Tilbaka: Krabbamein er sykurfíkill

Fungi

Þessi „kenning“ á uppruna sinn í þeirri röngu fullyrðingu að krabbamein séu alltaf hvít.

Augljós ljóður á þessari „kenningu“ er að vel hefur verið sýnt fram á að krabbamein eru aldrei gerð úr sveppagróðri. Það mundi sjást auðveldlega við meinafræðirannsókn sem nánast alltaf er gerð þegar æxli eru greind og auðvelt væri að rækta fram sveppina úr æxlum. Sveppagróður getur að sjálfsögðu einstaka sinnum fundist í eða við æxli, ef hann sýkir krabbameinsvef en það hefur ekkert með orsök eða vöxt meinsins að gera. Krabbamein eru stundum, en alls ekki alltaf, hvít á yfirborði eða í hráum skurðfleti. En mörg þeirra eru það ekki. Mjög auðvelt er að þekkja meinafræðilegt útlit sveppagróðurs við smásjárskoðun á æxlum. Prófaðu að spyrja hvaða meinafræðing eða krabbameinsskurðlækni sem er.

Forgöngumenn þessarar kolvitlausu kenningar halda því fram að krabbamein séu orsökuð af sýkingu með sveppinum Candida og að æxlin séu í raun tilraun líkamans til að ráða niðurlögum þeirrar sýkingar. Kenning þessi byggir eins og áður segir á fullkominni vanþekkingu á efninu. Engar sannanir eða vísbendingar eru til sem styðja þessa kenningu, sem auðvelt væri að staðfesta væri hún rétt..

Það eru engar vísbendingar um að þessi kenning geti staðist, hins vegar er ógrynni af sönnunum, allt frá árinu 1902,  fyrir því að krabbamein eigi uppruna sinn í göllum innan okkar eigin fruma

Það sem meira er. Allir bera með sér candida sveppi. Þeir eru hluti af eðlilegri gerlaflóru líkamans, bæði innan hans í meltingarveginum og utan. Vægar kandidasýkingar („þruska“) eru tiltölulega algengar og eru meinlitlar nema þegar ónæmiskerfið er alvarlega bælt eins og til dæmis við eyðnisýkingu (AIDS)

Hin „einfalda lausn“ heilsufúskara, sem trúa á og vinna eftir þessari kenningu, er að sprauta matarsóda (Natríum bíkarbónat) í æxlið eða jafnvel í blóðrás. Slíkt dugir ekki einu sinni til þess að ráða niðurlögum alvöru sveppasýkinga og vitanlega enn síður krabbameina. Þvert á móti þá er vel staðfest að slík inngjöf getur haft lífshættulegar afleiðingar.

Lyf gegn sveppasýkingum eru áhrifarík en lækna engin krabbamein. Ef svo væri þá yrði baráttan við krabbamein afar auðveld.

Það eru reyndar til rannsóknir sem benda til þess að matarsódi geti haft áhrif á æxlisvöxt sem komið hefur verið fyrir í músum eða í tilraunaglösum, með því að minnka sýru í umhverfi þeirra. Það þýðir ekki að slík meðferð sé nothæf í raun. Fáar og smáar rannsóknir hafa verið gerðar á því hversu mikinn matarsóda hægt er að gefa áður en eitrun verður og hvort matarsódagjafir geti minnkað verki af völdum krabbameins en ekkert hefur komið út úr því og engar rannsóknir eru til sem benda til þess að matarsódi geti verið nothæf lækning við krabbameini, hvorki í músum né mönnum.

Sennilega er ekki hægt að dæla í líkamann svo miklu magni af matarsóda að það dugi til þess að hafa marktæk áhrif á sýrustig í umhverfi krabbameinsæxla í mönnum. Nýrun og öndunin vinna hratt og áhrifaríkt gegn breytingum á sýrustigi líkamans. Það magn matarsóda sem hægt væri að gefa inn gæti í mesta lagi haft lítilsháttar áhrif til lækkunnar á sýrustigi kringum æxli sem er á stærð við títuprjónshaus. Nægur matarsódi til þess að hafa umtalsverð áhrif á sýrustig í umhverfi æxlis mundi valda alvarlegu sjúkdómsástandi sem kallast „blóðlýting“ (alkalosis).

Næst: Til er kraftaverkameðferð við krabbameini…