skemmtilega í vefritinu Lemúrnum. Þessi geim-nýaldarbóla hjaðnaði eins og allar gervifræðabólur en fram til ársins 2010 mátti lesa að enn væri fólk að reyna að komast í tengsl við geimverur.  Árið 2013 voru leikarar að spá í að setja upp leikrit um þennan “speisaða” viðburð tíu árum áður. Magnús Skarphéðinsson, áður þekktur sem “líflegur” strætóbílstjóri og hvalavinur, hafði sig mikið í frami á þessum árum og kom síðar fram í nafni Sálarrannsóknarfélagsins. Hann hélt víða fyrirlestra og boðaði hann trú á álfa og hvers kyns furðuhluti. “Frægt” var þegar hann taldi sig sjá ljósálfa á ljósmyndum en reyndur ljósmyndari útskýrði að “álfarnir” væru í rauninni skemmdir í myndunum. Um þetta var fjallað í Kastljósinu.  Fólk vissi ýmist ekki hvort að það ætti að hlæja eða gráta yfir þessu. Árið 2010 lýsti Hið Íslenska Geimverufélag yfir því að Jón Gnarr væri ekki geimvera.

Á tíunda áratugnum ruddi veraldarvefurinn (internetið) sér til rúms í hinum iðnvædda heimi og árið 1995 kom Microsoft með Windows 95 stýrikerfið sem stórjók fjölda notenda einkatölva, ásamt notendum Macintosh tölva. Með netinu opnaðist byltingarkennd leið til að kynna hugmyndir, fræði og vörur.  Með þessu stóðu jaðarhópar allt í einu jafnfætis því viðtekna og tækifærin til að kynna sig uxu. Því miður boðaði þetta ekki bara gott því að gervifræði tókust á flug og alls kyns óvandaðir netmiðlar tóku við “vísindum” gagnrýnislaust. Það sem lá áður í skugga komst nú í dagsljósið og það var málum blandið.  Blekkingar og samsæriskenningar áttu auðveldar með að berast um heiminn.

colorvensl-gervifraeda1-5x
Heilsutengd gervifræði geta tengst á ýmsa vegu.  Höf. Svanur Sigurbjörnsson.

1996 – 2005:  Gervifræði og græðarar hreiðra um sig.

Þetta byrjaði á einfaldan máta. Gömul grasafræði (alþýðulækningar) og yfirgefin gervifræði eins og hómeópatía (smáskammtalækningar) voru grafin upp, en svo tók þetta á sig æ meiri mynd skipulagðra gervifræða í bland við nýtískuleg heilsusvindl.  Þessi heilsusvindl byggðu sum á ákveðnum sölukerfum (pýramídasvindl) og svo marg-milljóna markaðsherferðum eins og með aloa-vera æðið og Live-wave plástrana.  Allt í einu var lífi blásið í skóla sem kenndu alls kyns gervifræði og fólk tók í talsverðu mæli að eyða tíma, fé og vinnu í að læra þau.  

Þetta náði ákveðnu hámarki hér í kringum árið 2005 og sums staðar erlendis voru „óhefðbundnar og hjálækningar“ komnar inn í heilbrigðiskerfi þannig að fólk gat fengið þessa heilsutengdu þjónustu niðurgreidda.  Hérlendis voru samþykkt lög um græðara í maí 2005, þar sem settur var ákveðinn rammi um starfsemi þeirra. Lögin kváðu ekki á um faglega viðurkenningu en í skjóli þeirra gat til dæmis hópur græðara stofnað Heilsumeistaraskólann, þar sem því var flaggað um tíma að hann væri viðurkenndur af menntamálaráðuneytinu. Stofnað var bandalag ákveðinna gervifaga: Bandalag Íslenskra Græðara (BÍG) sem samkvæmt lögunum hafði umsjón með veitingu faglegra viðurkenninga fólks í heilbrigðistengdri starfsemi. Galli við lagaumgjörðina er að afar fáir aðilar í gervilækningum eru hluti af “fagi” og skrá sig því ekki í BÍG.

Þessi faraldur gervifræða og mýta var einnig farinn að skaða verulega bólusetningar stórra þjóða eins og Breta og mislingar farnir að gera vart við sig á ný. Í vísindagrein sem var birt í The Lancet (1998), einu merkasta læknavísindariti Breta, ýjaði stjórnandi rannsóknarinnar, Andrew Wakefield, þá starfandi læknir, að því að MMR bóluefnið gæti valdið einhverfu. (Meira um það síðar).  

