Upphaflega birt 1.8.2009.  Hér birt örlítið breytt.

 Detox er dæmigert lykilorð í kuklbransanum og eftir því sem það er víðar notað í auglýsingum og umræðu fólks sem heldur fram alls kyns staðhæfingum í tengslum við vöru eða þjónustu sem það er að selja, þá fara fleiri að trúa.  Það er nefnilega þannig að mörgu fólki virðist duga að heyra hlutina nógu oft að þá fer það að taka það sem sannleik. 

Hér ætla ég að telja upp nokkur atriði til rökstuðnings þess að fara ekki í detox prógramm eða kaupa sér vörur sem eiga að „afeitra“ líkamann.

  1. Líkaminn hefur mjög fullkomið afeitrunar- og útskilnaðarkerfi sem þarfnast ekki sérstakar hjálpar við utan þess að misbjóða því ekki með óhollum lífsháttum.  Lifrin tekur við öllu því sem við látum ofan í okkur (gegnum portal æðakerfið) og því er margt sem er afeitrað þar í svokallaðri fyrstu umferð (first pass), þ.e. ýmis efni sem lifrarfrumurnar líta á sem framandi eru brotin niður í lifrinni áður en þau komast í almennu blóðrásina.  Dæmi: Flest lyf komast aðeins að hluta inní almennu blóðrásina því að lifrin byrjar strax að brjóta þau niður.  Þess vegna eru sýklalyf stundum gefin í æð til þess að komast hjá þessu „first pass“ niðurbroti í lifrinni.  Þannig nýtist betur skammturinn. 
  2. Í blóðinu eru prótein sem binda ýmis efni og varna því að þau nái fullri verkun út í líkamann.  Lifrin tekur svo við efnunum og brýtur þau niður.  Það fer eftir ýmsum eiginleikum efnanna hversu mikil þessi próteinbinding er.  Í blóðinu, millifrumuefni og frumum líkamans eru svo einnig ýmis andoxunarefni sem varna þránun fitu og bindast rokgjörnum efnasamböndum sem mögulega geta skaðað efnaskipti og starfsemi frumnanna.  Þetta eru mikilvæg efni (ýmis vítamín eru í þessu hlutverki) en þær væntingar sem bundnar voru við uppgötvun þeirra hafa ekki náð þeim hæðum sem upphaflega var vonast til.  T.d. hafa stórir skammtar af ýmsum vítamínum umfram grunnþörf ekki gefið góða raun í forvarnarskyni við krabbameinum. 
  3. Heilinn hefur sérstaka vörn í sínum æðum þannig að hann hleypir inn mun færri efnum en önnur líffæri.  Það fer eftir svokölluðum fituleysanleika hversu mikið efni komast inn í heilann.  Þetta vita lyfjaframleiðendur mæta vel og reyna því að hanna lyf sín þannig að þau komist síður inní heilann ef að þau eiga að virka í öðrum líffærum.
  4. Úthreinsunarstöðvar líkamans.  Í fyrsta lagi eru það nýrun.  Þau losa út langmest af úrgangsefnum efnaskipta líkamans, sérstaklega svokölluðum nitursamböndum sem koma frá vöðvum.  Mikilvægt er að drekka vel samkvæmt þorstatilfinningu því þurrkur er varasamur fyrir nýrun.  Gamalt fólk getur tapað að hluta þorstatilfinningu eða kemst ekki í vatn vegna lasleika og því þarf að passa sérstaklega vatnsinntöku hjá því.  Óhófleg vatnsdrykkja getur verið varasöm því hún getur þynnt út blóðið, sérstaklega þarf að fara varlega í það að demba í sig mikið af tæru vatni (meira en 1.5 L) eftir mjög mikla og langvarandi áreynslu og svitnun (eða mikinn niðurgang/uppköst) án þess að borða með (nauðsynleg sölt eru í matnum) því það getur valdið svokallaðri vatnseitrun í heilanum.  Vegna þessa eru íþróttadrykkir jafnan blandaðir með söltum (Na, K, Cl).
