Tilbaka: Til er kraftaverkameðferð við krabbameini…

Pharma

Hugmyndinni um að til sé lítt þekkt kraftaverkalækning við krabbameini eða jafnvel aragrúi slíkra, fylgir sú hugmynd að stjórnvöld, lyfjaiðnaðurinn og jafnvel góðgerðarstofnanir og læknar séu í samsæri um að fela þessa meðferðarmöguleika gegn krabbameinum því þessir aðilar græði svo mikið á þegar viðteknum meðferðum.

Hvaða meðal eða aðferð sem reynt er að ota fram, þá eru rökin venjulega þau sömu: Það er auðvelt að nálgast það, það er ódýrt og það er ekki hægt að fá einkaleyfi á því svo heilsugeirinn eins og hann leggur sig er að fela það til þess að vernda eigin hagsmuni.
En, eins og margoft hefur verið skrifað um, þá er ekkert samsæri í gangi – sumt virkar bara ekki.

Það er enginnn að rengja það að margt getur betur farið hjá lyfjaiðnaðinum varðandi gegnsæi klínískra rannsókna. Þetta þarf lyfjaiðnaðurinn að lagfæra og það er nú þegar góð hreyfing á þeim málum. (Til að kynna sér þetta málefni mælum við t.d. með bókinni „Bad Pharma“ eftir Ben Goldacre).

Við hjá Krabbameinsrannsóknafélagi Stóra Bretlands þrýstum verulega á eftirlitsaðila og lyfjafyrirtæki að tryggja að áhrifarík lyf séu á boðstólum í Bresku heilbrigðisþjónustunni – á viðráðanlegu verði. Þó er mikilvægt að gera sér grein fyrir því að lyfjaþróun og lyfjaprófun kostar verulegar fjárhæðir sem fyrirtækin þurfa að endurheimta svo þau geti haldið áfram að starfa.

Vandamál í hefðbundinni heilbrigðisþjónustu þýða ekki sjálfkrafa að óhefðbundin úrræði virki. Það má nota samlíkinguna um það að þótt bílum og flugvélum hlekkist stundum á, þá sé ekki þar með sagt að fljúgandi teppi séu nothæf farartæki.

Það er hreinlega ekkert vit í þeirri hugmynd að lyfjafyrirtæki vilji eða geti leynt hugsanlegri krabbameinslækningu. Ef áhrifarík lausn er til þá mundi hún geta þýtt gríðarlegan ávinning í sölu um allan heim.

Og rökin um að ekki sé hægt að fá einkaleyfi á meðferðum standast ekki. Lyfjafyrirtækin eru ekki heimsk. Þau eru fljót að stökkva á vænlega möguleika til áhrifaríkra meðferða. Það eru alltaf tækifæri til að búa um efnin, þróa þau eða lagfæra, þannig að sækja megi um einkaleyfi á þeim. Þannig mundu þau gefa vel af sér og borga upp  fjárfestingar í þróun og prófun ef þau reynast áhrifarík.

Það er líka rétt að benda á að góðgerðarstofnanir (Charities) eins og Krabbameinsrannsóknafélag Stóra Bretlands (Cancer Research UK) og opinberlega fjármagnaðir vísindamenn eru frjálsir að því að rannsaka álitlega meðferðarmöguleika án þess að vera bundnir gróðasjónarmiðum.
Þar að auki er það óhugsandi að læknar innan opinbera heilbrigðiskerfisins – sem skrifa mjög oft og gjarnan út einkaleyfislaus samheitalyf – mundu ekki nota ódýrar meðferðir ef þær hefðu reynst nothæfar og áhrifaríkar í klínískum prófunum.

Til dæmis erum við að fjármagna stórar prófanir á Aspirini – lyfi sem fundið var 1897 og er nú eitt af mest notuðu einkaleyfislausu lyfjaefnum heims. Við erum að rannsaka hvort það geti komið í veg fyrir ristilkrbbamein í fólki með mikla áhættu, minnkað aukaverkanir frumudrepandi krabbameinslyfjameðferðar, og jafnvel komið í veg fyrir endurkomu krabbameins.

Að lokum er vert að muna að við erum öll mannleg – jafnvel stjórnmálamenn og lyfjarisa-stjórnendur. Krabbamein getur haft áhrif á okkur öll. Fólk í lyfjafyrirtækjum, ríkisstjórnum, góðgerðarfélögum og í heilbrigðisþjónustunni allri, getur líka fengið krabbamein og látist af því. Ættli það sé líklegt að þessir aðilar allir sem einn haldi samt áfram að þegja yfir kraftaverki, ef það væri til?

Við hjá Krabbameinsrannsóknafélagi Stóra-Bretlands höfum horft upp á ástvini og samstarfsfélaga berjast við krabbamein. Margir þeirra hafa lifað þá baráttu af. Margir hafa það ekki. Að halda því fram að við séum – sameiginlega eða hvert í sínu lagi – að fela „lækninguna“ er ekki bara fráleitt. Það er móðgandi í garð duglegra, einbeittra og vandaðra vísindamanna um allan heim, í garð starfsfólks krabbameinsrannsóknastofnana eins og okkar og ekki síst er það móðgandi í garð krabbameinssjúklinga og ástvina þeirra.

Næst: Krabbameinsmeðferðir drepa fleiri en þær bjarga