Upphaflega birt 28.8.2007

Um miðbik 20. aldarinnar náði virðing almennings fyrir nútíma læknisfræði og vísindum hámarki.  Stórfelldar framfarir urðu á sviðum skurðlækninga og smitsjúkdómalækninga og ungbarnadauði minnkaði á dramatískan máta.  Læknar voru litnir á sem eins konar guðir því fólkið var þeim og vísindunum svo þakklátt og taldi þá vita best.  Fólk sá að vísindin og rökhyggjan virkaði og bætti lífsgæði þeirra á mjög áhrifaríkan máta.

Nú 40-60 árum síðar er þetta óðar að gleymast.  Fólk er vant því að fá hátækniþjónustu og að börnin þeirra vaxi úr grasi án teljandi áfalla.  Fólk er farið að gleyma því af hverju það hefur það svo þægilegt í dag, af hverju það þarf ekki að hreinsa kamarinn sinn sjálft, af hverju það deyr ekki lengur úr lungnabólgu á besta aldri eða örkumlast hægt og rólega úr holdsveiki.  Læknarnir og vísindamennirnir eru ekki lengur hetjur, heldur ófullkomnir heilbrigðisstarfsmenn sem verða á sífelld mistök og eru hluti af stóru bákni sem skilar „tapi“ á ári hverju.  Langur biðtími, hneyksli, lokanir, dýr lyf, hnýsni í persónuupplýsingar, mótsagnakenndar niðurstöður rannsókna og annað neikvætt er sífellt borið á borð almennings gegnum fjölmiðla landsins á meðan kuklarar fá ókeipis auglýsingu á remidíum sínum gegnum kynningar í blöðum og sjónvarpi.

Kerfi kolbrenglaðra hugmynda um starfsemi líkamans og hvernig hægt sé að lækna fólk fær að flæða óhindrað og ógagnrýnt um upplýsingarásir þjóðfélagsins með þeim árangri að almenningur eyðir nú hundruðum milljóna árlega í argasta kukl sér til tímabundins hugarléttis.  Krafan um viðurkenningu kuklins verður æ háværari og þær raddir hafa heyrst að ríkið eigi að reka kuklstofnanir líkt og Þjóðverjar eða Englendingar hafa leiðst út í, í einhverjum mæli.   Ég sé fyrir mér að brátt verði ekki milljónum heldur milljörðum eytt í þessi endurgerðu „nýju föt keisarans“ hér á landi.  Þessi þróun er verulega varasöm og veldur ekki bara töf á greiningu sjúkdóma og einstaka sorgleikjum heldur einnig skemmdum á menntun þjóðarinnar.

Í góðærinu blómstraði kuklið sem aldrei fyrr og átti sér lítil takmörk í stærð og yfirgengileika.
Í góðærinu blómstraði kuklið sem aldrei fyrr og átti sér lítil takmörk í stærð og yfirgengileika.

Nýlega greindi ég útbreidda sveppasýkingu í húð barns, hvers foreldri hafði farið fyrst til hómeopata og fengið smyrsl hjá honum sem innhélt m.a. vaselín.  Útbrotið stækkaði.  Barnið vældi stanslaust á biðstofunni af vanlíðan.  Sýkingin er auðveldlega meðhöndluð með réttri greiningu og lyfjafræðilega framleiddu lyfi úr apóteki.  Ég get ekki álasað sterkt foreldrinu því hegðun þess er einungis einkenni þjóðfélags sem er orðið sjúkt af ranghugmyndum kuklsins.

Professor Richard Dawkins er einn af þeim vísindamönnum sem hefur tekið að sér að fjalla um þessi mál og vara við hættunni af þessari þróun.  Í nýlegri tveggja þátta röð heimildamyndar sem hann kallar „Óvinir skynseminnar“ tekur hann fyrir hjátrú og haldvillur kuklsins.  Hér er hlekkur á upptöku af seinni þættinum.  Það er öllum hollt að horfa á þessa mynd.

21.8.2013 -Eftirmáli:  Frá því að þessi grein var skrifuð hefur það gerst að nokkrir Alþingismenn reyndu að koma af stað vinnu að lagafrumvarpi til að koma kuklgeiranum inn í heilbrigðiskerfið (28.11.2012).  Þessir alþingismenn lögðu fram þingsályktunartillögu sem komst sem betur fer aldrei til umræðu á þinginu. Henni var harðlega mótmælt víða, m.a. af Læknafélagi Íslands og hafði það eflaust talsvert að segja.

Lögin um starfsemi græðara frá 2005 áttu að ganga í gegnum endurskoðun fyrir lok 2010 en af því varð ekki.  Mér finnst tímabært og rétt að gera það enda ákvæði um það í lögunum sjálfum.  Baráttunni gegn kukli hefur fleytt fram og árangur náðst undanfarin ár en það má ekki sofna á verðinum.  Dreyfing upplýsinga er hröð gegnum veraldarvefinn og þannig er hægt að bæði skaða og bæta.  Óáreittar geta skaðlegar upplýsingar valdið miklu tjóni.  Stofnun samstarfshópsins Upplýst og þessa vefs ásamt ýmsu fleiru er til mótvægis og vonandi til gagns í þessum efnum.

Svanur Sigurbjörnsson, læknir.

<Höfundaréttur:  Leyfilegt er að afrita og dreifa efni þessarar greinar svo framarlega sem heimildar er getið.>