  5. Í öðru lagi fer úthreinsum fram í gegnum gallvegakerfið í lifrinni og gallútganginn í skeifugörninni og eru það einkum ákveðin fituleysanleg efni og málmar sem lifrin hefur bundið við önnur efni, sem losast út þannig (gegnum hægðirnar).  T.d. það örlitla kvikasilfur sem notað var áður í viss bóluefni mælist í hægðum en ekki í blóði nokkrum klukkustundum eftir gjöf þeirra bóluefna.  Þetta örmagn kvikasilfurs var því afeitrað í lifrinni (bundið) og skilið út með gallinu og hægðunum.  Þessi útskilnaður lifrarinnar gegnum gallið skerðist ekki við gallblöðrutöku. 
  6. Í þriðja lagi fer úthreinsun fram í gegnum útgufun frá lungum (útöndun).  T.d. hreinsar líkaminn að hluta alkóhól út um andardrátt. 
  7. Yfirleitt er ekki minnst á lifur eða nýru í umfjöllun detox-kuklara á vörum sínum, aðferðum eða þjónustu.  Ástæðan er sú að þeir hafa ekki græna glóru um það hvernig afeitrunarkerfi líkamans starfa.  Samt þykjast þeir geta ráðlagt um afeitrun og telja fólki trú um að líkami þeirra sé fullur af einhverjum eiturefnum.  Snilldin felst í því að búa til sjúkdóminn fyrst og selja svo „lækninguna“.  Salan aflar $ $  og meiri $ $ eykur möguleika til að ljúga stærra, t.d. með flottum auglýsingum á forsíðu Morgunblaðsins eins og gert var í vetur. 
  8. Umfram það að drekka nóg af vatni, hreyfa sig reglulega, borða alhliða mat, lýsi og halda sér í kjörþyngd, þá er ekkert sem þarf að gera til að hjálpa afeitrunarferli og útskilnaðarlíffærum líkamans.  Þau sjá um sig sjálf.  Það sem gildir er að forðast að láta óholl efni í líkamann til að byrja með.  Það gagnast ekkert að láta hreinsa út úr sér hægðirnar með skolun ef að fólk borðar krabbameinsmyndandi mat flesta daga.  Skaðinn er skeður áður en fæðan nær í neðri hluta ristilsins þar sem til skolunar kemur og það er alls ekki ráðlagt að fara í ristilskolun daglega.  Með því að forðast brenndan, sviðinn, pæklaðan, djúpsteiktan og mikið verkaðan mat má forðast krabbameinsmyndandi efni.  Matvaran skyldi því vera sem ferskust og elduð á mildan máta þannig að hvort tveggja, góð vítamín og fitusýrur skemmist ekki, og ekki myndist hættuleg rokgjörn efni sem geta ýtt undir myndun krabbameina. 
  9. Föstur í nokkra daga eða 1-4 vikur gera meira ógagn en gagn.  Með föstu á ég hér við fæðismagn sem skilar minna en 1000 kkal á dag (fæði detox Jónínu er með um 500 kkal/dag).  Fasta veldur miklu álagi á efnaskiptin eftir 2-3 daga því þá þarf líkaminn að skipta algerlega um gír í orkuefnanotkun, þ.e. skipta úr notkun á forðasykri (í lifur og vöðvum) yfir í notkun á fitu og vöðvum.  Líkaminn verður að hafa sykur fyrir heilann og því byrjar hann að brjóta niður vöðvana til að búa til sykur úr niðurbrotsefnum þeirra (amínósýrum) í lifrinni.  Fasta umfram 2-3 daga veldur því niðurbroti á dýrmætum vöðvum og á endanum veldur minni orkunotkun líkamans og fljótari fitusöfnun á ný eftir að föstunni líkur.  Fastan eykur ferð nitursambanda um blóðið og óæskilegra smáfituefna (ketóna) sem auka álag á lifrina og því er það ástand ekki gott fyrir afeitrunarferli hennar.  Slík fasta er því á endanum líklegri til að veikja ónæmiskerfið og afeitrunarkerfið en hitt (sem er oft lofað) og getur ekki haldið áfram án þess að valda stórskaða á líkamanum.  Hún er því engin langtímalausn og er ekki réttlætanleg nema í mesta lagi 3 daga.  Föstu má nota í 1-3 daga til að byrja megrunarátak (ákveðin ögun), en eftir þá byrjun skal halda inntökunni u.þ.b. 500 kkal undir áætlaðri orkuþörf þannig að um hálft kg (3500 kkal) af fitu náist af á viku hverri. 
  10. Tíu er flott tala og því er freistandi að koma með 10. atriðið en ég læt það vera. 

