Tilbaka: Krabbameinsmeðferðir drepa fleiri en þær bjarga

ChemoProgress2

Þetta er einfaldega ósatt. Þökk sé framförum í rannsóknum, hafa lífslíkur krabbameinssjúklinga tvöfaldast í Stóra Bretlandi síðastliðin fjörutíu ár, og dánartíðni hefur minnkað um tíu af hundraði á síðasta áratug einum. Í raun þá lifir nú helmingur sjúklinga að minnsta kosti í tíu ár eftir greiningu. Þessi grein eftir yfirlækni okkar, Professor Peter Johnson, lýsir helstu meginatriðum í þessu efni.

Þessar tölur eiga vitanlega aðeins við sjúklinga sem voru greindir með krabbamein fyrir tíu árum eða meira. Það eru líkur á því að þeir sem greinast í dag eigi von á enn betri lífslíkum.

Til þess að átta sig á hvernig þessi sviðsmynd hefur breyst, þá mælum við með að þú hitir þér nú kaffi- eða tesopa, komir þér vel fyrir og fylgist með þessum klukkutíma langa heimildarþætti sem við aðstoðuðum við að útbúa: „Óvinurinn innra með okkur: 50 ár af baráttu við krabbamein“.  Frá fyrstu dögum lyfjameðferðar á sjötta og sjöunda áratugnum, til nútíma  „snjall-lyfja“ og markvissrar nákvæmni-geislameðferðar, þá er varpað ljósi á hversu langt við höfum komist á þessum árum.
[Viðbót þýðanda: Bókin Meistari allra meina (Emperor of all maladies) kom nýlega út í íslenskri þýðingu. Við mælum einnig eindregið með henni fyrir þá sem vilja kynna sér hina raunverulegu sögu krabbameina og meðferða við þeim]

Það er enn langt í land. Framfarir hafa reynst mun hægari við meðferð sumra tegunda krabbameina – svo sem lungna-, heila-, bris- og vélindakrabbameina. Og, þegar þú missir ástvin úr krabbameini, þá getur tilfinningin verið sú að alls engar framfarir hafi orðið.

Það er þess vegna sem við vinnum hörðum höndum að því að berja á krabbanum fyrr, til þess að koma í veg fyrir ótímabær dauðsföll af völdum þessara sjúkdóma.

Næst: Þjóðsaga 10 – Hákarlar fá ekki krabbamein