Grunnur að pistli þessum birtist áður sem hluti af bloggfærslu hér á Upplýst vefnum. Vegna nýlegra fyrirspurna flyt ég þennan texta  á síðu sem auðveldara er að finna undir fellivalmyndum á forsíðu.
Þar sem um sannanleg gervivísindi er að ræða, sem seld eru sem þjónusta af græðurum á Íslandi (samkvæmt heimildum er slík „greining“ í boði á 20 þúsund krónur hjá aðila í Reykjavík) þá flokkast þetta undir fyrirsögnina ,Svikalækningar‘.

Um leið lagfærði ég textann nokkuð og uppfærði hlekki.

Tilefni upphaflega bloggpistilsins var  svar Lilju Oddsdóttur á vefnum Spyr.is við spurningunni „Hefur virkni lithimnugreiningar verið vísindalega sönnuð?“ Lilja er einn af aðstandendum Heilsumeistaraskólans svokallaða í Reykjavík (HMS) þar sem „Augngreining“ (safnheiti lithimnugreiningar og hvítugreiningar), er kennd ásamt fleiri furðufræðum þykjustulækninga.

Svar hennar var orðrétt:

Mér finnst áhugavert að útskýra fyrir fólki sem hefur áhuga hvað  augngreining snýst um í raun, (sem er að hjálpa fólki að bæta heilsuna)  hún er ekki greiningartæki en mjög áhugaverð leið til að skoða veikleika og styrkleika fólks.

Ég bendi á þennan link á heimasíðu náttúrulæknisins Leonard Mehmauer sem almennar uppýsingar en  Leonard hefur margoft komið til Íslands að kenna og stundar rannsóknir á því hvernig sjá megi merki um blóðsykursójafnvægi ( of tengt sykursýki )  í hvítum augans.

Lithimnugreining er ein af þeim greinum „óhefðbundinna lækninga“ sem hefur verið endurtekið rækilega afsönnuð og það meira að segja með vísindalegum aðferðum.
Fyrstu heimildir um eitthvað svipað augngreiningum má finna frá 17. öld en „fræðin“ eiga í raun uppruna sinn í hugarburði eins manns í lok 19. aldar. Einfaldlega þá trúa þeir sem stunda þessi „fræði“ að lesa megi upplýsingar um ástand og horfur líkamans út úr merkjum sem sögð eru koma og fara í lithimnu augans.  Afbrigði af „fræðunum“ er lestur í æðamynstur og önnur merki í hvítu augans en þeir tilburðir hafa reynst engu nothæfari.Þar sem aðferðirnar miðast að greiningum þá er hægt að útiloka með vissu gildi þeirra ef þær reynast ekki betri en ágiskun við prófanir á raunverulegum sjúklingum og frískum til smanburðar. Til er fjöldi nægilega vel gerðra rannsókna sem sýna fram á fullkomið gagnsleysi augngreiningaaðferða, sérstaklega lithimnugreiningar. Meðal annars hafa frægir lithimnugreinendur verið látnir reyna sig við að greina alvöru sjúkdóma svo sem krabbamein, nýrna- og gallblöðrusjúkdóm undir eftirliti en árangurinn hefur í hvert skipti verið álíka nákvæmur og ef teningi hefði verið kastað. Því er með vissu hægt að afskrifa greiningargildi augngreininga og öll sala slíkrar þjónustu hlýtur að teljast svik.

Lilja svarar ekki spurningunni um hvort lithimnugreining sé vísindalega staðfest heldur snýr út úr og segir að augngreining sé „ekki greiningartæki“. Sennilega svarar hún svo til að komast hjá óþægilegri umræðu um sannanir gegn aðferðunum sem hún hlýtur að kannast við. Það er góð spurning hversu meðvituð sú vitneskja er. Líklegra er að hún sé, eins og títt er með iðkendur gervilækninga, í blindri afneitun að verja sína trúarbragðalíku sannfæringu? Þarna slysast hún reyndar sjálf til þess að svara upphaflegu spurningunni neitandi.  En hvað er lithimnugreining þá?  Sjálf spurningin var reyndar ekki um hvítugreiningu, sem er náskyld og jafn ónýt og lithimnugreining, en Lilja talar um að sú aðferð geti greint sykurójafnvægi samkvæmt kennaranum og fræðimanninum Leonard Mehlmauer sem Lilja vitnar í með tilburðum. Ekkert er hægt að finna við ítarlega leit, neitt sem styður þessa fullyrðingu og rannsóknir herra Leonard Mehlmauers virðast ekki vera birtar neinsstaðar, allavega ekki þar sem venjulega er að finna vísindalegar greinar um bæði hefðbundnar og óhefðbundnar aðferðir. Ekki er heldur neitt að finna á þeirri heimasíðu hans sem Lilja vitnar til, svari sínu til stuðnings.  Kannski Lilja eigi afrit af fræðigreinum kennara síns til þess að sýna okkur?  Við getum birt þær hér.

Blaðsíða úr kennslu bók L. Mehlmauers í hvítugreiningu. Af bók þessari má ráða að Mehlmauer er þrátt fyrir háar hugmyndir um eigin getu sérlega fákunnandi um mannslíkamann og virkni hans.
Blaðsíða úr kennslu bók L. Mehlmauers í hvítugreiningu. Af bók þessari má ráða að Mehlmauer er þrátt fyrir háar hugmyndir um eigin getu sérlega fákunnandi um mannslíkamann og virkni hans.

Nei, staðreyndin er að hvítugreining er jafn ónýt og lithimnugreining. Lilja og herra Mehlmauer hafa greinilega ekki dug í sér til þess að kyngja sannleikanum og leggja þessa vitleysu til hliðar heldur sperrast við að upphefja augngreiningafræðin í einhverja þokukennda greiningu á „veikleikum og styrkleikum fólks“ svo vitnað sé í svar Lilju. Það er alls ekki það sem aðferðafræði augngreininga venjulega er auglýst sem. Þarna er verið að klóra all örvæntingarfullt í bakkann. Eins og fyrr segir er lithimnugriening í boði hjá fjölmörgum „græðurum“ og heimildir eru fyrir að slík þjónusta kosti 20 þúsund krónur.

Til frekari stuðnings ofansögðu nægir hér að benda á gagnorða grein með ítartilvitnunum á Wikipedia.  Sérlega er kaflinn um vísindalegar rannsóknir á „fræðunum“ athyglisverður. Þar er meðal annars sagt frá rannsókn lithimnufræðings á 110 einstaklingum en meðal þeirra voru 68 með greint krabbamein. Lithimnufræðingurinn skoðaði ljósmyndir af augunum en slíkt er viðtekin aðferð við þessa iðju. Hann þekkti því hvorki til kyns eða aðstæðna viðfangsefnanna. Niðurstaðan var einföld: „Iridology was of no value in diagnosing the cancers investigated in this study“ –  „Lithimnugreining var gagnslaus til greiningar á krabbameinum í þessari rannsókn“

Augngreiningar, þar með talin lithimnugreining er sem sagt án nokkurs vafa tóm vitleysa. Þeir sem selja slíka þjónustu eða kenna slíkt ættu að vita betur og það er góð spurning hvort einhver lögin nái ekki yfir sölu á kennslu í  slíkum gervifræðum eða sölu á slíkri þjónustu?
T.d. Lög um þjónustukaup (2. kafli, 14.gr. ) eða jafnvel Almenn hegningarlög (248. gr eða 253. gr.)