Bullið hafði náð of langt. Það má segja að hérlendis hafi viss toppur náðst með táknrænum hætti, þegar kona ein sagðist geta heilað DNA og talað við stofnfrumuna sína í beinni útsendingu í Kastljósþætti á RÚV. Magnús Karl Magnússon, læknir, var andmælandi hennar í þessum eftirminnilega þætti. Um þetta leyti var ekki óalgengt að alls kyns heilarar og gervifræðingar fengju kynningu á undrum sínum í Kastljósinu.  Eitt sinn í Kastljósinu kynnti manneskja sem „hlustaði á blómin“ það hvernig hún veldi jurtir í vatnsfyllta krukku.

Upp úr aldamótunum fóru unnendur vandaðs heilbrigðiskerfis, fríu frá eyðileggjandi og afvegaleiðandi áhrifum gervifræða, mýta og samsæriskenninga, að sporna við fótum.  Þessi grasrót var einna helst utan stofnana og fyrirtækja í heilbrigðisgeiranum, og má nefna félagsskapinn Vantrú þar helstan hérlendis en þeir byrjuðu með Kjaftæðisvaktina, blogg um heilsukjaftæði.  Magnús Jóhannsson læknir hafði á 10. áratugnum skrifað gagnrýna pistla í Morgunblaðið og uppskar gremju fólks sem taldi heilbrigðisstarfsfólk ekki nógu opið fyrir nýjungum.  Ýmsir aðrir voru Magnúsi þakklátir fyrir að standa í þessu einn. Heilbrigðisstéttir voru lítt á varðbergi gagnvart gervifræðum/gervilækningum á 9-10. áratugunum og sögðu jafnan: “Það er líklega í lagi með”. Slík óvirk afstaða fór því að fá á sig brag samþykkis.

Á Íslandi tóku rannsakendur sig til í teymi með Bjarna Þjóðleifssyni, meltingarlækni,  og gerðu rannsókn til að skoða hvort að þessi tengsl sem Andrew Wakefield hélt fram ættu sér stað. Niðurstaða þeirra var að tilgáta Wakefield stæðist ekki.  Um þetta má lesa í grein þeirra í Læknablaðinu árið 2002.

2006 – 2017: Til varnar vísindum

Heilbrigðisstarfsfólk hérlendis fór að sjá að stöku foreldrar afþökkuðu bólusetningar fyrir ungabörn sín. Svanur Sigurbjörnsson læknir tók að blogga um gervivísindi og kukl upp úr 2007. Jafnframt hélt hann fyrirlestra og varaði við mýtunni um skaðsemi bólusetninga. Sóttvarnarlæknar Landlæknisembættisins, Haraldur Briem og Þórólfur Guðnason, vöruðu einnig við þessari samsæriskenningu um bólusetningar.  Það kom síðar í ljós að breski læknirinn (Andrew Wakefield) sem hratt æðinu af stað hafði falsað gögn í grein sína og missti hann lækningaleyfi sitt í kjölfarið.

Undir lok árs 2009 hafði áberandi Detox meðferðarapparat Jónínu Ben fengið á sig ítarlegt kvörtunarbréf fjögurra fagaðila til Landlæknisembættisins sökum ólöglegra auglýsinga um „detox-læknismeðferð“ sem engin var, fleiri rangfærslna og varasamra starfshátta. Málið var áberandi í fjölmiðlum í nokkrar vikur. Matthías Halldórsson, starfandi landlæknir tók málið föstum tökum og gaf út greinargerð þar sem atriði i auglýsingum Detox voru sögð brjóta lög.  Jónína fékk tilmæli um að leiðrétta rangfærslurnar á heimasíðu fyrirtækisins, en hún ákvað frekar að fara með málið í útvarpsþátt á Bylgjunni og úthúða þar þeim sem kvörtuðu. Eftir það hrundi þessi starfsemi.

Í mars 2010 var birt í Læknablaðinu grein Magnúsar Jóhannssonar, Sifjar Ormarsdóttur og Sigurðar Ólafssonar, lækna um lifrareitranir sem raktar voru til neyslu á náttúruvörum frá Herbalife.  Í kjölfarið fór fram nokkur umræða í fjölmiðlum um efnið og í tengslum við þing matvæla- og næringarfræðinga síðar það ár komu Magnús og Fríða Rún Þórðardóttir, næringarfræðingur fram í fréttaviðtölum þar sem spurt var um fæðubótarefni.  Magnús hefur endurtekið farið í viðtöl vegna fæðubótarefna m.a. Í Mannlega þættinum á Rás 1 RÚV í maí 2015.