Af ofangreindu er ljóst að detox kerfi eða vörur eru ekki langtímalausn og í reynd algerlega ónothæfar sem slíkar.  Í besta falli eru þær skaðlaus peningaeyðsla en í sumum tilvikum hreint út hættulegar heilsu fólks.  Besta „hreinsunin“ felst í að láta ekki of mikið og of verkaðan/brenndan mat ofan í sig.  Jafnframt er ákaflega mikilvægt að halda blóðrásarkerfinu í þjálfun með reglubundnum þolæfingum.  Ofgnótt og skortur á taumhaldi er okkar versti óvinur heilsufarslega.  Prógramm sem þjálfaði fólk í heilbrigðum sjálfsaga gerir mun meira gagn en detox-prógramm. 

Ég mæli með því að fólk byrji þjálfun undir leiðsögn og hvatningu þjálfara tvisvar til þrisvar í viku, borði fiskmeti a.m.k 2-3var í viku og taki inn eina fjölvítamín töflu með lýsi eða lýsistöflu (D-vítamín) daglega.  Bein Íslendinga eru upp til hópa hrikalega léleg og nær allir eru með D-vítamín skort yfir veturinn ef að D-vítamín er ekki tekið inn.  Auk slæmra áhrifa á bein getur skortur á því valdið vöðvasleni og slappleika.  Drekkum góða vatnið okkar (enda ókeypis) og drögum úr drykkju gosdrykkja og bjórs/víns.  Gamli góði aginn og reglusemin er það sem aldrei fellur úr gildi sama hvaða tækni er við hendi. 

Látið svo afeitrunarseglana alveg vera líka. Töframennirnir Penn & Teller tóku það bull fyrir í einum af þáttum sínum „Bullshit„.  Ég mæli eindregið með þeim.

Svo er ágætis No-tox (mitt orðalag) aðferð að sleppa eða fara mjög varlega í áfengisdrykkju.  Það er ekki sérlega falleg sjón að sjá allar fitublöðrurnar sem safnast í lifrina eftir fyllerí.  Þær verða ekki sogaðar úr rassinum sama hvað detox kuklari myndi reyna, en hverfa á nokkrum dögum án áfengis og án detox-hjálpar. 

Að endingu er mikilvægast að forðast mesta eiturefni allra tíma, þ.e. reykingarnar eins og heitan eldinn.  Ekkert eiturefni, eða réttara sagt eiturverksmiðja eins og reykt tóbak hefur örkumlað, lamað, skemmt hjörtu og drepið eins mikið af fólki um aldur fram eins og það.  Fátt væri því dapurlegra en að sjá reykingarmanneskju fara í detox prógramm án þess að ætla sér að hætta að reykja. 

Lausn okkar felst í því að forðast TOX því að með DETOX úthreinsun er of seint í rassinn gripið.

Góðar stundir  🙂

Svanur Sigurbjörnsson, læknir

<Höfundarréttur: Afritun og dreyfing efnis úr greininni er leyfileg en geta þarf heimildar.>