Hvernig greinum við áreiðanlega þekkingu byggða á vísindum frá blekkingum og gervifræði byggð á gervivísindum?

Taflan hér að neðan gefur gagnlegan samanburð til að huga að.

Vísindi Gervivísindi eða heilsusvindl
Niðurstöður þeirra eru f.o.f. birtar í vísindatímaritum sem taka aðeins við efninu eftir rýni nefndar óháðra vísindamanna og viðhalda ströngum stöðlum um heiðarleika og nákvæmni. Niðurstöður þeirra eru birtar í ritum sem beint er að almenningi. Það er engin rýni annarra, engir staðlar, engin leit að staðfestingu frá öðrum rannsóknum, og engar kröfur um nákvæmni.
Krafist er að hægt sé að endurtaka rannsóknina með sömu niðurstöðu; skýra þarf mjög nákvæmlega frá rannsóknaraðferðum svo þær megi framkvæma annars staðar og þær endurbættar. Niðurstöðurnar er ekki hægt að endurtaka eða sannreyna af öðrum. Rannsóknaraðferðunum, ef til staðar, er iðulega svo óljóst lýst að er ekki hægt að skilja hvernig þær fóru fram eða út á hvað þær gengu.
Horft er eftir villum eða neikvæðum niðurstöðum og þær rannsakaðar áfram því rangar tilgátur geta oft leitt til annarra réttra ályktana með endurskoðun hlutanna. Horft er framhjá neikvæðum niðurstöðum eða þær afsakaðar, faldar, logið um þær, dregið úr þeim, gefnar gerviskýringar, látnar líta út eðlilegar eða látnar gleymast hvað sem það kostar.
Með tímanum er meira og meira lært um þau efnislegu ferli sem rannsökuð eru.  Stundum eru búin til tæki (t.d. rafeindasmásjá) byggð á því sem lærst hefur. Engin efnisleg fyrirbæri eða ferli finnast eða eru rannsökuð.  Engar framfarir verða; ekkert haldbært er lært.  Engin tæki eru smíðuð út frá þeim
Sannfæra með vísun í rannsóknargögn, með rökræðu sem byggist á rökrænni og/eða stærðfræðilegri málfærslu, að því marki sem gæði gagnanna leyfa. Þegar nýjar niðurstöður eru betur studdar en þær gömlu, eru þær nýju teknar upp og þær gömlu aflagðar. Sannfæra með vísun í trú og traust. Gervivísindi hafa sterkan trúarlegan blæ: þau reyna að snúa, en ekki sannfæra. Maður á að trúa þeim þrátt fyrir staðreyndir málanna, ekki vegna þeirra.  Upphaflega hugmyndin er aldrei aflögð, sama hvað staðreyndirnar og mótrök benda á.
Vísindamaður vinnur ekki við, mælir með, né markaðssetur ósannaða vöru eða þjónustu.

Hann segir frá bæði kostum og göllum meðferðarúrræða.

Gervivísindamaður vinnur fyrir sér að hluta eða að fullu með því að selja vafasamar heilsuvörur  (t.d. bækur, námskeið, og fæðubótarefni) og/eða þjónustu (t.d. ofnæmisgreiningu, persónulestra og skilaboð að handan).  Hann segir ekki frá göllum/ takmörkunum vörunnar eða þjónustunnar.

Fólk sem heldur fram gervifræðum, iðkar gervilækningar (kukl, undralækningar) og aðilar sem standa í hreinræktuðu heilsusvindli (T.d. þeir sem framleiða Lifewave plástrana og jóna-armböndin) hafa gerst æ kræfari síðustu ár og koma með alls kyns staðhæfingar sem hljóma vísindalega og vitna jafnvel í rannsóknir sem standast ekki skoðun.  Það er því hægara sagt en gert fyrir fólk sem er ekki menntað í vísindalegri aðferð að greina á milli þekkingar og blekkingar.  Það er þó alltaf hægt að hafa þann fyrirvara á að spyrja vísindamenntað fólk áður en maður kaupir vöru eða þjónustu af vafasömum uppruna.

Svanur Sigurbjörnsson, læknir

(Yfirfarið 2017).

Höfundaréttur:  Leyfilegt er að afrita og dreifa efni greinarinnar en geta skal heimildar.