Vantrú og Siðmennt buðu frægum afhjúpara heilsusvindls, töframanninum James Randi til landsins árið 2010.  Hann hélt 3 klst. fyrirlestur fyrir troðfullum sal (um 270 gestir) þar sem hann meðal annars reyndi „hómeópatískt sjálfsvíg“ með því að innbyrða fullt glas af hómeópata-töflum (remedíum). Það misheppnaðist vitaskuld, enda hafa gervilyf hómeópata hvorki virkni né eiturvirkni.  Það má sjá þennan eftirminnilega fyrirlestur Randi á upptöku. Sérstakur heiðursgestur á fyrirlestrinum var töframaðurinn Baldur Brjánsson, en hann og Randi eiga það sameiginlegt að hafa afhjúpað stórfellt heilsusvindl andaskurðlækna á Filipseyjum sem þóttust skera mein úr fólki með höndunum. Báðir sýndu í hverju trikk andalæknanna lá með því að endurgera það í sjónvarpi.

Þann 18. apríl 2013 var haldið málþing í Háskóla Íslands en tilefnið var starfslok Magnúsar Jóhannssonar prófessors emeritus. Aðalfyrirlesari var Dr. Edzard Ernst frá Bretlandi sem boðið var til landsins af þessu tilefni. Dr. Ernst og vísindablaðamaðurinn Simon Singh skrifuðu saman metsölubókina Trick or Treatment?  (Bót eða brella? 2008) um gervifræði og gervilækningar.  Dr. Ernst lærði hómeópatíu á sínum yngri árum en komst að því að hún stóðst ekki vísindalega skoðun. Hann sá fólk skaðast af gervilækningum og ákvað að berjast gegn þeim. Upptökur af fyrirlestrum málþingsins eru hér. Það var við hæfi að heiðra Magnús, sem allan sinn starfsferil vann að framgangi og verndun vísinda hérlendis, með þessum góða baráttumanni úr alþjóðasamfélaginu.

Hallgrímur Magnússon, nánast einn lækna hérlendis, hafði í rúma tvo áratugi boðað alls kyns gervifræði sem gengu fram af fólki í starfsstétt hans.  Landlæknisembættið hafði ítrekað afskipti af honum og reyndi að fá hann ofan af þessu, en án árangurs. Hann lést af slysförum árið 2015. Annar læknir Gunnar Rafn Jónsson, tók í lok síns starfsferils að “predika” fyrir “samtvinnuðum lækningum” og tók undir alls kyns mýtur, m.a. gagnvart bólusetningum. Hann blandar líka guðstrú og bænum í boðun sína. Eitthvað hefur borið á því að hjúkrunarfræðingar hafi tekið upp gervifræði eins og höfuðbeina- og spjaldhryggsmeðferð og sitthvað annað. Vigdís Kristín Steinþórsdóttir, hjúkrunarfræðingur, hefur líkast til gengið lengst af þeim en hún er þekkt fyrir bókstaflega álfatrú sína og hefur haldið einhverskonar heilunarhátíðir árlega yfir helgi í grunnskóla í Mosfellsbæ. Það er einstaklega slæmt þegar heilbrigðisstarfsfólk heldur á lofti gervifræðum og gervilækningum því að þá mást frekar út skilin í hugum fólks á milli þeirra og lækninga af vísindalegum toga.

Um tíma var hópur sem kenndi sig við „heilsufrelsi“ nokkuð virkur og rak pólitískan áróður fyrir því að fólk fengi frelsi til að verja fé heilbrigðistrygginga almennings í þau úrræði sem það óskaði sjálft, þ.e. þau gervifræði sem hópurinn talaði fyrir. Í tengslum við þetta málefni kom í nóvember 2012 fram þingsályktunartillaga frá varaþingmanni á Alþingi um að stofna nefnd til að ræða það hvort græðarar gætu fengið aðgang að greiðslum heilbrigðistrygginga.  Svanur Sigurbjörnsson, læknir brást fljótt við og skrifaði greinargerð með sundurliðaðri röksemdafærslu gegn tillögunni. Allir þingmenn og fjölmiðlar fengu greinargerðina og málið fór í Kastljósið.  Þar lagði Svanur m.a. fram skýrslu breskrar þingnefndar (frá 2010) sem ályktaði að hómeópatía væri engu betri en lyfleysa.  Í kjölfar þáttarins kom Læknafélag Íslands með yfirlýsingu um að óásættanlegt væri að samþykkja þingsályktunartillöguna. Þetta dugði til að Alþingi gaf henni ekki brautargengi.

Heilsufrelsishópurinn hélt ráðstefnu um málið árið eftir (2013) sem var auglýst víða. Þar talaði ofangreindur Gunnar Rafn Jónsson, læknir, meðal gervilækna.  Skömmu síðar hélt Svanur Sigurbjörnsson læknir, fyrirlestur á opnunardegi fræðsluþings heimilislækna og kom þar fram á grafískan máta, að nær allt sem talið er „óhefðbundið“ hefur ekki sannað gildi sitt. Óábyrgur málflutningur Heilsufrelsishópsins á vefsíðu hans var gagnrýndur. Þetta fékk tíma í fréttum sjónvarpsstöðva og virkaði sem ágætis mótsvar frá stétt lækna. Læknablaðið birti viðtal við Svan skömmu síðar. Það virðist sem Heilsufrelsi hafi lagt að mestu niður baráttu sína eftir það. Fólk telur líka almennt að það sé mikilvægara að fá sálfræðiþjónustu, þjónustu næringarfræðinga og tannlækningar í meira mæli inn í heilbrigðiskerfið.

Ýmsir hafa gagnrýnt gervifræði og kukl í bloggum sínum og ýmsum fjölmiðlum, m.a. Björn Geir Leifsson læknir í bloggi og Vitleysuvaktinni á Fb, Anna Ragna Magnúsardóttir næringarfræðingur og doktor í heilbrigðisvísindum á Heilræði.blogspot.is, Sigurður Hólm Gunnarsson, iðjuþjálfi, á Skoðun.is og fleiri. Pétur Tyrfingsson, sálfræðingur (og um tíma formaður félags sálfræðinga) var duglegur að gagnrýna gervilækningar og árið 2007 mótmælti hann því opinberlega að einn starfsbróðir hans, Gunnar Gunnarsson, sálfræðingur, tók upp á því að nota höfuðbeina- og spjaldhryggsjöfnun, gagnslaust gervifag.  Pétur skrifaði um þetta grein í dagblað og kom fram í Kastljósinu. Í útvarpsþættinum Harmageddon á X-inu 97,7 hafa þeir Frosti og Máni gagnrýnt gervilækningar í mörg ár og fengið þar bæði gagnrýnendur og meðmælendur til skrafs við sig. Í mars 2011 stofnuðu áhugafólk um gagnrýna umfjöllun um gervivísindi félagið Raunfélagið og skráðu sig fljótlega rúmlega 30 manns í félagið.  Það hefur aðallega verið virkt sem opinn umræðuhópur á Fésbókinni

Í bylgju gervifræðanna hafa einnig ýmsar samsæriskenningar blómstrað og ýmsir farið offari í tækniótta, m.a. gagnvart erfðabreyttum matvælum, rafbylgjum, örbylgjum (gemsaótti), wi-fi bylgjum og segulsviðum. Í Upplýst-hópnum eru lífvísindamenn sem hafa þurft að takast á við ýmsar þessar mýtur og reynt að uppfræða með greinaskrifum.

Fjölmiðlamaðurinn Þorbjörn Þórðarson stóð að gerð þáttar um spámiðla sem þóttust vera einhvers konar sjáendur um hagi fólks (Í þáttaröðinni Brestir) og var sýndur á Stöð 2 í mars 2015. Skipst var á viðtölum við gagnrýnanda, Sindra Guðjónsson (formann Vantrúar) og verjendur, t.d. þekkta miðla eins og Þórhall Guðmundsson, sem fengust við þáttagerð í sjónvarpi og útvarpi í “góðærinu”. Í þessum þætti Bresta afhjúpar Sindri aðferðir miðla við að lesa fólk; svokallaðan kaldan lestur, sem virkar þegar grandalausir viðmælendur gera sér ekki grein fyrir því að miðillinn (lesandinn) hefur veitt upp úr þeim ýmsar upplýsingar eða giskað á eitthvað sem “passar”.  Gagnrýninn viðmælandi sér aftur á móti auðveldlega í gegnum blekkingarnar.

Í mars 2015 var ákveðinn tímamótaþáttur í Kastljósinu á RÚV.  Þar var komið upp um gróft heilsusvindl tveggja aðila sem reyndu að svíkja fé út úr langveiku fólki með því að selja því „nanóvatn“. Rætt var við ýmist fagfólk á LSH í tengslum við málið, m.a. krabbameinslækninn Gunnar Bjarna Ragnarsson, og Magnús Karl Magnússon, lækni og þáverandi forseta Læknadeildar HÍ. Daginn eftir var viðbótarþáttur sem fylgdi málinu eftir og þá í formi viðtals við Svan Sigurbjörnsson lækni, sem útskýrði ýmsa þætti í eðli heilsusvindls og gervifræða. Þessir þættir voru mikil vakning um það hversu alvarleg heilsusvindl eru í gangi og nauðsyn þess að vera á varðbergi.

Í seinni þættinum vakti Svanur athygli á því vandamáli að apótek seldu mikið af ósannreyndum fæðubótarefnum og jafnvel bógus fæðuóþols-greiningartæki.  Það væri slæmt að neytendur gætu ekki treyst því að fagleg sjónarmið réðu því hvaða vörur væru teknar til sölu hjá lyfsölum.  

Í ágúst/september 2015 bauð Siðmennt, breska heimspekingnum Stephen Law til landsins og hélt hann röð fyrirlestra um ýmis málefni, m.a. Um það hvers vegna fólk trúir oft kjaftæði en hann skrifaði bók undir heitinu Believing Bullshit, How Not to get sucked into Intellectual Black Hole (Promethius books, 2011) (Kjaftæði kyngt, Hvernig koma á í veg fyrir að sogast vitsmunalega inn í svarthol). Fyrirlestrar hans voru vel sóttir.

Í febrúar 2016 fluttu að því er virðist astandendur vefsíðunnar Tveggja heimar inn töfralækninn Shaman Durek til fyrirlestrahalds hérlendis. Vantrú gagnrýndi þetta harðlega og fór svo að haldinn var umræðuþáttur á hlutlausum vettvangi (Kex hostel í Reykjavík) sem Sölvi Tryggvason fjölmiðlamaður stýrði.  Til að andmæla kuklaranum kom Brynjar Örn Ellertsson, lífefnafræðingur, á vegum Vantrúar.  Umfjöllun og upptaka af þættinum má sjá í dálkinum Lífið, skrifað af Frosta Logasyni útvarpsmanni. Brynjar Örn hefur skrifað gagnrýnið um gervilækningar og heldur úti fésbókarsíðunni Vísindamaðurinn.

Í framhaldi af umræðunni um sölu alls kyns fæðubótarefna í apótekum (sem varð m.a. í prentmiðlum) komu Freyja Jónsdóttir, klínískur lyfjafræðingur og Svanur fram í Kastljóssþætti í desember 2016 þar sem rætt var um muninn á lyfjum, náttúrulyfjum og náttúruvörum, og hvaða merkingar væru leyfilegar á umbúðum. Einn vandinn við bylgju gervifræðanna er gríðarleg framleiðsla á alls kyns fæðubótarefnum sem mörg hver eru auglýst á vafasaman máta. Neytendavernd er ábótavant á Íslandi (og víðar) í þessum málaflokki.

Áframhaldandi barátta í mótsagnakenndum heimi

Hér hafa verið rakin nokkur atriði í sögu þessara átaka hérlendis á milli talsmanna gervifræða og vísinda. Of langt mál er að lýsa öllu því sem hefur átt sér stað fram til dagsins í dag, en talsverður árangur hefur náðst í baráttunni gegn þekkingarlegri afstæðishyggju, mýtum og gervifræðum.  Upplýst-hópurinn er þverfaglegur hópur fagfólks í raungreinum vísinda sem kom saman árið 2012 að frumkvæði Magnúsar Jóhannssonar læknis. Vefsíðunni er haldið úti til að hjálpa Íslendingum að fræðast um þessi efni á íslensku.  Það er dapurlegt og mótsögn fólgin í þeirri stöðu að þegar þekkingin á lífi, heilsu og sjúkdómum hefur aldrei verið meiri, skuli hleypidómar, afvegaleidd hugmyndakerfi, gervilækningar, samsæriskenningar og mýtur ráða för fjölda fólks, og í skjóli þess blómstri iðnaður heilsusvindls sem nýtir sér stöðuna. Við þessu vill Upplýst-hópurinn sporna.

Svanur Sigurbjörnsson, 5. 3. 2017.

Vitna má í efni þessarar greinar og endursegja efni hennar sé heimildar getið.